Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:59:49 (7826)


[14:59]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo að það kann vel að vera að veruleikinn líti sérkennilega út í augum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, ég er ekki frá því. Auðvitað er það hárrétt hjá honum að efnahagur þjóðarinnar hafði staðnað um 1988--1989. Á því tímabili var efnahagur þjóðarinnar að staðna og hagvöxturinn hafði staðnað og vissulega hefur það þrengt það svigrúm sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði til þess að bregðast við vandanum þá. En það er alveg út í hött að reyna að horfa fram hjá því, eins og hv. þm. gerir, að samdráttareinkennin sem komu fram á árinu 1992 hafi ekki haft áhrif á það svigrúm sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur haft til þess að glíma við þennan vanda. Og þegar á heildina er litið verður að segjast eins og er að þessari ríkisstjórn hefur við mjög erfiðar aðstæður tekist afar vel að halda á málum einmitt nú þegar þau lán sem fyrrv. ríkisstjórn leyfði atvinnulífinu náðarsamlegast að taka eru að koma til innheimtu.