Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:40:29 (7840)


[15:40]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er allt rétt sem fram kom hjá hv. 6. þm. Suðurl. nema það að ég hygg að hann misminni nokkuð um það hvernig Sjálfstfl. hagaði atkvæði sínu við afgreiðslu laga um efnahagsmál o.fl. sem fengu nr. 13 á árinu 1979 og eru kölluð Ólafslög. Það getum við athugað í þingtíðindum.
    Það er líka rétt hjá hv. þm. að þáv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, 1989--1990, gerði ekki uppreisn gegn þeim samningum sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu gert en hún hafði hins vegar útbúið aðstæður þannig eða tekið þátt í því að það var hægt fyrir aðila vinnumarkaðarins að gera svona samning. Það var ekki hægt fyrir aðila vinnumarkaðarins að gera svona samning, t.d. undir ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Það eru veruleiki sem við þyrftum líka aðeins að fara yfir í rólegheitunum. Aðalatriðið er þó kannski það að menn geri sér grein fyrir því að þessi ríkisstjórn Steingríms Hermanssonar eða þingið eða verkalýðsforustan eða forusta atvinnurekenda á ekki að þakka sér fyrir þessa lendingu. Veruleikinn er sá að það er láglaunafólkið í landinu sem hefur borið þennan veruleika uppi, sem hefur tekið það á sig að halda niðri kaupinu sínu og halda niðri sinni neyslu og m.a. hefur þetta að nokkru leyti orðið til þess að skuldir heimilanna hafa hækkað af því að kaupið hefur minnkað til þess að borga skuldirnar niður.
    Þetta skulum við hafa í huga áður en við sem hér erum hrósum okkur allt of mikið fyrir þann árangur sem þó liggur fyrir í minnkandi verðbólgu á Íslandi sem ég hins vegar óttast, eins og ég rakti fyrr í dag að geti farið vaxandi með haustinu. Það er hryllileg framtíðarsýn ef svo fer.