Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:03:58 (7797)


[12:03]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Sá þingmaður sem talaði áðan, hv. 3. þm. Reykv., minntist á breytingar á lánamarkaði og sagðist taka frelsið á lánamarkaði fram yfir skömmtun. Ég get verið honum sammála um það og ætli við séum það ekki flest hérna að aukið frelsi á lánamarkaði sé til bóta. En það er ekkert frelsi án ábyrgðar og það fylgir bæði því ábyrgð að taka lán og eins því ábyrgð að veita lán og því miður hafa bankar, sparisjóðir og sjóðirnir ekki sýnt mikla ábyrgð oft og tíðum í útlánum.
    Útlánatöpin, eins og ég hef rakið áður á þinginu í vetur, á sl. fimm árum nema um 40 milljörðum kr. Þau stafa auðvitað fyrst og fremst af miklum lánveitingum til fyrirtækja. Ég flutti tillögu um þetta hér á þinginu sem fór inn í nefnd og sofnaði þar svefninum langa og komst ekki út aftur. Þessir 40 milljarðar eru

eftir upplýsingum sem ég hef frá Þorvaldi Gylfasyni þrisvar sinnum meiri miðað við þjóðarframleiðslu en fór í súginn í sparisjóðshneykslinu í Bandaríkjunum. Þetta er talsvert meira fé en tapaðist í bankakreppunni á Norðurlöndum. Samt hefur ekkert verið gert í því hér að rannsaka ástæðurnar fyrir þessu. Þetta er önnur hliðin á málinu.
    Hin snýr líka að breyttum forsendum. Stjórnvöld eru sífellt að breyta forsendum fyrir lántöku almennings. Þessi ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir miklum breytingum. Hún hefur lækkað barnabætur, hún hefur hækkað skatta, hún hefur hækkað vexti, hún hefur lækkað vaxtabætur og hún hefur aukið heilbrigðiskostnað heimilanna. Allt þetta veldur því m.a. að fólk kemst í vandræði og ríkisstjórnin ber auðvitað líka ábyrgð á sínum gerðum og því að breyta alltaf öllum forsendum sem fólk lifir eftir.