Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 15:56:02 (188)


[15:56]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Skyldi það nú vera tilviljun að þau ár sem hæstv. fjmrh. ákveður að miða við í frv. og í ræðum sínum eru ævinlega árin 1991 og 1987? Skyldi það nú vera tilviljun? Er það ekki fullkomlega eðlilegt þegar verið er að bera saman árangur einstakra ríkisstjórna að þá séu tekin þau tvö heilu ár sem viðkomandi ríkisstjórn hefur átt hlut að máli? Árið 1988 og árið 1991 urðu ríkisstjórnarskipti. Það hefur alltaf verið viðurkennt að ef maður notar þau ár til samanburðar, þau ár sem ríkisstjórnarskipti eru, þá sé um óraunhæfan samanburð að ræða. Það er fullkomlega eðlilegt að bera saman þau tvö heilu ár sem síðasta ríkisstjórn var með, 1989 og 1990, samanborið við þau tvö heilu ár sem hæstv. núv. fjmrh. hefur haft og þann árangur sem hann hefur sýnt á þeim tíma þar sem ekki hefur komið til nein truflun annarrar ríkisstjórnar. Það er fullkomlega eðlilegt og árangurinn sést.