50 ára afmæli lýðveldisins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 09:37:15 (7928)


[09:37]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þar sem hér hafa verið gerð að umræðuefni hátíðarhöld á fullveldisdegi 17. júní nk., þá vil ég koma því á framfæri að auðvitað hafa þingflokksformenn rætt þetta mjög í vetur. Það hefur að vísu því miður ekki, og ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni, náðst að ákveða að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar yrði lagður fram eins og hann kom frá stjórnarskrárnefnd. Hins vegar er ekki enn útséð um hvernig það mál fer. Það er ekki búið að taka það mál út af borðinu og ýmsar hugmyndir eru uppi sem vissulega samstaða er um í hópi þingflokksformanna.
    Það hefur einnig verið rætt um það að um leið og þinghaldi ljúki, sem vonandi verður á þessum sólarhring, þá hittist þingflokksformenn mjög fljótlega í framhaldi af því og setji niður dagskrá fundarins. Ég vil þó ítreka að það er vissulega rétt sem hæstv. forseti hefur sagt. Það er búið að ræða mikið og það er ákveðin samstaða um mál sem hafa verið rædd í þingflokkum og trúlega verður það niðurstaðan að þingið komi síðan saman 15. eða 16. júní og ræði þau mál frekar áður en Þingvallafundurinn verður.