Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 18:47:57 (217)

[18:47]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Ég ætla að fara hér aðeins í nokkra þætti sem snerta þetta frv. Mig langar í fyrstu til að ræða aðeins um vinnubrögð, síðan að koma inn á stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og loks að líta hér örlítið á nokkur þeirra tíðinda sem er að finna í þessu fjárlagafrv.
    Eins og þingmenn minnast þá var gerð breyting á þingskapalögunum vorið 1991 sem gengu m.a. út á það að fagnefndir þingsins fengju hluta fjárlaganna til athugunar eða eins og segir í 25. gr. þingskapalaga:     ,,Fjárlaganefnd getur vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með sama hætti geta aðrar fastanefndir ákveðið að fjalla um einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins. Til efnahags- og viðskiptanefndar vísar fjárlaganefnd frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps. Nefndirnar skila fjárlaganefnd áliti og tillögum svo tímanlega fyrir 2. umr. fjárlaga sem fjárlaganefnd ákveður.``
    Ég hef verið að hugsa um þetta ákvæði og þá reynslu sem fengist hefur af þessum vinnubrögðum. Og ég spyr sjálfa mig: Hefur verið eitthvert gagn af þessu? Ég held að ég geti svarað því strax að það hefur verið töluvert gagn af þessu fyrir þá þingmenn sem hafa verið að glugga í fjárlögin og fara í gegnum einstaka þætti. Ég held að það sé mjög til bóta að þingmenn séu vel inni í stöðu þeirra málaflokka sem þeir eru að fjalla um. En sú spurning sem vaknað hefur í mínum huga er auðvitað þessi: Er eitthvert gagn að þessu fyrir framhaldsumræðuna um fjárlögin? Hvað er gert við álit og ég tala nú ekki um tillögur sem koma frá fagnefndum?
    Við höfðum reynslu af því í landbn. þar sem farið var mjög ítarlega í gegnum kaflann um landbúnaðarráðuneytið á sínum tíma. Meiri hluti nefndarinnar var nú ekki ánægður með niðurstöður fjárlagafrv. fyrir árið 1992 og lagði til töluverðar breytingar á því frv. og sendi þær til fjárln. en síðan heyrðist ekki neitt. Það sama gildir um álit annarra nefnda. Mér hefur fundist að meiri hlutinn skili örlitlu áliti þar sem þeir bara leggja blessun sína yfir allt og koma ekki með neinar ábendingar eða athugasemdir á meðan minni hlutinn hefur iðulega samið mikil og ítarleg álit sem birt hafa verið í nál. meiri og minni hluta. Með þessu eru nefndirnar að leggja sitt af mörkum til umræðunnar um fjárlagadæmið. En þar sem kosinn hefur verið nýr formaður fjárln. og mannabreytingar orðið þar þá vil ég varpa fram þeirri spurningu til nýkjörins formanns, Sigbjarnar Gunnarssonar, hvort fjárln. hyggist gera einhverja breytingu varðandi þessa vinnu? Er t.d. hugsanlegt að fagnefndirnar fjalli um þær breytingartillögur sem eru til umræðu í fjárln., að við fáum fyrir fram að kynnast því hvaða breytingar er verið að ræða í fjárln. eða hvað ætla menn sér með þessu. Mér hefur fundist að fjárln., alla vega eins og dæmið hefur birst okkur í fagnefndunum, væri býsna íhaldssöm og vildi halda utan um þetta allt. Mér finnst að við þingmenn þurfum að ræða það hvernig þetta ákvæði 25. gr. hafi gefist og hvort hugsanlegt sé og æskilegt að stíga lengra í þá átt að fagnefndirnar hafi í raun eitthvað að segja um fjárlögin og þær ákvarðanir sem teknar eru í viðkomandi málaflokkum. Ég vildi vekja athygli á þessu atriði hér en þó ítreka að ég er eindregið þeirrar skoðunar að við höfum öll haft mjög gott af því að fara í gegnum þessa einstöku þætti fjárlagafrv. Ég tel að það hafi auðgað og bætt umræðuna varðandi fjárlögin og við þessar athuganir hafi margt komið fram sem fjárln. hefði ella ekki tekið eftir eða lagt sömu áherslu á og við gerum í fagnefndunum.
    En hér er auðvitað fjárlagafrv. fyrir árið 1994 til umræðu. Eins og vænta má þá boðar það allnokkur tíðindi. En það verður ekki annað sagt en að það sé í beinu framhaldi af því sem hér hefur verið að gerast á undanförnum árum. Ég get ekki stillt mig um að vitna í hina hvítu bók sem þeir ráðherrarnir veifa lítið nú á dögum ( Gripið fram í: Betra er að veifa röngu tré en öngvu.) en það verður að segja þeim til vorkunnar að margt hefur breyst í samfélaginu frá því að þeir settust niður í Viðey og sömdu fyrstu drög að þessari stefnuskrá. En því er auðvitað ekki að neita að í þessari hvítu bók, Velferð á varanlegum grunni, koma fram meginstefnumið ríkisstjórnarinnar og þrátt fyrir ýmsa erfiðleika þá hafa þeir fylgt þessari stefnu. Að mínum dómi vill nú svo til að sú stefna, og þá er ég einkum að hugsa um einkavæðingu og niðurskurð af ýmsu tagi, takmörkun á ríkisbúskapnum, eigi illa við á samdráttartímum. Í hvítbókinni segir, með leyfi forseta:     ,,Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur sett sér það markmið að rjúfa langvarandi kyrrstöðu í íslenskum þjóðarbúskap. Efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar hefur á undanförnum árum einkennst af stöðnun og samdrætti og hefur ekki verið svo lengi í lægð frá því á fjórða áratug þessarar aldar. Hefja þarf nýja framfarasókn í íslensku samfélagi svo hagur landsmanna geti á ný farið batnandi.``
    Þegar maður les þessi orð og hugsar til þess sem gerst hefur á þessu tveimur og hálfa ári frá því ríkisstjórnin tók til starfa þá verður manni náttúrlega bæði ljóst hve miklum andbyr hún hefur mætt og hve röng hennar stefna er. Þegar litið er á kaflann um ríkisbúskapinn segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á þann ásetning sinn að gerbreyta fjármálastjórn hins opinbera. Dregið verður úr umsvifum ríkisins og þannig búið í haginn fyrir hóflega skattheimtu í framtíðinni.`` --- Hóflega skattheimtu. Ég vek sérstaka athygli á því. --- ,,Þessar fyrirætlanir eru forsenda þess að viðreisn efnahagslífsins takist. Versnandi viðskiptakjör, aflasamdráttur og horfur á minnkandi landsframleiðslu undirstrika hve brýnt þetta er.

    Um leið og dregið verður úr hallarekstri ríkissjóðs árið 1992 með því að stöðva þau vaxandi ríkisumsvif sem viðgengist hafa undanfarin ár verða næstu skref til uppbyggingar og kerfisbreytinga í ríkisrekstrinum undirbúin.``
    Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Stefnt er það því að fjármál ríkissjóðs verði komin í jafnvægi í árslok 1993.``
    Það var sem sagt stefna ríkisstjórnarinnar að koma á jafnvægi í ríkisbúskapnum, að ná ríkishallanum niður á tveimur árum, sem ég tel að þá strax hafi verið algerlega óraunhæft markmið, en jafnframt að draga mjög úr umsvifum ríkisins. Það er kannski ekki síst sá þáttur sem við höfum orðið vör við og hafa valdið miklum deilum hér á Alþingi og þá ekki síst sá þáttur að koma kostnaði við velferðarkerfið yfir á hinn almenna borgara.
    Einn mikilvægur þáttur í stefnu ríkisstjórnarinnar sem ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á er auðvitað sá að selja eignir ríkisins eða að einkavæða eins og það hefur verið kallað. Mér finnst þetta einkavæðingarmál vera eitt besta dæmið um það hvað ríkisstjórnin hugsar málið illa og hversu lítið raunsæi er í hennar áætlunum. Ef maður bara lítur á tölurnar yfir einkavæðingaráformin þá var það svo að í fjárlögum fyrir árið 1992 var áætlað að selja eignir ríkisins fyrir 1 milljarð kr. en raunin varð 283 millj. kr. Árið 1993 átti að seilast enn lengra og selja eignir fyrir 1,5 milljarða kr. en samkvæmt því sem segir hér í frv. er útlit fyrir að það náist inn 100 millj. kr. ( Umhvrh.: Er þingmaðurinn að kvarta yfir því?) Samkvæmt frv. fyrir árið 1994 er áætlað að selja ríkiseignir fyrir 500 millj. kr. þannig að menn eru nú heldur að draga í land.
    Nú hef ég margt að athuga við einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar og ekki síst hvað þeir vilja selja. En ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að hér er að mínum dómi mjög gott dæmi um áætlanir sem eru svoleiðis út í bláinn að það nær ekki nokkurri átt. Þess vegna vakna auðvitað margar spurningar varðandi fjárlög þessa kjörtímabils, hvernig þau hafi staðist. Hér hefur margsinnis verið minnst á ríkishallann sem hefur aukist ár frá ári og allar áætlanir sem gerðar hafa verið hafa reynst kolvitlausar og því spyr maður sig auðvitað enn einu sinni, það er hin eðlilega spurning: Er þetta fjárlagafrv. eitthvað raunsærra en hin fyrri? Ég bendi á það að ég er búin að lesa vel í gegn tekjukaflann sem við í efh.- og viðskn. eigum síðan að fjalla um og hér er verið að gera ráð fyrir auknum tekjum í ýmsum greinum, m.a. auknum tekjum af bifreiðum og bensíni og hér er m.a. að finna þau tíðindi að það á enn að hækka bensíngjald. Ég skal taka fram að ég er ekki að gagnrýna það því að ég tel eðlilegra að leggja skatt á bensín heldur en ýmislegt annað. En það sem er auðvitað spurningin í þessu er hversu raunsæjar eru þessar tölur. Það hefur orðið samdráttur í bílainnflutningi, samt er gert ráð fyrir allverulegum innflutningi bifreiða og mjög auknum tekjum af þeim og jafnframt er gert ráð fyrir auknum tekjum af bensíni. Þá er gert ráð fyrir því í samræmi við spá Þjóðhagsstofnunar að virðisaukaskattur skili sér á svipaðan hátt og á þessu ári þrátt fyrir að spáð sé almennum samdrætti. Ég spyr auðvitað líka: Hvernig koma þessar spár Þjóðhagsstofnunar heim og saman?
    Það kemur fram hér í frv. einn tekjuliður sem ríkisstjórnin hefur mikið uppáhald á, hinar svokölluðu sértekjur í ýmsum greinum. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig hafa áætlanir um sértekjur staðist? Ef við t.d. lítum á skólakerfið, á heilbrigðiskerfið, hvernig hafa þær staðist og er einhver ástæða til að halda að þær áætlanir sem hér eru gerðar upp á 6,6 milljarða kr., ef ég man rétt um sértekjur, að þær standist. Ég veit það og hef dæmi um það af heilsugæslustöðvum hér í Reykjavík að þar ósköp einfaldlega stendur fólk frammi fyrir því í afgreiðslunum að verða að hætta við að innheimta gjöld af fólki vegna þess að það getur einfaldlega ekki borgað. Og mér leikur forvitni á að vita hversu mikið skilar sér af þessum sértekjum. Ég vil nefna það sem dæmi að við þingkonur Kvennalistans vorum á ferð um Austur-Skaftafellssýslu og komum þar í heimsókn í framhaldsskólann rétt utan við Höfn í Hornafirði. Þar kom í ljós að sá framhaldsskóli er nú rekinn með lánum og yfirdrætti. Honum var gert að afla sér sértekna sem ekki nær nokkurri átt og hann fær ekki peninga til síns reksturs. Ég vil nú biðja fjárlaganefndarfólk að athuga þetta alveg sérstaklega. Og ég spyr auðvitað: Hvernig er með aðra skóla og þessar sértekjur yfirleitt. Ég man líka eftir dæmi frá Keldum þar sem áætlun um sértekjur var algerlega út í bláinn. Þannig að það er margt að athuga í þessu og þær áætlanir sem hér eru gerðar vekja þær spurningar hvort þessi fjárlög standist eitthvað fremur en þau fyrri.
    Það eru geysilega mörg atriði sem hér væri hægt að taka fyrir og ég vil aðeins minnast á það atriði sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. um að það sé ekki meiningin að auka skattheimtu. Menn geta reiknað sundur og saman hvort skattar vaxa eða hvort þeir lækka en auðvitað er staðreyndin sú að skattheimta hefur stóraukist. Maður auðvitað spyr sig hvað sé að gerast hér í þessu frv. og þá er ég að sjálfsögðu að vísa til þjónustugjaldanna og hinna svokölluðu sértekna sem eru ekkert annað en skattheimta á almenning, nemendur, sjúklinga og fleiri. Hér er það boðað að leggja eigi nýjan skatt á allan almenning í landinu og fyrirtæki upp á hálft prósent, gjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í sjálfu sér get ég samþykkt það að vissulega er ástæða til að afla tekna til Atvinnuleysistryggingasjóðs en það sem er gagnrýnivert er það að enn einu sinni er lagður flatur skattur á allan almenning án þess að taka tillit til hinna lægst launuðu. Nú tek ég fram að það kemur fram í frv. að meiningin sé að bæta barnafólki upp þennan aukna skatt. Við erum auðvitað ekki að tala um mjög háar upphæðir en mér verður iðulega hugsað til þess stóra hóps af eldra fólki og þá ekki síst af eldri konum, t.d. hér í Reykjavík, sem vinna á sjúkrahúsum, á barnaheimilum, í skólum á mjög lágum launum og munar um hverja einustu krónu. Þessi hópur fær engar bætur. Ég hef fulla samúð með barnafólkinu en ég vil vekja athygli á því að það eru líka fleiri, það eru fleiri sem þurfa að greiða þessa skatta. Og ég gagnrýni það að ríkisstjórnin skuli leggja á svona flatan skatt. Það tel ég vera mjög gagnrýnivert.
    Enn eitt atriði sem reyndar hefur verið komið inn á hér í umræðunni varðar launastefnu ríkisins. Mér finnst það í raun og veru alveg furðulegt að enn einu sinni skuli því vera haldið fram í fjárlagafrv. að engar launabreytingar verði aðrar en þær sem fylgja starfsaldri og slíku vegna þess að reynslan sýnir okkur að ár eftir ár eru gerðir samningar og hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins senda reikninginn til ríkisins, ár eftir ár. Það er ríkissjóður sem ber aðalkostnaðinn af kjarasamningunum. Það þarf enginn að ímynda sér miðað við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir að það gerist ekki eitthvað slík einu sinni enn. Hvort sem það er í framlögum til atvinnusköpunar eða einhvers konar láglaunabótum þá lendir þetta á ríkissjóði og menn eiga að taka þetta inn í dæmið.
    Ég ætla aðeins að koma hér inn á menntamálin áður en ég lýk máli mínu, frú forseti. Ég á að vísu sæti í landbn. og við munum þar fara rækilega í gegnum fjárlagafrv. en að svo komnu máli sé ég ekki ástæðu til að fara ítarlega í þau mál, heldur langar mig að vekja athygli á nokkru af því sem snertir menntamálin. Ég hef, eins og hv. þm. Svavar Gestsson sem situr með mér í menntmn., miklar áhyggjur af niðurskurði til skólamála. Hér kemur það fram í frv. að ýmsum skólum er gert að skera niður með því sem kallað er í frv. hagræðing, hagræðing sem m.a. á að koma fram í niðurskurði á kennslu. T.d. er Tækniskólanum og Kennaraháskólanum gert að hagræða með því að skera niður kennslu. Og ég get ekki annað en gagnrýnt þetta harðlega. Það hefur verið hart sótt að skólakerfinu á undanförnum árum og ég á mjög erfitt með að sjá að skólarnir geti tekið á sig meiri niðurskurð, en jafnframt er verið að leggja á þá aukin verkefni. Ef við hugsum nú til þeirrar framtíðarstefnu að hér þurfi að byggja upp rannsóknir og bæta tækni og byggja upp iðnað og fjölbreytni í atvinnulífinu þá kemur það auðvitað úr hörðustu átt að ráðast á Tækniskólann og Kennaraháskólann, Kennaraháskólann sem auðvitað leggur grunn að allri menntun í landinu.
    Grunnskólanum er gert að spara 100 millj. kr. til viðbótar við það sem á undan er komið. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum þeir eiga að fara að því. Það segir í frv. að það eigi að spara með því að draga úr öðrum kostnaði í beinni kennslu. Ég veit ekki betur en ríkið greiði fyrst og fremst kennslu í grunnskólum landsins, það er auðvitað önnur starfsemi sem tengist henni. Er verið að tala um skrifstofuliðið eða hvað á að spara núna? Menn vita að það er búið að ganga svo hart að kennslu í grunnskólanum að sem betur fer á ekki að stíga enn eitt skrefið, a.m.k. ekki samkvæmt þessu frv. hvað sem síðar gerist. Maður á svo sem á öllu von þegar þessi ríkisstjórn er annars vegar. En mér er það hulin ráðgáta hvernig þessi sparnaður á að nást fram og það hefði verið fróðlegt að fá tækifæri til að spyrja hæstv. menntmrh. að því.
    Ég vil líka í tengslum við menntamálin vekja athygli á stöðu Háskóla Íslands sem hefur búið við mikinn niðurskurð á undanförnum árum. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál í tengslum við háskólann og hans framtíð hve mjög hefur dregið úr tekjum Happdrættis Háskólans. Margir þingmenn hér vita það að háskólinn er að þreifa fyrir sér á nýjum brautum í því efni, nokkuð umdeildum brautum að vísu, en hversu lengi getur það viðgengist að stærsta háskóla landsins, sem heldur uppi kennslu í ýmsum grunngreinum, sé gert að byggja framtíð sína og uppbyggingu á happdrætti? Nú þekkjum við það frá löndum eins og Bandaríkjunum að háskólar eru styrktir af stofnunum og fyrirtækjum og hafa sjóði á bak við sig. En ég er ansi hrædd um að það gangi ekki miklu lengur að gera háskólanum að stýra sinni uppbyggingu með happdrætti. Tími happdrættanna virðist vera að líða undir lok eða alla vega eiga þau undir högg að sækja. Og málefni háskólans þarf auðvitað að taka fyrir og horfa á í samhengi við það hvað við viljum gera með þessum skóla okkar, hvert hans hlutverk á að vera. Þetta er nú stærsti háskóli landsins.
    Að lokum, frú forseti, tvö atriði sem ég ætla að nefna. Það hefur komið upp sú umræða í efh.- og viðskn. hvernig eiginlega sé hægt að gera þjóðfélaginu og þá ekki síst atvinnulífinu það að þurfa að búa við breyttar skattareglur á hverju einasta ári. Í frv. er augljóst að það er von á mörgum skattafrumvörpum frá ríkisstjórninni. Hvernig á að vera hægt að skipuleggja starf þegar menn vita aldrei hvers er að vænta frá yfirvöldum? Þetta er auðvitað mjög slæmt ástand að menn skuli vera að breyta skattalögum svona á hverju einasta ári og ímyndið þið ykkur bara kostnaðinn við sjálfar breytingarnar sem því fylgja. En í tengslum við það get ég ekki annað en óskað hæstv. fjmrh. til hamingju með það ef honum tekst loksins að afnema skatt af verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem ég veit að hefur verið honum þung raun að þurfa að samþykkja hér ár eftir ár. En það mál tengist því að það verða þær breytingar að sá skattur verður lagður niður og sveitarfélögin fá í staðinn aukið rými til að leggja á fasteignaskatta.
    Allra síðast, frú forseti, vil ég ítreka þá skoðun mína að sú stefna sem lesa má út úr þessu fjárlagafrv. er mjög handahófskennd eins og raunin hefur verið undanfarin ár. Ég held að við eigum öll að hugleiða að auðvitað kann það ekki góðri lukku að stýra að skipuleggja fjármál íslenska ríkisins eitt ár í senn, að það skuli ekki vera horft til lengri tíma og gerðar áætlanir til lengri tíma. Það er auðvitað erfitt fyrir alla að búa við það að vita aldrei hvers er að vænta og við hljótum að geta gert áætlanir í hinum ýmsu málaflokkum ríkisins eins og gert er í vegamálum og flugmálum og aðrar þjóðir beita þeim aðferðum að smíða fjárlög til lengri tíma. Vissulega er við erfiðleika að etja í þjóðarbúinu sem gera það að verkum að það er erfitt að skipuleggja þegar menn vita ekki hvers er að vænta. En ég er ansi hrædd um að þetta frv.

byggi ekki á raunveruleikanum heldur óskhyggju því að allar spár Þjóðhagsstofnunar fela það í sér að það verði aukinn samdráttur hér á næsta ári. Og ég óttast því miður að sá samdráttur komi harðar niður á ríkinu en menn vilja viðurkenna í þessu frv.