Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:42:18 (127)


[15:42]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Ég held að hv. þm. hafi nú verið að klappa fyrir núv. fjmrh. en honum fyrirgefst í þetta sinn. En ég vil byrja á því að segja frá því að þannig hagar til í þessum málum að allir stjórnmálaflokkar að Kvennalistanum undanteknum bera ábyrgð á þessum bílamálum bankastjóranna einfaldlega vegna þess að þeir hafa átt fulltrúa í bankaráðunum þannig að við skulum vera sanngjörn í þessu máli.
    Hér hefur verið talað aðeins um bíla ráðherranna. Ég vil taka það fram að þessi ríkisstjórn sem nú situr breytti reglum um bílamál ráðherranna þannig að nú er skylda að auðkenna bíla ráðherranna. Það kemur jafnframt fram í reglum að þeir skuli ekki kosta meira en 3 millj. á verðlagi í ársbyrjun 1992. Innkaupastofnun á að öðru jöfnu að sjá um innkaupin og hlunnindin eru skattskyld. Þetta voru allt breytingar frá því sem áður gilti þannig að núverandi ríkisstjórn breytti þeim reglum sem voru í gildi þegar t.d. fulltrúi Alþb. var fjmrh.
    Ég skal ekki tefja frekar þessa umræðu en bendi á að það eru til bílareglur. Aksturskostnaður hefur lækkað hjá ríkinu en þessar bílareglur ná ekki til ríkisbankanna. En ég veit að fulltrúar stjórnmálaflokkanna, sem kjörnir eru á Alþingi og sitja í bankaráðum, bæði seðlabankaráði eða bankaráðum viðskiptabankanna og þeir sem sitja í stjórn Byggðastofnunar, munu að sjálfsögðu taka mark á þeim umræðum sem hér hafa farið fram, ekki síst þeir sem eru í sömu flokkum og þeir hv. þm. sem hér hafa farið hæst og flutt mestu siðbótarræðurnar. Vona ég að þessar umræður nái til allra og verði þeim einnig til eftirbreytni því að við megum ekki gleyma því að þeir bera líka ábyrgð á því hvernig komið er í þessum málum.