Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 18:30:22 (211)


[18:30]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir afar mikið hól í garð fjárln. þó að ég verði nú að játa það af hjartans lítillæti að það er fullkomlega óverðskuldað. En það er þó ekki aðalerindi míns máls heldur hitt að nefna nokkuð umfjöllun hans um þessa töflu sem birtist á bls. 293 í fjárlagafrv. og hann hafði stór orð um hversu vönduð væri og góð að allri gerð. Þá hefði ég kosið það mjög gjarnan að í umfjöllun hans um þessa töflu hefði hann skoðað hana í heild úr því að hann hafði sjálfur á orði að þetta væri vandað og gott plagg, ég er sammála honum út af fyrir sig um það. Ef maður skoðar þessa töflu frá árinu 1990, þessi tafla nær yfir árin 1990--1994, ekki 1991--1994, þá kemur auðvitað í ljós að framlög til skólamála, framlög til menntmrn., ef við undanskiljum Lánasjóð íslenskra námsmanna, hafa yfirleitt heldur hækkað en ekki lækkað í þeim gríðarlegu stærðum sem hv. þm. var að nefna. Ég tek sem dæmi háskóla og rannsóknir. Þar hafa framlögin hækkað á milli þessara ára um 121,6 millj. kr. Framhaldsskólar og sérskólar hækkað um 39 millj. kr., grunnskólar og sérskólar að vísu lækkað milli þessara ára um 222 millj. kr. En liðurinn annað sem eru ýmis framlög til lista og menningarmála, rannsóknamála og þróunarmála hefur hækkað um 235,8 millj. kr. Ef við skoðum í heild þessi framlög til menntmrn. á árunum 1990--1994 að undanskildum framlögum til LÍN þá er ljóst að framlögin voru 12 milljarðar 980 millj. 600 þús. kr. árið 1990 en eru þó komin upp í á næsta ári 13 milljarða 144 millj. 500 þús. kr. sem er aukning um 164 millj. kr.