Veiði togara innan 12 mílna landhelginnar skv. reglugerð nr. 402/1993

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:55:28 (131)

[15:55]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Á grundvelli þeirrar lagagreinar, sem hv. 2. þm. Vestf. vitnaði til, hafa allt frá árinu 1984 verið teknar ákvarðanir um opnun tiltekinna veiðisvæða um takmarkaðan tíma út af Breiðafirði, Vestfjörðum og á Héraðsflóa. Þessar heimildir eru byggðar á ákvæðum í lögum og á árinu 1983 voru slík ákvæði sett inn í lög en í athugasemdum með því frv. sagði svo, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði þetta er sett til að ráðherra geti heimilað togveiðar á svæðum þar sem veiða má fisktegundir sem nú eru vannýttar eins og t.d. skarkola og steinbít.``
    Hv. 2. þm. Vestf. samþykkti þessi lög á grundvelli þeirra athugasemda sem fylgdu frv. frá hv. núv. 1. þm. Austurl. Þessi lög voru samþykkt á nýjan leik árið 1985 með sams konar athugasemdum og hv. 2. þm. Vestf. samþykkti lögin á grundvelli þeirra athugasemda sem þáv. sjútvrh., núv. hv. 1. þm. Austurl., setti með lögunum. Og síðast árið 1990 samþykkti hv. 2. þm. Vestf. ný lög um stjórn fiskveiða með þessari lagaheimild og henni fylgdi svohljóðandi athugasemd frá þáv. sjútvrh., hv. núv. 1. þm. Austurl.:
    ,,Grein þessi er óbreytt frá gildandi lögum. Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðuneytið undanfarin ár opnað togsvæði út af Vestfjörðum og Héraðsflóa á haustin þar sem fengist hefur nokkur skarkolaafli.``
    Mér sýnist af þessu, og með hliðsjón af því að ákvarðanir um þetta efni hafa verið teknar á hverju ári síðan 1984 með skírskotun í þessar lagagreinar sem túlkaðar hafa verið eins og athugasemdirnar sem

fylgdu hér með, að hv. 2. þm. Vestf. sé nú allt í einu farinn að túlka lög eftir því hvort ráðherrann sem framfylgir lögunum er framsóknarmaður eða ekki og er þá Bleik brugðið því að hv. þm. hefur nú getið sér orð fyrir það að vera meiri lögmaður en ýmsir virðulegir hv. alþm. og þykir mér það miður ef hann er farinn að túlka lög með þessum pólitíska hætti.
    Það er svo að skarkolaafli hafði fallið mjög verulega á árunum milli 1970 og fram yfir 1980 og m.a. til þess að koma nýtingu hans í sama horf og áður var gripið til þess ráðs að opna veiðisvæði og á þeim grundvelli hefur það verið gert síðan. Í fyrsta skipti þegar þetta var gert var skarkolinn í kvóta. Hann var það ekki í nokkur ár en er það nú á nýjan leik. Það er mat þeirra sem stunda sjó fyrir vestan að skarkolinn rýrni mjög þegar líður á og þess vegna sé nauðsynlegt að nýta hann meðan hann er sem feitastur og er nær landinu. Þetta gildir ekki einvörðungu fyrir togara heldur líka minni togbáta og dragnótaveiðibáta. Og það er rétt að geta þess að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar af minni hálfu fela í sér að þessi svæði eru heldur minni en áður og tvískipt og hafa gilt um skemmri tíma en í upphafi þegar fyrrv. sjútvrh. tók ákvarðanir um opnun þessara svæða á grundvelli sömu lagagreina. Og með því að hér var vitnað í vestfirska sjómenn þá er rétt að geta þess að sú niðurstaða sem varð í þessu máli er mjög í samræmi við tillögur Bylgjunnar, skipstjóra- og stýrimannafélagsins á Vestfjörðum.