Húsnæðisstofnun ríkisins

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 14:32:11 (112)

[14:32]
     Flm. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hennar og fagna því ef fram kemur frv. um breytingar á lögum um félagslega húsnæðiskerfið þar sem félagslega húsnæðiskerfið nær til allra. En ég á erfitt með að skilja það hvaða forsendur liggja að baki því að sveitarfélagi er óheimilt að reisa félagslegt húsnæði og selja fyrir utan þéttbýliskjarna. Það virðist vera í þessu lögfræðiáliti sem kemur fram vegna bréfs sem Húsnæðisstofnun fékk að það væri í raun óheimilt heldur verði þetta að vera reist nálægt einhverjum sérstökum þjónustukjarna og þá í þéttbýli. Ef svo er finnst mér sveitarstjórnunum vera gert afar erfitt fyrir, sérstaklega þeim sem eru þannig að það býr kannski meiri hluti íbúa sveitarfélagsins í dreifbýli í kringum lítinn stað eins og er í Skaftárhreppi, og ég hefði haldið það að eftir að hafa auglýst eftir umsóknum um félagslegt húsnæði þá væri sveitarstjórninni í raun í sjálfsvald sett hvar á sínu landi, svo fremi sem hún keypti ákveðinn landskika, hún reisti íbúðarhúsnæði. En svo virðist ekki vera.
    En ég vil aðeins að lokum bæta því við til þess að ítreka þá skoðun sem hv. þm. höfðu þegar frv. var samþykkt 1990 og túlkun ráðherrans var á sömu lund og hv. þm., að 20. des. 1990 við umfjöllun um Húsnæðisstofnun ríkisins segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Að því er varðar heilsuspillandi húsnæði fór fram efnisleg umræða um það þegar frv. var til umfjöllunar á síðasta þingi. Þá gerði frv. ráð fyrir því að sá lánaflokkur sem fjallar um heilsuspillandi húsnæði, sem þá var í Byggingarsjóði ríkisins, yrði lagður niður. Þar var líka vakin athygli á því að umsóknir um slík lán hefðu verið afar fáar og Byggingarsjóður verkamanna þjónaði því fyllilega að því er varðar útrýmingu á heilsuspillandi húsnæði. Einmitt af því að í þeim breytingum sem voru gerðar sl. vor þá væri verið að rýmka verulega ákvæði varðandi félagslegu íbúðirnar sem auðvelduðu þá sveitarfélögunum að kaupa leiguíbúðir í stað heilsuspillandi húsnæðis. Það voru ýmis ákvæði í því frv. sem að lögum varð sem rýmkuðu mjög og auðvelduðu sveitarstjórnum að koma upp leiguíbúðum í stað heilsuspillandi húsnæðis. Þess vegna var ekki talin ástæða til þess að hafa þennan lánaflokk frekar hjá Byggingarsjóði ríkisins.``
    Þessi rýmkun sem sveitarfélögin fengu virðist þó vera þessum annmarka háð að þau eru í raun skuldbundin til þess að reisa húsnæði á ákveðnum stöðum í sínum sveitarfélögum og það væri mjög gott ef það yrði þá tekið fullt tillit til þess í því frv. sem hæstv. ráðherra hyggst leggja fram.