Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 20:29:38 (230)


[20:29]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Þakka þér fyrir, virðulegi forseti. Ég ætla ekki heldur að deila um þetta frekar. Ég nota ekki einu sinni þessar þrjár mínútur, rétt aðeins að bæta hér við að ég hefði viljað spyrja ráðherra í framhaldi af þessari umræðu um vaxtamál: Hvað vill ráðherrann gera? Hvað telur ríkisstjórnin að sé hægt að gera í þessari stöðu? Ég skil hans útskýringar hér áðan á þessu vaxtaferli öllu sem er flókinn og ekki alveg einfalt að fara ofan í það í stuttu máli. En hér var t.d. bent á það af einum hv. þm. stjórnarliðsins, Einari Guðfinnssyni, að það væru auðvitað til leiðir sem ríkisstjórnin hefur á valdi sínu með aðstoð Seðlabanka. Það gerist í öllum öðrum löndum, virðulegi hæstv. fjmrh. Við heyrum talað um að það sé verið að þrýsta á Seðlabanka og stjórnvöld í Þýskalandi að færa til vexti. Að færa til vexti. Hvað er það? Eiga þá stjórnvöld að biðja markaðinn að breyta eftirspurninni? Nei, það er ekki þannig. Auðvitað eiga stjórnvöld bara að hafa áhrif á vaxtastigið, beinlínis. En hér eru menn, eins og fram hefur komið, heilagri en páfinn og geta ekki tekið á þessum málum af neinu viti. Og þó er það yfirlýst. Og meira að segja í þessu plaggi, þjóðhagsáætlun, sem lögð er fram af forsrh., er ekki hægt að finna annað en það sé nokkur vanstilling yfir þessu ástandi sem ríkir á vaxtamarkaðinum. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að það sé nauðsynlegt að taka á þessum málum og ég held að ríkisstjórnin verði að gera það. Og ég spyr því ráðherra einu sinni enn: Er það virkilega svo að hann sjái ekki neina möguleika á því að ríkisvaldið komi inn í og hafi einhver áhrif á þessa vaxtaþróun, heldur horfi bara upp á það að næmi bankastjóranna sé eins og við höfum rætt hér fyrr? Ég eyði svo ekki frekari orðum í það.
    Einnig langaði mig aðeins, fyrst ég fékk smástund í viðbót, að tala um sölu ríkisfyrirtækja og hvaða líkur eru á því að 500 millj. skili sér á næsta ári. Ekki átti Búnaðarbankinn einn sér að skilja þessum 1500 millj., Það var eitthvað fleira sem átti að selja á þessu ári heldur en Búnaðarbankann og það hefur selst fyrir 100 millj. Ráðherra taldi upp nokkrar stofnanir sem hugsanlega væri meiningin að selja, Sementsverksmiðju, Aðalverktaka, Lyfjaverslunina og ég minni á t.d. að í 6. gr. fjárlaga er talað bæði um Jarðboranir ríkisins og Bifreiðaskoðunina. Þannig að eitthvað hefði e.t.v. verið hægt að fá inn af þessum áætluðu tekjum. Ef menn eru að gera sér vonir um að þær yfir höfuð skili sér, af hverju ættu þær að skila sér frekar á næsta ári?
    Og að lokum, virðulegur forseti, vildi ég aðeins undirstrika að það er mjög furðulegt sem fram hefur komið í þessum umræðum, hve mikil ósátt virðist í raun vera í stjórnarliðinu með þetta frv. sem hér liggur fyrir. Það er alveg greinilegt að bæði hv. þm. Árni M. Mathiesen og hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir og reyndar að hluta til hv. þm. Einar K. Guðfinnsson eru afar óánægð með það sem hér kemur fram, fyrir utan það sem við vissum fyrir fram, að einstakir ráðherrar hafa haft allan fyrirvara.
    Þakka þér fyrir, virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu, enda búinn með þessar þrjár mínútur.