Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 01:36:12 (7917)


[01:36]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um sértækar aðgerðir til handa Vestfirðingum hefur lítið breyst frá því að það var lagt fram. Ég tók þátt í þeirri umræðu og mun ekki endurtaka þá ræðu mína. Það eru aðeins nokkrar spurningar sem mig langar að bera fram.
    Það kom fram í máli hæstv. forsrh. áðan að hann vonaðist til að menn gætu samþykkt frv. á þessu þingi og ég býst við að svo verði. Menn eru að bítast milli byggðarlaga. Það er eðlilegt, það eru erfiðleikar víða. Hv. þm. Einar Guðfinnsson upplýsti áðan að vandinn væri meiri á Vestfjörðum en almennt gerðist og vanskil fyrirtækja væru meiri en almennt gerðist hjá fyrirtækjum samkvæmt upplýsingum frá Landsbanka Íslands.
    Það frv. sem hér liggur fyrir kemur til vegna sérstakrar úttektar sem Byggðastofnun gerði varðandi vandann á Vestfjörðum. Sá vandi sem kemur fyrst og fremst vegna minnkandi afla á þorski. En það vill svo til að í millitíðinni var gerð sams konar úttekt á Snæfellsnesi utanverðu eftir beiðni sveitarstjórnarmanna í nýsameinuðu sveitarfélagi og hv. þm. Vesturlands. Sú úttekt hefur þegar farið fram þó hún hafi ekki verið birt. Og ég sakna þess mjög að sú úttekt hefur ekki verið birt og spyr hæstv. forsrh., sem er yfirmaður Byggðastofnunar, hvernig standi á því að þessi úttekt hefur ekki verið birt. Hluti hennar hefur að sjálfsögðu verið birtur þegar Þjóðhagsstofnun bar saman þorskbrestinn milli svæða. Þá kom í ljós að þorskbresturinn er mestur á Snæfellsnesi þar sem menn byggja nánast alfarið á þorski.
    Nú langar mig til að spyrja hæstv. forsrh. hvernig hann hugsi þá mismunun sem augljóslega er varðandi þessi tvö svæði. Snæfellingar hafa ekki notið loðnu frekar en Vestfirðingar. Vandinn er sá sami, jafnvel enn verri. Hvernig er hægt að afgreiða þetta frv. og hvernig geta hv. þm. Vesturlands sem styðja þessa stjórn látið þetta frv. fara í gegnum þingið umræðulaust án þess að taka á málefnum Snæfellinga því það blasir við að vandinn er jafnvel meiri en á Vestfjörðum?
    Ég voanst til að hæstv. forsrh. gefi skýr svör um það hvernig hann hugsar sér að mismuna þessum svæðum.