Þróunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 22:09:28 (7766)


[22:09]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Er hægt að kaupa Alþingi? Er hægt að þagga niður í Alþingi með peningum? Því miður hefur það gerst í kvöld. Sjálfstfl. í Reykjavík gengur fyrir Alþingi. Ég er með í höndum samning, dags. 8. apríl 1992, undirritaðan fyrir hönd Sýnar hf. af Páli Magnússyni og fyrir hönd Alþingis af Salome Þorkelsdóttur og Friðriki Ólafssyni skrifstofustjóra. 4. liður þessa samnings hljóðar svo:
    ,,Útsendingarnar verða órofnar frá upphafi til loka fundar.``
    En nú hefur það gerst að peningavaldinu í borginni hefur tekist að loka fyrir Alþingi og það er gert, samkvæmt frásögn starfsmanns sem vinnur við útsendingu, að beinni fyrirskipun Páls Magnússonar útvarpsstjóra. Hann hefur þar með gengið erinda Sjálfstfl., hann brýtur samning á Alþingi og eftir því er þetta ekki merkismaður. Ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt fyrir forsetadæmið að bregðast við með mjög skjótum hætti. Þessir menn láta ekki mikið ná í sig í síma en þó hefur tekist að hafa samband við Ingimund Sigfússon sem þykist koma af fjöllum. Svona athæfi er náttúrlega algjörlega ólíðandi og þeim Sýnarmönnum til háborinnar skammar. Ég held að Alþingi geti ekki unað svona viðskiptaháttum.