Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:57:40 (7804)


[12:57]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. að ég hefði sagt að ég teldi að það væri ekkert gagn að þeim úrræðum sem gripið hefði verið til og við ættum að horfa meira til Norðurlanda til að finna lausnir og var þá væntanlega verið að vísa í greiðsluaðlögun sem ég nefndi.
    Auðvitað hefur það hjálpað og aðstoðað sem gripið hefur verið til á þessum vetri til að aðstoða það fólk sem hefur verið í greiðsluerfiðleikum. Ég held að það fari varla á milli mála að sú skuldbreyting sem gripið var til fyrir áramótin og veittar voru í 300 millj. kr. hafi aðstoðað fólk í greiðsluerfiðleikum. Eins það ákvæði í lögum um Húsnæðisstofnun, sem var samþykkt fyrir nokkru síðan, að fólk sem hefði búið við mikið atvinnuleysi eða langvarandi veikindi ætti kost á frestun á greiðslu lána úr Byggingarsjóði ríkisins. Eða sú lenging á lánstíma í almennum kaupleiguíbúðum sem var samþykkt hér á þinginu. Allt þetta hjálpar auðvitað fólki í greiðsluerfiðleikum og við vitum að þá má mjög mikið rekja til tekjufalls hjá fólki og atvinnuleysis. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég held að það sé ekki í öllum tilvikum sem við ættum að vera að horfa til Norðurlandanna um úrræði. T.d. að því er varðar Danmörku þá hafa þeir ekki tekið upp greiðslumat hjá fólki og meta þeirra greiðslugetu heldur er horft til veðhæfni eigna og bankarnir eru að keppa hver við annan að meta hærra og hærri veðhæfni til að fá til sín viðskiptavini. Nú eru þeir að horfa til okkar og þess sem við höfum verið að grípa til, þ.e. að koma á greiðslumati til að meta greiðslugetu hjá fólki sem mér heyrist að menn tali um að þurfi að koma inn í bankastofnanir líka. Greiðsluaðlögun nær til mjög fárra og er aðeins gripið til í neyðarúrræðum. Hún á vissulega rétt á sér en hún bjargar ekki því sem við erum að tala um hér varðandi skuldastöðu heimilanna almennt.