Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 10:41:49 (7778)


[10:41]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Breski íhaldsflokkurinn beið sitt mesta afhroð í kosningum í Bretlandi í síðustu viku. Óheft markaðshyggja, röng tekjuskipting og almenn fátækt gerðu það að verkum að bresk alþýða hafnaði íhaldinu þar í landi. Þar byrjaði uppgjörið við íhaldið og frjálshyggjuna grálynda og grimma í sveitarstjórnarkosningum.
    Hér hefur setið við völd í þrjú ár ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, alsystir vondu ríkisstjórnarinnar í Bretlandi. Við skynjum þegar í okkar samfélagi mörg sömu sjúku einkennin í atvinnu- og efnahagsmálum og þar í landi. Hér mun einnig verða gert upp við Sjálfstfl. og ekki síður Alþfl. sem er últra hægriflokkur og hefur slökkt öll ljós jafnaðarstefnunnar. ( Gripið fram í: Rétt.) Hvar er ungi stjórnmálamaðurinn sem fór

byggð úr byggð á slitnum skóm spámannsins og spurði: Hverjir eiga Ísland? Hvernig hefur jöfnuði og lífskjörum fólks verið varið eftir að þessi leiðtogi komst til valda svo ekki sé nú talað um eftir að frjálshyggjan var leidd til valda eftir síðustu alþingiskosningar? Hefur Evrópuhugsjónin og gljáfægð gróðamusteri mammonshyggjunnar svæft þennan agnarsmáa en valdasjúka Alþfl. eilífum þyrnirósarsvefni gagnvart íslenskri alþýðu? Heyrir enginn lengur skóhljóð hins þreytta verkamanns? Heyrir enginn lengur andvarp þess atvinnulausa sem er nýtt vandamál og tengist nafni ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar?
    Eldri kynslóðin man að þetta gerðist einnig í viðreisnarstjórninni 1960--1971. Þá flúðu menn land en nú eru fjölskyldurnar strand. Við stöndum þegar frammi fyrir EB-atvinnuleysi meðal ungs fólks á Íslandi á aldrinum 17--24 ára. Það er enginn hissa þó að 40% Reykvíkinga sem kusu Sjálfstfl. í síðustu borgarstjórnarkosningum hafni stefnunni og með því fordæmi þessarar óásættanlegu niðurstöðu á Íslandi. Skólafólkið býr við brostnar vonir. Framtíðaráformum þess er nú vegna stefnu íhaldsins stefnt í tvísýnu. ( Fjmrh.: Hvar stendur Alþfl. í Reykjavík?) Þessi skýrsla staðfestir það að fólkið í landinu er að tapa. Þessi skýrsla er hrollvekja og gefur til kynna án þess að það sé sagt að einhver hluti af ungu fólki er að tapa tökum á sínum málum með þeim hætti að gjaldþrot blasir við, hæstv. félmrh. Vanskilaskuldir við ríkið, sveitarfélögin og ekki síst greiðslukortafyrirtækin í árslok 1992 eru sterkustu vísbendingarnar um gífurlega erfiðleika og trúlega enn stærri en svarta skýrslan greinir frá þar sem aðeins vanskil við ríkissjóð og greiðslukortafyrirtækin nema 15 milljörðum kr. Við getum samkvæmt þessu áætlað að 256 milljarðar nálgist 280--300 milljarða. Þessi þróun er allt öðruvísi á hinum Norðurlöndum sl. þrjú ár. Þar eru heimilin að lækka sitt skuldahlutfall. Hér hækkar það. Fólkið hér finnur að það er að tapa. Fólkið finnur að það er vitlaust gefið og rangt skammtað.
    Það er fram undan vor í okkar efnahagsmálum, sagði hæstv. forsrh. á eldhúsdegi Alþingis. Hefði þessi skýrsla legið þá fyrir hefði verið erfiðara að blekkja þjóðina. Þá hefðu allir séð að málflutningurinn var blekking, að ráðgjafarnir höfðu enn einu sinni fært keisara sinn í gagnsæjan búning. Gjaldþrotastefnan og ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnan er stærsta böl heimilanna. Það stóð aldrei til að vorið yrði eign allra Íslendinga. Þeirra vor er fyrir einkavinavæðinguna og einkavinina.
    Heimilin standa þannig að kreppan bitnar mest á börnum og foreldrar sligast þegar ekkert gengur upp. Íþróttir, sumarbúðir, dansskóli, tónlist. Þeir sem ekkert val eiga verða að skera á bestu gjöfina þó tár bliki á hvarmi. Þetta er staðreynd í íslensku samfélagi í dag vegna þeirrar stefnu sem hér er keyrð af fullum krafti fram af hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.
    Það er skrýtin tilviljun, hæstv. forseti, að þessi skýrsla um skuldastöðu heimilanna skyldi koma fram daginn eftir eldhúsdag og fimm dögum eftir að Alþingi átti að hafa lokið störfum. Hér er stærsta meinið misskiptingarkreppa. Ríkisstjórnin hefur lagt drápsklyfjar á meðaltekju- og barnafólkið í landinu. Ríkisstjórnin hefur flutt milljarða í skattatilfærslum frá fyrirtækjum yfir á herðar fólksins. Þessi skýrsla vitnar ekki síst um þessar staðreyndir. Hér kemur það fram að 1993 jukust skuldir heimilanna um 18 milljarða eða um 7% að raungildi. Í engri verðbólgu þar sem engin launahækkun átti sér stað. Þessi staðreynd segir þó ekki alla söguna. Séu skuldir heimilanna settar í samhengi við ráðstöfunartekjur fæst vísbending um greiðslubyrðina, hæstv. félmrh. Árið 1992 eru skuldir heimilanna 2% hærri en ráðstöfunartekjurnar. En slík hefur aukningin á skuldum orðið á síðasta ári að þær eru orðnar 16% hærri en ráðstöfunartekjur. Hér blasa við enn verri tíðindi en virðist í fljótu bragði. Okkur hættir oft til að reikna yfir í meðaltöl. Það gerði hæstv. félmrh. hér áðan. Og menn reyna að verja sig í meðaltölum. Ég vil hvetja hæstv. félmrh. til þess að sitja heila kvöldstund með tvö vaskaföt fyrir framan fæturnar á sér og dýfa annarri löppinni í 70 gráðu heitt vatn en hinni í 20 gráður. Meðaltalið er 45 gráður. Ég hygg að annar fóturinn kæmi skaddaður upp úr þessu vatni eftir kvöldið. Mönnum hættir til að verja sig í meðaltölum og það sem hér blasir við í þessari skýrslu, er það er reiknað á mann að skuldirnar hafi numið við síðustu árslok 970 þús. kr. og væru aðeins 3,8 millj. á fjögurra manna fjölskyldu. (Gripið fram í.) Ekki svo slæmt, segja einhverjir hér í salnum.
    Nú vill svo til að í þessu efni búa tvær þjóðir í landinu. Staðreyndin er sú að eignum og skuldum heimilanna er mjög ójafnt skipt milli aldurshópa. Fólkið sem fætt er eftir 1950 ber langstærstu skuldabyrðina og miðað við að miðaldra fólkið og eldra hagnaðist verulega og skuldir þess brunnu upp í óðaverðbólgu fyrir verðtryggingu. Því er skuldastaða þess aldurshóps sem fæddur er eftir 1950 mjög há. Þetta er jafnframt fólkið sem er að ala upp börnin, fólkið sem líka ber á bakinu verðtryggð námslán. Fólkið sem ríkisstjórnin hefur verið að skattleggja sérstaklega með þjónustugjöldum og nýjum sköttum. Eða lækkuðum barna- og vaxtabótum eða lækkuðum mæðra- og feðralaunum. Því er það fagnaðarefni að þessi athugun hefur vakið félmrn. til að fara í enn frekari vinnu og það verði leiddur í ljós sá munur sem virðist vera á milli kynslóða með tilliti til lífskjara, skulda, eigna og afkomumöguleika eins og hæstv. félmrh. sagði hér áðan.
    Nú skulum við skoða nokkrar staðreyndir úr skýrslunni. Í árslok 1993 námu skuldirnar 256 milljörðum kr. fyrir utan vanskilaskuldirnar sem ég nefndi hér áðan. Í árslok 1990 voru þær 170 milljarðar. Aukningin er 86 milljarðar eða rúm 50%. Í krónum talið hafa skuldir heimilanna því hækkað um helming. Um helming á síðustu þremur árum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þarna liggur það á borðinu.
    Skuldir hverrar fjögurra manna fjölskyldu eru tæpar 3,9 millj. og hafa því hækkað um 1200--1300 þús. á síðustu þremur árum í tíð núv. ríkisstjórnar. Húsnæðisskuldir hafa hækkað á þessu sama tímabili um rúma 65 milljarða eða tæp 52% í tíð núv. ríkisstjórnar. Skuldir á meðalverðlagi hafa hækkað minna eða um rúm 40%, úr 177 milljörðum í 248 eða um 71 milljarð. Þar er reiknað með verðlagi ársins 1993.

    Mig langar hér aftan við þessa upptalningu að vitna í texta Þjóðhagsstofnunar á bls. 8, með leyfi forseta:
    ,,Skuldir íslenskra heimila hafa vaxið með miklum hraða á undanförnum áratug. Frá 1980 til 1993 6,1-földuðust skuldir heimilanna á föstu verðlagi sem svarar til þess að skuldir hafi aukist um 15% á ári. Reiknað á mann er aukningin 4,3 föld eða 14% á ári. Hins vegar var kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aðeins 13% hærri árið 1993 en 1980.``
    Eftirfarandi lokapunktur í niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar finnst mér vera einna athyglisverðastur:
    ,,Skýringanna á þessari þróun er einkum að leita til breytinga á íslenskum fjármagnsmarkaði þar sem markaðurinn ræður mun meiru um ráðstöfun lánsfjár en áður var, hárra vaxta, einkum á síðari hluta tímabilsins og lækkun kaupmáttar á undanförnum árum.``
    Svo mörg voru þau orð. Sem sagt, markaðurinn, háir vextir, einkum á síðari hluta tímabilsins og lækkun kaupmáttar á undanförnum árum. En fleira kemur til eins og skýrsluhöfundur segir á bls. 9:
    ,,Til skýringa á aukningu skulda frá 1990 má nefna mikla lækkun ráðstöfunartekna, mikla hækkun raunvaxta og loks aukið framboð lána til heimilanna með tilkomu húsbréfakerfisins.``
    Loksins leggur höfundur til við ríkisstjórnina og gjaldþrotastefnuna. Rétt er að benda á bls. 12 um sama efni. Þar segir:
    ,,Með húsbréfakerfinu var komið á gerbreyttri skipan á veitingu húsnæðislána. Meginbreytingin fólst í því hversu lánin hækkuðu mikið. Fjárhæð lána var annars vegar tengd verði íbúðar en hins vegar greiðslumati kaupanda. Í þessu fólst að hin opinbera fyrirgreiðsla varð mun stærri hluti af fjármögnun húsnæðiskaupa en áður hafði verið. Þótt lánstími hafi verið styttur frá því sem áður var, eða úr 42 árum í 25 ár, er fullljóst að lánstíminn í heild lengdist til muna er vægi skammtímaskulda minnkaði. Miklu skipti einnig að biðtími eftir lánum var styttur niður í nánast ekkert en er húsbréfakerfið var innleitt lágu fyrir rúmar 8.000 óafgreiddar umsóknir en til samanburðar má geta að fjöldi lánveitinga á ári var um 3.000.``
    Þótt höfuðorsakir komi fram hér að framan eru þær fleiri, svo sem neyslulán og námslán sem hafa margfaldast á undanförnum árum og ég er sammála skýrsluhöfundi hver svo sem hann er sem telur þær vera breytingar á lánamarkaði, háir raunvextir, lækkandi kaupmáttur, almennt efnahagsástand og húsbréfakerfið.
    Ég vil segja við hv. þm.: Við erum hér að ræða mikið alvörumál og stöndum frammi fyrir flóknu úrlausnarefni. Félagsmálastofnanir um allt land greina frá óvenjumörgu fólki í neyð sem þarfnast aðstoðar. Atvinnuleysið og miklar kaupmáttarskerðingar, ekki síst vegna aðgerða ríkisstjórnarflokkanna hér á Alþingi í þrjú ár valda því að válegur gestur ber víða að dyrum sem er fátæktin. Átta þúsund manns eru nú án atvinnu. Skólafólkið leitar inn á markaðinn og fær lítil svör. Hvar er viljinn og viðleitnin af hálfu ríkisstjórnarinnar? Engar markverðar tillögur enda segja boðberar frjálshyggjunnar að við megum vænta þess að eiga við að búa sama atvinnuleysi og í EB-löndunum.
    Við framsóknarmenn gerum kröfu um það að atvinnuleysisvandamálið verði leyst. Það er eitt stærsta vandamálið sem við búum við. Við fordæmum þau orð forustumanna ríkisstjórnarinnar að menn verði að sætta sig við atvinnuleysið. Við tökum undir með Bubba Morthens þegar hann syngur og segir: Atvinnuleysið er komið til að fara. Þess vegna er það stærsta verkefni okkar að fara yfir skuldastöðu heimilanna, leysa atvinnuvandamálið og hefja hér nýja sókn í þessu þjóðfélagi. Það verður ekki gert með Alþfl. í félmrn. Það verður ekki gert með þessa ríkisstjórn að störfum lengur. Hún verður að fara frá.
    Hæstv. forseti. Það ber að flytja á hana vantraust vegna þess hvernig heimilin hafa verið að fara.