Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 10:16:42 (7777)

[10:16]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu um skuldastöðu heimilanna, en beiðni um þessa skýrslu var sett fram af hv. þingmönnum Framsfl. undir forustu hv. þm. Guðna Ágústssonar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að hér á Alþingi séu ræddar orsakir og afleiðingar skuldastöðu heimilanna og þessi skýrsla gefur gott tilefni til þess.
    Eftir að þessi beiðni kom fram leitaði ráðuneytið til Þjóðhagsstofnunar og óskaði eftir að stofnunin tæki saman efni í skýrsluna og greinargerð Þjóðhagsstofnunar, sem barst ráðuneytinu 6. apríl, fylgir hér með sem fskj., en skýrsla þessi er að verulegu leyti byggð á upplýsingum er þar koma fram. Ég tel rétt að geta þess í upphaf míns máls að eftir að þessi skýrsla var lögð fram á Alþingi ritaði Þjóðhagsstofnun mér bréf,

sem ég lét samstundis dreifa hér á Alþingi, þar sem fram kom að meinleg villa hefði slæðst inn í skýrsluna um skuldir heimilanna sem Þjóðhagsstofnun vann fyrir ráðuneytið og sú villa er að aukning skulda milli áranna 1992 og 1993 er ranglega sögð hafa verið 26 milljarðar á föstu verðlagi, en rétt tala er 18 milljarðar kr. Aukning á milli ára er því 7% í stað 8,7% eins og stendur í þessari skýrslu.
    Það er alveg ljóst að í skýrslunni kemur fram að skuldir heimilanna hafa vaxið mjög hratt á sl. áratug. Í árslok 1993 eru þær 256 milljarðar, sem eru 116% af ráðstöfunartekjum, en á árinu 1980 eru þær 25% af ráðstöfunartekjum. Hér er um að ræða að skuldirnar hafa margfaldast á árunum 1980--1990 og vaxið hratt sl. áratug og rúmlega sexfaldast á milli áranna 1980--1990 eða sem svarar til 15% aukningar á ári. Ég tel þó rétt að taka fram, þar sem töluvert hefur verið gert úr að skuldir heimilanna hafi vaxið á sl. ári, sem ég tek undir, að engu að síður kemur fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar að þegar tekið er mið af sl. áratug eða alveg frá 1981 til 1993 þá hafa þær á árinu 1993 hækkað um 7% að raungildi, sem er minnsta hækkun milli ára frá 1981. Ef við tökum t.d. árið 1991, hvernig breytingarnar hafa orðið þá, þá hefur hækkunin orðið um 28,8 milljarðar á móti rúmlega 16 milljörðum 1993 eða um 16,3% breyting að raungildi milli ára á föstu verðlagi. Hið sama má segja um árin 1985--1986, en þá er breyting milli ára á föstu verðlagi um 17% bæði árin 1985 og 1986 að raungildi og sama gildir árið 1982, en þá er breytingin um 18,3% á móti 7% núna á sl. ári.
    Það er líka alveg ljóst að á árinu 1983 fór verðbólgan úr öllum böndum, en á þeim tíma, 1983, var vísitölubinding launa afnumin og ljóst er að það skapaði mikið misgengi á lánum og launum sem vafalaust hefur aukið verulega skuldir heimilanna.
    Í þessari skýrslu kemur fram að skuldir heimilanna við bankastofnanir hafa breyst verulega á sl. áratug. Á árinu 1980 námu skuldir heimilanna við bankastofnanir um 18--19% af heildarútlánum, en árin 1992--1993 35--36%. Og það er alveg ljóst að skuldir við bankastofnanir, sem eru yfirleitt skammtímaskuldir og lengst af með háum vöxtum, hafa orðið til þess að auka verulega skuldir heimilanna.
    Það er líka athyglisvert í þessari skýrslu að þó að skuldir heimilanna séu mjög háar þá hefur hlutfall húsnæðisskulda í heildarskuldum heimilanna lækkað. Húsnæðisskuldirnar hafa lækkað frá fyrri hluta 9. áratugsins úr 80% í 70% nú síðustu árin og þá eru ekki meðtaldar skuldir vegna fasteignakaupa, þ.e. hin svokölluðu handhafabréf, sem ekki eru lengur á markaðnum eftir að húsbréfakerfið var tekið upp, en skuldabréf til seljenda fasteigna voru oftast til fjögurra ára og námu iðulega 25--30% kaupverðs íbúða. Og þegar tekið er tillit til þessara handhafabréfa þá má ætla að húsnæðisskuldirnar hafi á fyrri hluta 9. áratugarins verið um 90% af skuldum heimilanna á móti því að þær eru um 70% núna síðustu árin.
    Það er auðvitað áhyggjuefni að skuldir heimilanna eru mestar og vaxtabyrðin þyngst hjá tekjulægustu hópunum, en fram kemur í þessari skýrslu að hjón með 1 millj. kr. í tekjur borga 20% tekna sinna í vexti, en hjón með 5 millj. í tekjur 5% tekna í vexti. En það skal tekið fram að þetta er fyrir vaxtabætur þannig að greiðslubyrðin er eitthvað léttari heldur en þessar tölur segja til um. Skuldirnar eru mestar í aldurshópnum 31--35 ára, en lækka hratt eftir að þeim aldri er náð.
    Það er spurt í beiðni hv. þingmanna Framsfl. hvernig þessum atriðum háttar á Íslandi í samanburði við helstu nágranna- og viðskiptalönd okkar og er það fróðlegt til samanburðar. Það var svo 1980 að þá voru skuldir íslenskra heimila lægri en á hinum Norðurlöndum. Að vísu höfum við ekki upplýsingar um Danmörku, en miðað við hin Norðurlöndin voru skuldir íslenskra heimila lægri í hlutfalli við ráðstöfunartekjur og það er auðvitað athyglisvert í ljósi þess hversu stór hluti íslenskra fjölskyldna býr í eigin húsnæði. Samanborið við hin Norðurlöndin voru skuldir heimilanna hér eigi að síður lægri og þá voru skuldir norskra heimila hæstar. Fram til 1980 aukast skuldir heimilanna hjá öllum Norðurlöndum mjög hratt og umfram ráðstöfunartekjur en eftir það fara þær lækkandi hjá hinum Norðurlandaþjóðunum nema Íslandi, en þá hækkar verulega hlutfallið milli skulda og ráðstöfunartekna hér á landi. Skýringarnar sem Þjóðhagsstofnun gefur á umskiptunum á hinum Norðurlöndunum eru að þær megi rekja til afleiðinga atvinnuleysis, minni tekna hjá heimilunum, hækkunar raunvaxta, það hafi dregið úr skattafrádrætti, lækkunar á fasteignaverði, samdráttar í útlánum banka, aukins sparnaðar, ásamt því að dregið hafi úr einkaneyslu.
    Þegar skoðaðar eru aðrar þjóðir en Norðurlöndin, t.d. Þýskaland og Ítalía, þá er skuldahlutfallið vel undir fimmtungi ráðstöfunartekna, en 100--120% í Bandaríkjunum og Japan.
    Það er líka athyglisvert að skoða áhrif lengri lánstíma á skuldastöðu heimilanna, en lengri lánstími, sem hefur lengst hér verulega, t.d. vegna húsnæðisöflunar, á umliðnum árum, hefur haft afgerandi áhrif á skuldastöðu heimilanna þegar höfuðstóllinn greiðist hægar niður. Í norrænum samanburði er það talin ein meginskýringin á skuldastöðu heimilanna, þ.e. lengri lánstími þar sem skuldirnar greiðast hægar niður. Nefna má í því sambandi Finnland sem dæmi. Þar eru skuldir heimilanna með tilliti til ráðstöfunartekna og eigna lægstar, en þar er lánstíminn stystur og greiðslubyrði hæst af húsnæðislánum. Þannig að áhrifa lengri lánstíma gætir hér verulega.
    Það er ekki síst í þessari skýrslu brýnt að skoða orsakir skuldastöðu heimilanna og á því eru dregnar fram nokkrar skýringar í þessari skýrslu. Heimilin áttu íbúðirnar að verulegu leyti skuldlausar í upphafi 9. áratugarins og skýringarnar eru þær að fyrir 1980 voru lánin veitt á lægri vöxtum en svaraði til verðbólgu. Íbúðarhúsnæði hækkaði þá langtum meira heldur en almennt verðlag og það var erfitt að fá lánsfjármagn til lengri tíma. Raunvextir lána voru neikvæðir, mest árið 1974, en þá voru raunvextir skuldabréfalána neikvæðir um 25%, en allan áratuginn voru vextir neikvæðir um 15%. Afleiðingarnar voru þær að skuldirnar lækkuðu hratt, eigið fé í íbúðarhúsnæði var mjög mikið og þegar verðtryggingunni var komið á í upphafi 9. áratugarins áttu heimilin í landinu húsnæði sem var að verulegu leyti skuldlaust. Það hafði þær afleiðingar, sem ég tel að sé stór skýring á skuldastöðu heimilanna, að það þurfti að endurfjármagna nær allt húsnæðið þegar það skipti um hendur.
    Þó að það sé að mínu viti ein meginskýring á miklum vexti á skuldum heimilanna frá 1980 þá kemur þar vissulega fleira til. Það var horfið frá mikilli skömmtun á lánsfé til heimilanna sem heimilin bjuggu við. Lánstími lengdist, eins og ég nefndist hér áður, og skuldirnar greiddust hægar niður og síðan kemur til breytt aldurssamsetning á sl. áratug þegar mikil fjölgun ungs fólks varð á húsnæðismarkaðinum, sem Þjóðhagsstofnun metur að skýri um 20% af aukningu á skuldum heimilanna.
    Það er líka alveg ljóst, eins og hv. þm. þekkja, að skortur á háum langtímalánum hefur leitt til greiðsluvandræða og svo var komið á árinu 1985 að grípa varð til mjög víðtækra ráðstafana og greiðsluerfiðleikalána fyrir heimilin í landinu og frá 1985--1991 má áætla að veittir hafi verið um 6 milljarðar kr. til greiðsluerfiðleikalána. En það er líka athyglisvert að á sama tíma og byrjað er á svo víðtækri aðstoð í greiðsluerfiðleikum á árinu 1985, að á árunum 1985--1987 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 40%. En það er einnig ljóst að skýringin á þessu er að stórum hluta fyrir 1986, þá þurfti fólk að bjarga sér með erfiðum skammtímalánum í bönkum og greiðslubyrði var þung.
    En eftir 1986 jukust lánamöguleikar verulega, sem dró úr þörf fyrir skammtímalán. Hámarkslán Húsnæðisstofnunar hafa aukist verulega og sl. 10 ár hafa þau aukist til nýbygginga eða lánin til nýbygginga hafa fjórfaldast og til kaupa á notuðum íbúðum sexfaldast. Og þegar skoðaður er hluti innlánsstofnana í íbúðalánum kemur í ljós að skammtímalánin sem í bönkum voru 65% til íbúðalána 1980, það hlutfall er komið niður í 30% 1992. Og eins og ég sagði áðan er það mjög athyglisvert að í Finnlandi, þar sem lánstíminn er stystur, eru skuldir minnstar en greiðslubyrði húsnæðislána mest.
    Það er alveg ljóst að veruleg skýring á aukningu á skuldum heimilanna er aukinn aðgangur heimilanna að lánsfé, sem er mun auðveldari en var hér áður, og afnám skömmtunar á lánsfé er örugglega veruleg skýring og meira frjálsræði á lánsfjármarkaði. Fólk hefur mjög auðveldan aðgang að neyslulánum á hagstæðum kjörum, sem oft og iðulega eru boðin, bílakaup, húsgögn, heimilistæki. Yfirleitt er hægt að fá þetta með góðum kjörum og stundum vaxta- og afborgunarlaus í einhvern tíma. Ég heyrði t.d. í gær að bílaumboð var að bjóða fólki sem væri með 2--3 ára gamla bíla upp á það að fá nýja bíla án þess að borga krónu út, þar væri lánað 600 þús. vaxtalaust fyrstu 24 mánuðina. Þannig að freistingarnar eru auðvitað á hverju horni að því er varðar neyslulánin. Og ef við horfum t.d. til aukningar á Visa-notkun þá var heildarveltan 40 millj. 1984 eða 150 millj. á núvirði og 1993 er hún komin í tæpa 43 milljarða kr. eða um 285-földun á 9 árum.
    Ég held að það sé líka alveg ljóst að Íslendingar búa við ákveðna sérstöðu varðandi húsnæðismálin sem er séreignarstefnan og það er náttúrlega alveg ljóst að hún hefur haft afgerandi áhrif til þess að auka skuldir heimilanna. Íslendingar búa líka miklu rýmra heldur en t.d. nágrannaþjóðir. Hér er um að ræða 48--49 fermetra á hvert mannsbarn sem er mun minna á hinum Norðurlöndunum og allt hefur þetta áhrif til þess að auka skuldir heimilanna. Norðmenn standa okkur næst t.d. varðandi hátt hlutfall eigin húsnæðis, en þar eru skuldir heimilanna hæstar í samanburði við hin Norðurlöndin. Og það ber að hafa í huga í þessu sambandi, þegar litið er til séreignastefnunnar og hvaða áhrif hún hefur haft til þess að auka skuldir heimilanna, að í raun væru skuldir heimilanna hér á landi mun hærri ef stór hluti þeirra hefði ekki brunnið upp í verðbólgubálinu á tímum óverðtryggðu lánanna.
    En auðvitað er það ekki svo að heimilin eigi bara skuldir. Heimilin eiga verulegar eignir á móti skuldum. Skuldirnar námu, eins og ég sagði, 256 milljörðum í lok árs 1993, en peningalegar eignir voru um 190 milljarðar í lok árs 1992 og þá eru ekki taldar með eignir lífeyrissjóða, sem eru um 180 milljarðar á þessum sama tíma. Verðmæti í íbúðarhúsnæði nam um 450 milljörðum í árslok 1992 og nefna má einnig að húsnæðisskuldir heimilanna eru 38,4% af þjóðarauði í íbúðarhúsnæði.
    Ég tel mikilvægt að bankar endurskoði nokkuð sína útlánastefnu og taki mið af raunverulegri greiðslugetu fólks, en það er iðulega svo að bankar spyrja ekki um greiðslugetu fólks heldur hvaða ábyrgðir standi á bak við og oft er það svo að skuldir falla á vini og venslamenn þegar þannig er staðið að málum. Þannig að ég tel að það þurfi að auka alla ráðgjöf og fræðslu í þessu efni. Ég tel einnig mikilvægt að það fari fram greining á skiptingu á skuldastöðu milli aldurs- og tekjuhópa og ég tel það mjög brýnt úrlausnarefni. Sú eignatilfærsla sem átti sér stað í tíð mikillar verðbólgu og óverðtryggðra lána hafði í för með sér að eignum og skuldum er mjög ójafnt skipt milli aldurshópa. Og það sýnir vel kynslóðabilið og aðstöðumun fólks á hinum ýmsu tímum í sambandi við lífskjör og afkomu að í könnun Félagsvísindastofnunar 1988 kom fram að 67% íbúðareignar væru í eigu 50 ára og eldri sem höfðu greitt upp öll sín íbúðalán. Inneignir einstaklinga í innlánsstofnunum eru að stórum hluta til í eigu 50 ára og eldri, en í árslok 1993 voru rúmlega 70% innlána í eigu miðaldra fólks eða eldri.
    Ég tel því ástæðu til og félmrn. vinnur nú að því að láta fara fram sérstaka athugun sem leiðir frekar í ljós þann mun sem virðist vera milli kynslóða með tilliti til lífskjara, skulda, eigna og afkomumöguleika. Slík athugun mundi auðvelda okkur að greina þann vanda sem við blasir varðandi skuldastöðu heimilanna, sem rekja má allt til ársins 1980, og þann aðstöðumun í kjörum og aðbúnaði sem hinir ýmsu aldurshópar hafa búið við. Ekki síður mundi slík könnun auðvelda alla ákvarðanatöku við úrlausn þess að ná niður skuldum heimilanna og aðstoða þá sem mest þurfa á því að halda.
    Virðulegi forseti. Ég vil í lok míns máls greina frá því, sem rætt hefur verið hér á Alþingi bæði á síðasta þingi og nokkuð á þessu þingi, að ég tel brýnt að koma á sérstakri greiðsluaðlögun fyrir fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum. Ég greindi frá því fyrir nokkru síðan að vonir stæðu til að hægt væri að greina frá hér á Alþingi eða dreifa skýrslu um niðurstöðu nefndar sem að þessu verki hefur verið að vinna. Tími vinnst væntanlega ekki til þess, en nefndin mun á allra næstu dögum skila skýrslu um þetta efni, en hlutverk hennar var að meta gagnsemi þess að koma á fót sérstakri greiðsluaðlögun vegna greiðsluerfiðleika. Nefndinni var falið að kanna reynsluna af löggjöf á Norðurlöndunum um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki sem ekki getur staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.
    Tilgangur sérstakrar löggjafar um greiðsluaðlögun er að hjálpa fólki sem er með mikil og varanleg greiðsluvandamál til að ná tökum á sínum fjármálum. Í greiðsluaðlögun felst að einstaklingur sem er í verulegum greiðsluvanda getur leitað til dómstólanna og leitað eftir heimild til greiðsluaðlögunar. Þeir sem fá meðferð í fjármálum, ef svo má segja, þurfa að leggja fram allar tiltækar upplýsingar um eignir og tekjur sem lagðar eru til grundvallar tillögum um greiðsluáætlun sem bundin er til fimm ára. Þessi aðgerð felur í sér eins konar fjármálalega gjörgæslu, gerður er samningur við lánadrottna og áætlun um hvernig ná megi skuldum niður. Gert er ráð fyrir að skuldari lifi spart og selji eignir meðan grynnkað er á skuldum. Að þessum reynslutímabili loknu má fella eftirstöðvar niður ef skuldari hefur staðið við öll fyrirmæli greiðsluaðlögunarinnar.
    Greiðsluerfiðleikar hafa verið í brennidepli í húsnæðismálum á Norðurlöndum um nokkurt skeið og greiðsluaðlögun hefur verið ein af aðgerðum sem gripið hefur verið til til að leysa vandann. Danir voru fyrstir til að taka í lög ákvæði um greiðsluaðlögun 1984, en níu árum seinna, eða í byrjun árs 1993, tóku gildi lög um greiðsluaðlögun í Noregi og um mitt sama ár tóku Finnar upp sams konar fyrirkomulag. Í júlí nk. taka gildi lög um greiðsluaðlögun í Svíþjóð, en Svíar tóku það ráð að hinkra við og fylgjast með reynslu Norðmanna og Finna. Frumvarp þar um hefur því verið í biðstöðu, en löggjöf Svía verður mjög svipuð þeirri norsku.
    Það er samdóma álit þeirra sem hafa metið árangur greiðsluaðlögunar í Noregi að vel hafi tekist til í meginatriðum. Þetta er flókið úrlausnarefni og tekur talsverðan tíma, er í raun sértæk aðgerð sem nær ekki til mikils fjölda fólks. Eftir fyrsta árið í Noregi voru 1.100 mál komin í úrvinnslu og 315 samningar höfðu verið gerðir. Einn mikilverðasti árangur laganna eru þau áhrif sem þau hafa á frjálsa samninga milli aðila sem hafa tekið mið af þessum reglum og leitt til þess að mál hafa verið leyst með samkomulagi án þess að komið hafi til kasta hins opinbera. Nýlega hafa borist upplýsingar um reynsluna í Noregi og er nefndin að vinna úr þeim gögnum ásamt greiningu á stöðu mála hér á landi.
    Það sem vakið hefur sérstaka athygli nefndarinnar sem um þetta fjallar hér og um leið orðið til þess að renna stoðum undir þá niðurstöðu að greiðsluaðlögun hér á landi er bæði nauðsynleg og gagnleg, er að þegar athuguð eru úrræði af því tagi sem eru í boði hér á landi kemur í ljóst að þau koma sem næst að engu gagni. Þetta sést best þegar skoðaðar eru tölulegar upplýsingar frá Héraðsdómi Reykjavíkur um framkvæmd þessara úrræða. Á sl. fimm árum hefur að meðaltali verið staðfestur einn nauðasamningur hjá einstaklingum í Reykjavík árlega. Dregið hefur mjög úr því að einstaklingar hafi fengið greiðslustöðvun. Tölur sýna að á árinu 1989 var 16 einstaklingum veitt heimild til greiðslustöðvunar en engum á árinu 1993. Því miður segja þessar tölur okkur það ekki að engin þörf sé þessara úrræða. Þörfin á aðstoð við einstaklinga í fjárhagslegum erfiðleikum sést best þegar litið er til fjölda fjárnáma, uppboða og gjaldþrota einstaklinga. Nauðungarsölur íbúðarhúsnæðis voru 160 á árinu 1989 en voru 230 á árinu 1993. Á árinu 1993 voru bú 836 einstaklinga tekin til gjaldþrotaskipta í Reykjavík. Það sem sérstaka athygli vekur í þessu sambandi er að ekki fékkst króna hvorki upp í forgangs- né almennar kröfur í öllum þessum búum á sl. ári. Þessar upplýsingar gefa til kynna að þau úrræði sem nú eru til staðar, greiðslustöðvun og nauðungarsamningar, henta einfaldlega ekki einstaklingum í greiðsluerfiðleikum. Allt að einu hygg ég að hefja þurfi sem fyrst undirbúning að setningu laga um greiðsluaðlögum.
    Þetta vildi ég nefna hér í lokin sem ég tel brýnt úrlausnarefni ásamt því að sú athugun fari fram sem ég nefndi áðan sem mun auðvelda okkur að greina þann vanda sem við blasir varðandi skuldastöðu heimilanna.