Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:42:08 (7702)


[11:42]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Litlu verður Vöggur feginn. Þessar breytingar voru ekki mjög merkilegar, eins og þingmenn vita, og algjörlega óbreytt fyrirkomulag á næsta ári frá því sem ríkisstjórnin hafði gert ráð fyrir. Það er að vísu gert ráð fyrir að það komi aðrar takmarkanir í staðinn eftir tvö ár, en það var allt og sumt og það skýrir ekki þessi miklu sinnaskipti miðað við þann málflutning sem hv. framsóknarmenn hafa stundað. Ég segi það enn og aftur: Hvers vegna í ósköpunum voru menn ekki tilbúnir til þess að standa að því að skoða betur hugmyndirnar um það að hafa áhrif á þróun á þessum fullvinnsluskipum?
    Ég held að það sé eitt af stærri málunum og verkalýðshreyfingin hefur verið að setja þetta mál á oddinn núna og mun gera það með auknum þunga á næstunni. Það hefði verið ástæða til þess að taka á því máli nú.