Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:23:10 (7738)


[17:23]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. talaði með miklu stolti um ábyrgðarvæðingu ríkisfyrirtækja sem væri á stefnuskrá alþýðuflokka úti um allan heim þar sem menn beittu sér ákaft í því að gera þá menn ábyrga fyrir rekstrinum sem færu með stjórn ríkisfyrirtækjanna. ( Iðnrh.: Og Ólafur tók undir.) Hann nefndi þetta fyrirbrigði sem við höfum hér til umfjöllunar, þ.e. frv. um einkavæðingu eða stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins, sem dæmi um þessa ábyrgðarvæðingu. Mig langar til að fara um þetta örfáum orðum. Mig langar til að lesa upp ákvæði til bráðabirgða II með þessu frv. til að menn átti sig pínulítið á því hver þessi ábyrgðarvæðing er sem hér er á ferðinni. En þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ábyrgð ríkissjóðs á lánssamningum Áburðarverksmiðju ríkisins, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga þessara, helst til loka samningstíma umræddrar skuldbindinga. Áburðarverksmiðjan hf. skal yfirtaka skuldbindingar Áburðarverksmiðju ríkisins samkvæmt þessum lánssamningum við stofnun og jafnframt veita ríkissjóði fullnægjandi veð í eignum sínum sem tryggingu fyrir skaðleysi ríkissjóðs vegna ábyrgðarinnar.``
    Hvað þýðir þetta í raunveruleikanum? Þetta þýðir að ríkissjóður mun áfram taka á sig fulla ábyrgð af öllum skuldbindingum Áburðarverksmiðjunnar hf. og ef rekstur fyrirtækisins gengur ekki sem skyldi mun ríkið bera fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum þessa fyrirtækis á alveg nákvæmlega sama hátt og það hefur gert fram að þessu. Hvar er ábyrgðarvæðingin þá? Ég hef ekki áttað mig á því. Mig langar til að hæstv. ráðherra útskýri það fyrir okkur hvert ábyrgðin hefur verið flutt. Hún hefur verið flutt í einn hring, fyrst til Áburðarverksmiðju ríkisins hf. og síðan til ríkisins aftur. Í raun og veru hefur því ekkert breyst.
    Síðan langar mig til að velta fyrir mér orðum hæstv. iðnrh. sem hann sagði áðan. Hann sagði að það væri ekki betri mismunun á orkuverði milli ríkisrekstrar og einkaaðila en milli óskyldra aðila í þjóðfélaginu. Þetta sagði hann á einum stað í ræðu sinni. En síðan á öðrum stað í ræðu sinni sagði hann að það væri ekkert sem bannaði mismunun á orkuverði. Ef orkusölufyrirtæki vildu gera slíka samninga þá væri ekkert sem bannaði það. Ég gat því ekki séð annað en að þetta rækist hvað á annars horn hjá hæstv. ráðherra.
    En mig langar til vegna orða hans um þessa hluti að spyrja: Er það nú ekki þannig og er ekki skemmst að minnast þess að ríkisfyrirtæki að stórum hluta, Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði, var sektuð fyrir að selja framleiðsluvöru sína á verði sem væri lægra en framleiðslukostnaður í landinu? Út frá hvaða reikningsaðferðum skyldu menn nú finna að Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði væri að selja sínar vörur fyrir lægra verð en framleiðslukostnaður gefur tilefni til? Getur það verið reiknað út frá einhverju öðru en framleiðslukostnaðinum í landinu sjálfu og orkuverðinu og öllum þeim þáttum sem standa að rekstrinum? Verður það þá ekki þannig að á þessu efnahagssvæði sem við erum búin að játa okkur undir hljóti menn að taka afstöðu til framleiðslukostnaðar í þessu fyrirtæki með líkum hætti? Ég veit það ekki en það kemur í ljós.
    En aðalerindi mitt, hæstv. forseti, í ræðustól í annað skipti í þessari umræðu er að benda á og bera fram fáeinar spurningar til hæstv. landbrh. um þetta mál. Í fyrsta lagi langar mig spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist standa að sölunni á þessu fyrirtæki. Hefur hann gert sér eitthvað í hugarlund hverjir væru heppilegastir kaupendur að fyrirtækinu? Verður það þannig að leitað verði eftir einhverjum sérstökum hópum sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta í þessu efni? Er hugsanlegt að samtök bænda í landinu hafi áhuga á að kaupa þetta fyrirtæki? Eru einhverjir aðrir fjárfestar í landinu sem hafa hugsanlega áhuga á að kaupa fyrirtæki eins og þetta? Mig langar til að spyrja hvað hæstv. ráðherra ætlar að segja við þessa aðila. Hvaða rekstrargrundvöllur er það sem hæstv. ráðherra ætlar að bjóða upp á þegar hann býður þetta fyrirtæki til sölu? Er það eitthvað sem við höfum ekki fengið að sjá eða heyra á hv. Alþingi? Það er a.m.k. ekki þannig að á borðum þingmanna liggi neitt um framtíðarmöguleika þessa fyrirtækis þar sem sýnt er fram á að hægt sé að reka það með hagnaði. Það liggur ekki fyrir. Mig langar til að frétta meira af því hvernig sá galdur á að verða að selja fyrirtæki sem hefur engan rekstrargrundvöll fyrir einhverja peninga og hvaða fjárhæðir gætu hugsanlega verið í boði.
    Ég held að hæstv. ráðherra ætti að gera okkur skýra grein fyrir því hér á hv. Alþingi hvaða starfsemi það er sem getur gert þetta fyrirtæki að rekstrarhæfu fyrirtæki.
    Ég óska eindregið eftir því að það sem látið var liggja að í umræðum fyrir helgina um að einhverjir erlendir aðilar hefðu áhuga á að taka þátt í að athuga rekstrarmöguleika þessa fyrirtækis verði dregið upp á borðið. Hvaða möguleikar eru þetta? Eru einhverjir möguleikar á að hægt sé að framleiða áburð á lægra verði á Íslandi eða á samkeppnishæfu verði í samkeppni við þessi gífurlega stóru fyrirtæki sem framleiða áburð með hagkvæmum hætti í löndunum í kringum okkur? Hæstv. ráðherra hefur m.a. bent á að orkuverðið sé nú ekki nema 7% af framleiðslukostnaði verksmiðjunnar þannig að það er varla hægt að vinna upp þann mismun, jafnvel þótt menn fengju orkukostnaðinn allan gefins þá virðist ekki vera möguleiki á því að gera þetta fyrirtæki rekstrarhæft fyrir því sem náttúrlega gæti aldrei gerst að orkuverðið yrði

fullkomlega gefið. Ég held að til þess að hv. alþm. eigi möguleika á því að gera það upp við sig hvort þeir eiga að fylgja þessu frv. eða ekki þá þurfi að setja málið skýrar fram heldur en gert er. Það er ekki boðlegt að Alþingi Íslendinga standi fyrir því að stofna til fyrirtækjarekstrar sem hefur engan rekstrargrundvöll, stofna Áburðarverksmiðjuna hf. án þess að það sé hægt að benda á það að þetta fyrirtæki hafi rekstrargrundvöll og láta boð út ganga um það að þetta fyrirtæki sé til sölu og lysthafendur geti fengið tækifæri til þess að kaupa þetta fyrirtæki. Ég segi það, hæstv. forseti, að það þætti a.m.k. ekki mjög gæfulegt hjá einstaklingum í þjóðfélaginu ef þeim dytti í hug að fara að stofna fyrirtæki sem hefði ekkert nema hallareksturinn upp á að bjóða og láta síðan það boð út ganga að þetta fyrirtæki sé til sölu. En þannig lítur þetta dæmi út í höndunum á hæstv. ráðherra. Ég held að það væri ráð að hann gæfi hv. Alþingi einhverja skýrslu um það hvernig hann ætlar að fara með það vald sem honum er falið með þessu lagafrv. ef að lögum verður.
    Hæstv. ráðherra sendi Alþb. tóninn áðan og sagði að við alþýðubandlagsmenn værum upp til hópa málsvarar ríkisreksturs. Ég held að það sé ofmælt hjá hæstv. ráðherra. Hins vegar gengst ég við því að ég tel það enga goðgá að ríkið reki atvinnustarfsemi. Ég tel reyndar að það sé sjálfsagt að ríkið geri það og sú starfsemi sem mér finnst að ríkið ætti helst að reka er starfsemi þar sem af einhverjum ástæðum einokunaraðstaða er fyrir hendi. Ég tel t.d. sjálfsagt að ríkið reki Sementsverksmiðjuna í landinu á meðan markaðurinn er raunverulega í einokunarhöndum á þessu fyrirtæki sem hér er. Það er ekki hægt að keppa við Sementsverksmiðju ríkisins með innflutningi á sementi eins og sakir standa og hefur ekki verið hægt í mörg ár. Á meðan þannig hagar til tel ég að það sé eðlilegast að það sé opinber aðili, það sé ríkið sem eigi og reki þá verksmiðju.
    Ég held líka að það hafi ekki verið neitt athugavert við það að ríkið ætti og ræki Áburðarverksmiðjuna eins og til hagaði. Meðan Áburðarverksmiðja ríkisins hafði einkarétt og hefur einkarétt á framleiðslu og sölu á áburði þá finnst mér það eðlilegur hlutur að ríkið eigi þá verksmiðju. Verði hins vegar hægt að tryggja samkeppnisaðstöðu á þeim markaði og koma málum þannig fyrir að einkaaðilar geti keppt um markaðinn þá er ekkert athugavert við það þó að fyrirtækið verði selt. En það sem ég hef athugað við þessar hugmyndir sem hér eru lagðar fram er það að hér er ríkið að leggja af stað í leiðangur sem hefur ekki verið undirbúinn sem skyldi. Menn hafa ekki getað bent á neinn rekstrargrundvöll fyrir þetta fyrirtæki en ætla samt að óska eftir því við hv. Alþingi að hér verði staðfest lög um fyrirtæki sem á sér enga framtíð. Ég vona sannarlega að menn finni framtíðarmöguleika fyrir Áburðarverksmiðjuna sem hér hefur verið rekin. En á meðan menn geta ekki bent á með hvaða hætti eigi að vinna að þeim málum þá held ég að það væri rétt að doka við. Það er ekkert að mínu viti sem tefur eða gerir stjórnendum verksmiðjunnar erfitt fyrir við það að finna nýjar leiðir til að reka þetta fyrirtæki og það væri auðvitað langeðlilegast að þau úrræði sem fyndust, þau framtíðaráform sem yrðu ofan á í höndunum á stjórnendum Áburðarverksmiðjunnar að þau áform kæmu til hv. Alþingis til staðfestingar þar sem kæmu fram allar hugmyndir og tillögur um það hvað ætti að gera. Hvaða eignir þessa fyrirtækis ætti að selja t.d. og með hvaða hætti ætti að standa að þessu máli í heild.
    Hér er eingöngu verið að afhenda hæstv. ráðherra völdin í þessu máli. Vonandi finnur hann leið til þess að nota þau með skynsamlegum hætti. En fram að þessu hefur ekkert komið fram í þessari umræðu sem bendir til þess að það sé nein lausn á leiðinni. Ég trúi því a.m.k. að menn hefðu ekki verið tilbúnir til þess að segja þá frá þeim hugmyndum sem þarna væru og skapa möguleika fyrir þetta fyrirtæki inn í framtíðina.
    Ég bendi á það að þótt það sé þannig og komi fram í þessu lagafrv. að þetta fyrirtæki hafi einkasölu á áburði í landinu fram að næstu áramótum þá er það skammgóður vermir. Það er senn liðinn sá tími sem verksmiðjan hefur til þess að selja áburð á þessu ári og það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að verði farið að flytja inn áburð fyrir næsta ár þá mun Áburðarverksmiðjan ekki fá þau viðskipti í vetur þegar menn munu sjá þau verð sem eru á innfluttum áburði til sölu sem eru verulega ódýrari en sá áburður sem þessi verksmiðja er að framleiða. Þannig að botninn getur dottið úr rekstri verksmiðjunnar á næstu mánuðum. Það eru svona hlutir sem hefðu þurft að liggja allir fyrir í þessari umræðu þannig að hv. Alþingi hefði getað verið að taka afstöðu til máls sem hefði verið fullskapað en að koma með málið eins og það liggur núna fyrir, gjörsamlega opinn og óútfylltan víxil um framtíð Áburðarverksmiðjunnar sem hefur verið rekin hér fram á þennan dag.