Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 18:09:03 (7747)


[18:09]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því að það á auðvitað að skoða hagsmuni landbúnaðarins og bænda í þessu sambandi en það á ekki að skoða þá eina. Ég bendi til að svara hæstv. ráðherra á þau orð sem fram komu í ársskýrslu stjórnar Áburðarverksmiðjunnar þar sem segir fullum fetum að miðað við óbreytta framleiðslu, þ.e. 50--53 þús. tonn á ári, þá hafi verksmiðjan möguleika á að framleiða áburð á samkeppnishæfu verði miðað við verðið eins og það er á alþjóðlegum mörkuðum þannig að það eru engin rök í raun og veru fyrir því að það þurfi að loka verksmiðjunni af þessum ástæðum eins og þarna kemur fram.
    Auðvitað er það rétt hjá hæstv. ráðherra að það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga í því að skipuleggja aukna áburðarnotkun. En má ég þá benda á það ef menn færu í að skoða hversu mikið er vanefnt af þeim fyrirheitum sem Alþingi veitti undir forustu Eysteins Jónssonar á árinu 1974, hversu mikið er vanefnt af þeim landgræðslufyrirheitum sem þá voru gefin? Væri ekki ráð að dusta rykið af einhverju af þeim loforðum og kanna hvort það getur ekki passað vel inn í það samhengi sem við erum að ræða hér?