Þingsköp Alþingis

4. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 15:53:31 (64)

[15:53]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þingflokksformaður Kvennalistans, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, sem er jafnframt einn af flm. þessa frv., er því miður fjarri góðu gamni af óviðráðanlegum ástæðum og þess vegna kem ég hér upp því ég vildi ekki láta undir höfuð leggjast að a.m.k. einhver kæmi frá Kvennalistanum og segði skoðun okkar á þessu frv. sem hér liggur fyrir sem tvímælalaust markar ákveðin tímamót. Þó kannski séu þau ekki stór, eða það er a.m.k. ekki stórt skref stigið, þá eru það tímamót engu að síður.
    Ég held að það sé mjög útbreidd skoðun hjá þingmönnum og við séum svona nokkuð sammála um það að svipurinn á Alþingi og störfum þess hafi ekki alltaf verið nógu góður. Við heyrum þetta líka hjá fólki úti í samfélaginu að því líkar ekki með hvaða hætti hér hefur stundum verið starfað og talað og þess vegna held ég að við þingmenn skuldum þjóðinni það að reyna a.m.k. að setja okkur einhverjar þær reglur sem við getum verið sæmilega sátt við og starfað eftir í sæmilegri sátt. Það breytir auðvitað ekki því eins og hér kom fram hjá Ragnari Arnalds, hv. 3. þm. Norðurl. v., að auðvitað á stjórnarandstaða að vera hvöss og hér eiga að fara fram hvöss skoðanaskipti. En við þurfum að reyna að hafa reglurnar þannig að þau skoðanaskipti fari ekki úr böndum.
    Ég vil segja það, sem þingmaður sem er nokkuð blaut á bak við eyrun, að mér hefur stundum fundist fara meiri tími í það að sitja hér í þingsal en góðu hófi gegnir og ég held að því sé þannig háttað að því meiri tíma sem við þingmenn eyðum hér í þingsölum þeim mun minni tíma höfum við til þess að ráðslagast við fólk fyrir utan þetta hús, þeim mun einangraðri verðum við hér innan þessara fjögurra veggja. Og mér finnst stundum sú einangrun vera tilfinnanleg. Ég finn það sjálf og ég heyri það líka á máli manna að þeir hafa einangrast hérna innan þessara fjögurra veggja og því er mikilvægt að við reynum að koma einhverjum böndum á störf þingsins og tímann sem við eyðum hér inni.
    Ég sagði að þetta væru ákveðin tímamót og ég tel að það sem er kannski merkast við þessar tillögur sé að það hefur nú verið stigið það skref með samkomulagi þingflokka að skipta formennsku og varaformennsku í nefndum, þó ekki í samræmi við þingstyrk sem ég tel að ætti að stefna að heldur að stjórnarandstaðan taki formennsku í þremur nefndum og varaformennsku í nokkrum. Mér finnst þetta mjög mikilvægt og að þetta geti styrkt sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mér finnst það mjög miður sem ég hef stundum séð hérna að þingið sé orðið eins og framlengdur armur framkvæmdarvaldsins. Þingið á að reyna að gæta sjálfstæðis síns og ég held að það verði betur tryggt með því að formennska skiptist eftir þingstyrk flokka heldur en að það sé sjálfgefið að það séu alltaf þingmenn stjórnarflokka sem fari með formennskuna og fari með verkstjórn í nefndum.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég vil aðeins segja eitt varðandi einstök atriði í þessu frv. Það hefur nú verið farið nokkuð ítarlega í gegnum það og ég ætla ekki að bæta við það neinu. Ég vil bara segja það að ég að vissu leyti sakna þess úr þessu frv. að það er búið að fella niður það sem við höfum kallað gæslu þingskapa. Ég geri ekki mikið mál úr því en mér finnst það miður að við skulum vera í rauninni að útrýma því hugtaki út úr lögum sem heita engu að síður ,,Lög um þingsköp Alþingis``. Mér finnst vera í þessu viss mótsögn að gera þetta.
    Ég veit að þetta hugtak eða hvað eigum við að segja, þessi orð ,,gæsla þingskapa``, hafa farið afskaplega fyrir brjóstið á ýmsum þingmönnum, og þjóðinni líka, og þessi orð hafa fengið slæma merkingu en í rauninni gildir það um öll orð og hugtök sem notuð eru gáleysislega. Fundarstjórn getur fengið þessa sömu merkingu. Það leysir í rauninni ekki vandann að útrýma orðum eða hugtökum. Það eitt leysir vandann að standa öðruvísi að málum heldur en gert hefur verið. En ég vil segja það að ég sakna þess að vissu leyti að þetta skuli tekið út.