Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 01:14:14 (7915)


[01:14]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ósköp raunalegt að til umfjöllunar á Alþingi skuli vera frv. af þessu tagi. Sérstaklega er það raunalegt fyrir Vestfirðinga að þurfa að sæta því að hæstv. ríkisstjórn geri svona lítið úr þeim því að það er þannig að með þessu máli er ríkisstjórnin að beina athyglinni sérstaklega að Vestfirðingum, draga þá út úr og reyna að gera lítið úr þeim frekar en efni standa til a.m.k. Eða hvað veldur því að hæstv. ríkisstjórn, allra tíma andstæðingur sértækra aðgerða, leggur ekki fram frv. um almennar aðgerðir til að mæta tekjumissi í sjávarútvegsfyrirtækjum vegna niðurskurðar á aflaheimildum? Hvers vegna leggur hæstv. ríkisstjórn ekki fram slíkt frv. heldur frv. um að taka út úr aðeins þá aðila sem skráðir eru með starfsemi sína í tilteknu kjördæmi?
    Það er ekki nema einn tilgangur með því af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er að beina athyglinni sérstaklega að þessu kjördæmi. Hvers vegna vill hún beina athyglinni sérstaklega að þessu kjördæmi? Að hverju vill ríkisstjórnin beina athyglinni? Hún beinir athyglinni að því að þar eru menn skuldum vafnir. Hvers vegna er ríkisstjórninni svo mikið kappsmál að þjóðinni sé það ljóst að í kjördæminu, þar sem sjálfstæðismenn hafa verið í forustu síðustu 20 ár, stærsta stjórnmálaaflið, og hafa líka haft með höndum forustu í flestöllum sjávarútvegsfyrirtækjum kjördæmisins er ástandið svona? Eftir 20 ára sigurgöngu Sjálfstfl. undir forustu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar er þetta ástandið sem hæstv. ríkisstjórn er að beina kastljósi sínu að. Getur það verið að hæstv. forsrh. sé að gera upp sín mál við hv. 1. þm. Vestf.? Eins og menn muna, þá lenti þeim nokkuð saman á sumardögum 1991. Eru menn að hefna þess á Alþingi sem hallast á í héraði? Það væri fróðlegt að hæstv. forsrh. gerði þingi og þjóð grein fyrir þessu máli fyrst hann er loksins kominn til umræðna eftir að hafa verið býsna lengi á leiðinni og ætti þó ekki að vera villugjarnt í höfuðborginni. En ég bíð spenntur eftir því að hann geri þingi og þjóð grein fyrir því hvers vegna hann vill sérstaklega beina kastljósi að erfiðleikum í sjávarútvegi á Vestfjörðum.
    En það er fleira sem hæstv. ráðherra má svara í leiðinni fyrir utan þær spurningar sem þegar hafa komið fram, m.a. frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Mig langar að spyrja í fyrsta lagi hvernig beri að skilja 2. mgr. 4. gr. frv. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Lánin skulu vera afborganalaus fyrstu þrjú árin. Næstu þrjú ár skal einungis greiða vexti.``
    Hvernig á að skilja þetta, hæstv. forseti? Samkvæmt brtt. 1. minni hluta nefndarinnar á hæstv. forsrh. að setja reglugerð með nánari reglum um framkvæmd laga þessara og því spyr ég ráðherrann: Hvernig mun hann útskýra þetta ákvæði og útfæra í reglugerð að fyrstu þrjú árin eiga lánin að vera afborganalaus en næstu þrjú ár þar á eftir eiga menn bara að borga vexti? Hvernig fer þetta heim og saman, virðulegi forseti? Ef menn ákveða að hefja afborganir á fjórða ári, eins og 1. málsl. segir, þá eru menn að brjóta ákvæði 2. málsl. Ef menn fara hina leiðina ( Gripið fram í: Þetta verður allt útskýrt í reglugerðinni.) þá brjóta menn ákvæði 1. málsl. Ég veit að hæstv. forsrh. er lögfræðingur og nokkuð vel að sér á því sviði og ég hlakka til að hann útskýri fyrir okkur þingheimi hvernig hann muni útfæra þetta í reglugerð.
    Ég spyr líka hæstv. ráðherra í ljósi stjórnsýslulaganna, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék hér að, hvernig á að vera mögulegt í reglugerð, athugið, ekki í lögum heldur í reglugerð, að mismuna fyrirtækjum eftir kjördæmum? Hvernig á að vera hægt að setja reglugerð sem mismunar fyrirtækjum eftir kjördæmum út frá jafnræðisákvæðum stjórnsýslulaganna? Ég vek athygli á því að þetta ákvæði er ekki fest í lög heldur á að setja það í reglugerð.
    Í öðru lagi: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að útskýra fyrir okkur að hægt sé að mismuna fyrirtækjum innan kjördæmisins á grundvelli þessara reglugerða út frá ákvæðum stjórnsýslulaga? Ég sé ekki nokkra leið til að fá botn í það mál öðruvísi en að brjóta ákvæði stjórnsýslulaga.
    Hæstv. forsrh. hlýtur að hafa legið yfir þessu og hafa svör við þessum spurningum. Eftir stendur að þetta er mismununarfrv. Hér er verið að mismuna mönnum á marga vegu og lítið leggst nú fyrir forustumenn Sjálfstfl., tvo hæstv. ráðherra, fjármála og forsætis, formann og varaformann flokksins, að bera fram sjálfstæðisstefnuna þannig að hún birtist í því að það á að mismuna mönnum. Það er stefna flokksins. Það getur ekki verið annað því þetta eru ráðherrarnir tveir sem bera ábyrgð á málinu og þeir hljóta að hafa fullt vald á því. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að mér gerðjast illa að því fyrir Vestfirðinga að þeir séu teknir út úr með þessum hætti.
    Ég hef talað fyrir því og get gert það áfram að stjórnvöld eigi að koma til móts við vanda sem steðjar að sjávarútvegsfyrirtækjum vegna þess að stjórnvöld ákvarða að skerða afla. En því aðeins að það séu almennar aðgerðir þannig að þeir sem eru jafnsettir hafi jafna möguleika á aðstoð eða fyrirgreiðslu. Ég tel að Vestfirðingum sé enginn greiði gerður með því að búa málið í þennan búning og vera einungis hæstv. ríkisstjórn til háborinnar skammar. Ég er ekki viss um að Vestfirðingar kunni Sjálfstfl. og hæstv. ráðherrum miklar þakkir fyrir að hafa málið með þessum hætti. Ég held að þetta mál verði ekki farsælt. Ég held að hæstv. forsrh. eigi eftir að upplifa það að þetta mál verði erfitt í framkvæmd og hætt við að margir verði óánægðir þegar upp er staðið en fáir ánægðir. Það verður búið að mismuna mörgum og svo mörgum að varla eru dæmi þess áður að nokkurri ríkisstjórn hafi tekist að ganga jafnmikið á hlut jafnmargra og þetta frv. gerir ráð fyrir að framkvæmt verði ef að lögum verður.
    Virðulegi forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til málsins almennt við 1. umr. málsins og tel ekki þörf á að bæta miklu við að öðru leyti en því að ég tel að það eigi frekar að efla með mönnum þá hugsun að reyna að bjarga sér sjálfir en hitt að fá menn niður á hnén og biðja um aðstoð og þiggja úr lófa ráðherra. Mér finnst þetta frv. vera of mikið saumað þannig að það er verið að beygja menn í duftið og mér geðjast ekki að því. Ég tel að hæstv. ráðherrar sem að þessu máli standa hefðu verið sæmdari af því að hafa málið þannig að meira mið yrði tekið af því að menn reyndu að bjarga sér sjálfir og standa uppréttir og hjálpa þeim sem þannig standa að sínum málum fremur en öðrum sem hefur gengið verr í sínum rekstri. Ég tel ekki ástæðu til þess sérstaklega að hjálpa þeim sem hefur gengið verr í sínum rekstri en öðrum.