Sjónvarpsútsendingar frá þingfundum

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 10:11:17 (7774)


[10:11]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur þá var samningsbrot Stöðvar 2 miklu margbrotnara heldur en það sem fram kom í því bréfi sem forseti las á forsetastól. Það sem gerðist í gærkvöldi var að í stað myndar af sal Alþingis, sem venjulega er áður en umræður hefjast, var auglýsingaskilti um áróður Sjálfstfl. í Reykjavík. Það auglýsingaskilti var á skerminum fram yfir það að fundartími hófst hér á Alþingi. Nokkrum mínum eftir hálfníu var það skilti síðan skyndilega tekið af skerminum og birtist í miðri ræðu hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson hafði síðan talað nokkra stund kom rödd Árna Sigfússonar að lofsyngja Sjálfstfl. í Reykjavík. Þeir sem ekki eru kunnugir rödd hv. þm. Jóhanns Ársælssonar hefðu því getað haldið að hann stæði hér í ræðustól að lofsyngja Sjálfstfl. í Reykjavík. Þegar það hafði verið í allnokkurn tíma kom allt í einu hin rétta rödd hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og svona gekk þetta áfram. Þannig að það er á engan hátt rétt lýsing hjá Páli Magnússyni að það hafi bara allt í einu verið tekin ákvörðun um að sýna einu sinni það áróðursprógramm sem Sjálfstfl. var búinn að kaupa inn á Sýn, sem er reyndar í eigu Stöðvar 2. Það er reyndar mjög mikilvægt og nauðsynlegt að forseti Alþingis geri sér skýra grein fyrir því hvað gerðist vegna þess að sú lýsing sem gefin var hér á forsetastól er því miður á engan hátt rétt.
    Það er svo umhugsunarefni, eins og hv. þm. Páll Pétursson vakti hér athygli á, að líklegast er Sjálfstfl. búinn að verja á bilinu 14--20 millj. kr. bara í að gera þessa sérstöku sjónvarpsþætti fyrir Sýn til viðbótar öllum öðrum kostnaði. Það eru vissulega merkileg tímamót í íslenskri stjórnmálasögu þegar einn stjórnmálaflokkur er farinn að framleiða áróðursefni fyrir sjónvarpsstöð með þeim mikla tilkostnaði sem óhjákvæmilega liggur á bak við þessa átta þætti sem þarna er ætlunin að sýna.