Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 18:32:39 (212)


[18:32]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Vestf. að meginhlutinn af þeim niðurskurði sem þarna er um að ræða eða stór hluti er af Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það sem hefði auðvitað verið eðlilegt í því sambandi var það að menn hefðu sett sér það um leið að sækja þá fjármuni, sem þar voru e.t.v. skornir niður, inn á aðra þætti í menntakerfinu í staðinn fyrir að taka um það ákvörðun að skera niður lánasjóðinn og reyndar grunnskólann líka þannig að þegar maður skoðar framlög til skólamála sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu ríkjanna innan OECD þá er Ísland núna komið niður á svipað ról og Tyrkland, það er vond menntamálastefna.