Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:38:37 (7879)


[17:38]
     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi kanna það í upphafi þessarar umræðu hvort hæstv. forsrh. sé í húsinu til þess að vera viðstaddur hana. Ég vil minna á það að ég óskaði eftir því þegar fyrri umræða var um þetta mál að hér yrðu gefnar yfirlýsingar um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í viðræðum við Evrópusambandið. Mér var síðan tjáð af formanni utanrmn. að hæstv. forsrh. mundi gefa þær yfirlýsingar við þessa umræðu. Jafnframt var því lýst yfir af hálfu formanns þingflokks Sjálfstfl. á fundi í utanrmn. að hæstv. forsrh. mundi gera það og er það í sjálfu sér ágætt. Þess vegna vildi ég kanna það við upphaf umræðunnar hvort hæstv. forsrh. er viðstaddur, hann var það ekki fyrir nokkrum mínútum síðan. Ég tel óeðlilegt að við sem þurfum að flytja okkar nál. hér og höfum óskað eftir því að eiga orðastað við hæstv. forsrh. um þetta mál séum tilknúin að gera það án þess að forsrh. sé viðstaddur. Þessi mál eru einhver þau stærstu sem íslensk þjóð er að fást við á næstu mánuðum og það er nauðsynlegt að þau fyrirheit sem gefin voru séu efnd. Ég fer þess vegna fram á það við hæstv. forseta, þó ég geri kannski ekki athugasemd við það að hv. þm. Björn Bjarnason, ef hann kýs að flytja framsögu fyrir sínu nál. án þess að hafa forsrh. viðstaddan, þá vil ég gera það alveg skýrt hvað mig snertir að þegar kemur að því nál. sem ég mæli fyrir þá er óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. sé viðstaddur og síðan sé hann viðstaddur ásamt hæstv. utanrrh. það sem eftir er af umræðunni.