Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 20:24:04 (227)


[20:24]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Hann má eiga það, sá ágæti ráðherra, að hann leitast yfirleitt við að svara nokkuð ítarlega því sem til hans er beint. Hann tók það reyndar fram að hann kynni kannski ekki svör við öllu sem hér væri spurt um. En það er auðvitað alveg ófært að það skuli ekki vera fleiri ráðherrar hér við 1. umr. um fjárlög ríkisins fyrir næsta ár, til þess að svara fjölmörgum spurningum sem vaknað hafa, ekki síst í heilbrigðismálum og reyndar í ýmsum öðrum málaflokkum. Einnig hefði hæstv. viðskrh. gjarnan mátt vera hér og fleiri. En það þýðir ekki að sakast um það.
    Það voru tvö eða þrjú atriði sem mig langaði að nefna við hæstv. ráðherra. Það er í fyrsta lagi að hann talar um að skattar hafi ekki verið hækkaðir. Við stjórnarandstæðingar höfum verið að benda á að þjónustugjöldin séu utan við þessa skattaumræðu. Ég verð að segja við hann að þrátt fyrir að sértekjur séu hér taldar upp og breytist ekki mikið, reyndar aðeins til lækkunar vegna Hagræðingarsjóðsins eins og hann greindi frá hér í grg. fjárlagafrv., þá eru þjónustugjöldin auðvitað þar fyrir utan. Þau eru ekki sértekjur. Þátttaka einstaklinganna í lyfjakostnaði, þátttaka einstaklinganna í sérfræðiþjónustu, sem er líklega upp undir milljarður hvort um sig, tveir milljarðar kr. eru bara ekkert hér inni, hæstv. forseti þannig að þetta er því miður ekki rétt hjá ráðherra. En auðvitað mun fjárln. fara betur ofan í þetta og líta yfir þau mál.
    Annað sem ég vil nefna, ég sé nú reyndar að tíminn er hlaupinn frá mér, ég hélt að ég hefði þó tvær mínútur en ekki bara eina. Það er í sambandi við vaxtamálin. Auðvitað er mér ljóst að næmið er hjá vöxtunum en ekki hjá bankastjórunum, það er það sem hér er verið að tala um. En ég verð þó að segja að maður gæti álitið að það séu bankastjórarnir því sem fyrrv. bankaútibússtjóri verð ég að segja það að ég skil ekki hvernig bankavextirnir geta verið í svona miklu ósamræmi við vextina á verðbréfaþingi sem hæstv. ráðherra benti á. Meira að segja ríkisvextirnir til skamms tíma, óverðtryggðu, hafa ekki hækkað, hefðu þó átt að vera næmir fyrir verðbólguverðbreytingunum ef einhverjir vextir eiga að vera næmir fyrir verðbólgubreytingunum.
    Virðulegi forseti. Ég átti hér eftir svolítið fleiri atriði en ég sé að tíminn er búinn og ég níðist ekki á honum.