Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 11:15:05 (7942)


[11:15]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög alvarlegt mál á grundvelli fróðlegrar og mikilsverðrar skýrslu hæstv. félmrh. um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis. Ég hika ekki við að segja að það vandamál sem við erum hér að ræða er í raun og veru stærsta og versta samfélagsvandamál okkar tíma og auðvitað langstærsta viðfangsefnið í efnahags- og hagstjórn okkar tíma, þ.e. að reyna að ráða við þetta alvarlega mál, atvinnuleysið, eins og það hefur verið að hellast yfir okkur á undanförnum árum.
    Ég held að það sé þannig hér á landi að við þolum á vissan hátt verr atvinnuleysið en aðrar þjóðir og það helgast auðvitað af því að við erum færri, þetta er smærra þjóðfélag, nálægð hvers einstaklings við aðra er meiri og þar af leiðandi er hættan sú að við þolum þetta atvinnuleysi verr með ýmsum hætti og félagslegar afleiðingar atvinnuleysis geti þess vegna birst okkur í alvarlegri mynd en víða annars staðar og er þó langt til jafnað. Þess vegna er það mjög mikilvægt að á þessum málum sé tekið af festu og ábyrgð eins og ég tel raunar að hafi verið gert og ég vara mjög við því að menn tali í þeim dúr að það sé auðvelt að fást við þetta vandamál sem atvinnuleysið er. Atvinnuleysið er samfélagslegt og efnahagslegt vandamál sem hefur verið að hellast yfir nágrannaþjóðir okkar, ekki síður en okkur sjálf, og þar hafa menn átt í miklum erfiðleikum með að finna ráð við þessu. Ég vara mjög við því þegar menn tala sem svo: Allt þetta mun ég gefa þér því aðeins að við komumst til valda, þá sé auðvelt að finna ráð við þessu atvinnuleysi. Menn tala af dálitlu kæruleysi um þetta mál og sletta hér tölum. Þó það liggi fyrir í spá vinnumálaskrifstofu félmrn. að atvinnuleysið sé áætlað 5,5%, þá tala menn jöfnum höndum um 8% atvinnuleysi eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. þó að það skeiki þar 45% eða 1.000 manns. Ég held að þó að við reynum að meta hið fjárhagslega tjón af atvinnuleysi, þá segi það kannski litla sögu um þá miklu niðurlægingu og þá miklu vanlíðan sem atvinnulausir finna fyrir og þess vegna skiptir það gríðarlegu máli og er mjög mikilvægt að við reynum að ráðast að þessum vanda.

    Það er hins vegar ekki einfalt vegna þess að við höfum verið að upplifa að atvinnulífið hefur verið í miklum vanda mörg undanfarin ár og það sem er alvarlegast og er skýringin á þessu atvinnuleysisstigi núna er að allt frá árinu 1987 hefur ársverkum á Íslandi fækkað. Á árinu 1987 voru ársverk hér, vinnuaflsnotkun, ársverk hér á landi 132 þúsund, árið 1988 128 þús., árið 1989 126 þús., árið 1990 125 þús., árið 1991 125 þús. tæplega, 1992 124 þús., 1993 122 þús. og nú er talið að það séu um 121.500 ársverk hér á landi. Þetta segir okkur þá sögu sem þarf að segja. Hér hefur verið að eiga sér stað þróun sem hefur verið smám saman að leiða til þess atvinnuleysis sem við stöndum núna frammi fyrir og í raun og veru kom fram í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að við stöndum frammi fyrir því að hér þyrftu að vera ársverk upp á 135 þús. störf, en eru ekki nema 121.500 störf þannig að við megum ekki tala sem svo að þetta mál sé einfalt því að við erum hér að glíma við vandamál sem hefur verið að hellast yfir okkur á undanförnum árum sem við höfum ekki ráðið við. Atvinnulífið hefur einfaldlega ekki getað svarað þeim kröfum sem til þess hefur þurft að gera með fjölgun starfstækifæra.
    Það er auðvitað rangt sem hér hefur verið haldið fram að ekkert hafi verið gert til þess að treysta stöðu atvinnulífsins og gera það að verkum að fjölga hér atvinnutækifærum. Hæstv. fjmrh. rakti hinar almennu efnahagsaðgerðir sem skipta mestu máli í þessu skyni, þ.e. lækkun raungengis sem hefur orðið til þess að styrkja samkeppnisstöðu útflutningsgreina og samkeppnisgreina. Ég nefni afnám kostnaðarskatta sem vissulega hefur líka svo sem eins og aðstöðugjald hefur orðið til þess að lækka kostnað, lækka útgjöld fyrirtækjanna, gera þeim betur kleift að ráða nýja starfsmenn. Ég vek athygli á því að þrátt fyrir allt hafa vextir lækkað á undanförnum missirum og vextir bankakerfisins eru núna lægri en þeir hafa verið frá árinu 1987. Ég er hins vegar alveg sammála því að þeir eru enn þá of háir og ég vek sérstaklega athygli á því að það er vaxtastig bankanna sem hefur setið eftir í þeirri vaxtaþróun sem átt hefur sér stað á undanförnum missirum, sérstaklega fyrir frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar. Það er auðvitað mjög óeðilegur sá vaxtamunur sem er núna á útlánsvöxtum bankakerfisins annars vegar og vöxtum á ríkisskuldabréfum og ríkispappírum hins vegar. Það er þannig að ef eitthvað verður til þess og eitthvað getur orðið til þess að koma af stað atvinnulífinu með virkilegum krafti til frambúðar að nýju, þá er það auðvitað vaxtalækkun í samræmi við það sem hefur orðið á öðrum þáttum fjármagnsmarkaðarins.
    Ég vek líka athygli á aðgerðum sem við getum kallað beinar aðgerðir eins og átaksverkefni ríkis og sveitarfélaga. Ég vek athygli á samgönguverkefnunum, átaki í samgöngumálum sem er að skila okkur bæði fjölgun starfa og betri samfélagsstöðu atvinnulífsins. Ég vek athygli á milljarðinum fræga. Ég vek athygli á þeirri skuldbreytingu húsnæðislána sem hæstv. félmrh. hefur einkanlega beitt sér fyrir. Og ég vek athygli á því hvernig sjávarútvegurinn hefur verið að taka á þessum vanda með því að auka fullvinnslu, það hefur dregið úr fiskútflutningi og þannig má lengi telja.
    Ég endurtek það að þetta vandamál sem við erum að fást við er ekki auðvelt að leysa. Við erum að glíma hér við uppsafnaðan vanda sem, eins og ég hef rakið, hefur verið að eiga sér stað alveg frá árinu 1987. Á þessum árum hefur ársverkum fækkað um 10 þúsund, þeim hefur fækkað um 8% eða rúmlega 1% á ári. Það er sá kaldi veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Hér er ekki um að ræða vanda sem allt í einu hefur hellst yfir okkur. Hér er um að ræða lengri tíma vanda sem við þurfum að takast á við.