Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:11:19 (7830)


[15:11]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá þingmanninum að þessi umræða er búin að standa lengi. En við höfum ekki heyrt svörin eða úrræðin sem koma frá ríkisstjórninni. Ráðherrabekkurinn til vinstri er tómur, þeir eru horfnir úr salnum. Ráðherrabekkurinn til hægri er einnig tómur. Þeir eru farnir. Þeir koma ekki á lokadegi þingsins til þess að gefa þjóð sinni svör hvernig þeir ætla að bregðast við. Hæstv. félmrh. fór ekkert yfir það í ræðu sinni í morgun, lofaði einungis því, sem var fallegt af hæstv. ráðherra, að skoða betur ýmis atriði sem þarna koma fram og viðurkenndi að væru mjög alvarleg.
    Við erum ekkert að leita að sökudólgum en við greinum vandann eins og hann stendur og vandinn er sá sem ég hef farið yfir að á þremur árum þegar allt hefur verið kyrrt í þjóðfélaginu, verðbólgulaust, þá hafa, því miður, skuldir heimilanna aukist um 86 milljarða plús skuldir hjá ríkissjóði, sveitarfélögum og greiðslukortum. Þetta er því langt yfir 50%, kannski 60--70% hækkun.
    Þetta eru alvarlegar staðreyndir og auðvitað hljótum við sem alþingismenn að tala alvarlega við þá ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þessum þjóðarglæp, sem bitnar ekki síst á börnum og framtíðinni. En umfram allt, hv. þm., þá geri ég kröfu um það áður en þessari umræðu lýkur, að hæstv. félmrh., svo að ég tali nú ekki um hæstv. forsrh. sem þyngsta ábyrgðina ber í þessu efni, svari því hér hverjar eru hans tillögur. Eftir því verður spurt og eftir því verður tekið.