Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:16:50 (7834)


[15:16]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt og ég fór í mínu andsvari áðan yfir aðalástæðurnar fyrir vandanum.
    Síðan vil ég benda á það að í ræðu minni áðan rakti ég nokkrar hugmyndir um úrbætur, t.d. að afnema sjálfvirku tenginguna við lánskjaravísitöluna, t.d. að fara í mjög víðtækt skuldbreytingarátak, t.d. að koma á því sem ég kalla samfellt og sveigjanlegt húsnæðiskerfi þar sem afborganir af lánum eru tengdar við tekjur manna en vextir eru fastir en ekki breytilegir eins og verið hefur. Og t.d. að efna til víðtæks átaks í uppbyggingu leiguhúsnæðis. Þetta eru atriði til úrbóta í húsnæðismálum og þar með skuldamálum sem við höfum bent á hér í dag eða a.m.k. við alþýðubandalagsmenn.
    Síðan vil ég bæta því við að breytingarnar á Lánasjóði ísl. námsmanna sem gerðar voru fyrir fáeinum árum af núverandi ríkisstjórn eru ekki til að bæta skuldastöðu heimilanna nema síður sé. Þess vegna væri það til úrbóta í málefnum heimilanna og skuldastöðu þeirra að breyta lánakerfi námsmanna aftur, a.m.k. eitthvað í áttina til þess sem það var áður en núv. ríkisstjórn tók við. Mín skoðun er sú og ég hef rökstutt það að núv. stjórn hafi haldið þannig á málum að skuldastaða heimilanna sé núna 10--20 milljörðum kr. verri en hún hefði þurft að verða ef þessi ríkisstjórn hefði ekki beitt sínum aðgerðum.