Eftirlaun hæstaréttardómara

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 14:04:29 (255)


[14:04]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það kom reyndar fram í svari hæstv. fjmrh. rétt áðan að aðrir ráðherrar munu fylgja fordæmi hæstv. viðskrh. og knýja á um svör varðandi fríðindi ýmissa embættismanna, forstjóra sem undir þá heyra. Það kom jafnframt fram að menn hefðu ekki gert slíka fríðindasamninga síðan hv. 8. þm. Reykn. gerði það síðastur manna og þeir munu væntanlega ekki verða gerðir.
    Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að menn fari ofan í þessa hluti. Hins vegar býst ég við að það sé nú þannig að þessir þættir hafi verið mönnum allljósir og kunnir. Það eru engin ný tíðindi að bankastjórar hafa haft bankastjórabíla. Ég hygg að flestir þigmenn hafi vitað það. Það þarf enginn að koma af fjöllum með það. Hins vegar er eðlilegt að í slíkum tilvikum kaupi menn bíla sem eru á skikkanlegu verði rétt eins og ég tel að ráðherrabílar séu núna, þeir séu á skikkanlegu verði miðað við það sem þekkist og hefur tíðkast.
    Varðandi spursmál hv. þm. um það hvort ástæða sé til þess að breyta stjórnarskránni varðandi hæstaréttardómara, þá vek ég athygli á því að þessi grein er hugsuð sem réttarvernd fyrir dómara. Greinin er hugsuð þannig að hinir geirar hins þrískipta valds geti ekki ef þeim mislíkar við dómarana til að mynda klekkt á þeim. Og þetta er sérstaklega hugsað til þess að þetta ákvæði stemmi stigu við slíkum þáttum. Reyndar vil ég geta þess að það var sagt hér á þinginu að hæstaréttardómarar hefðu laun til æviloka eins og forseti Íslands. Þetta var rangfærsla. Forseti Íslands hefur ekki laun til æviloka. Forseti Íslands fær eftirlaun, 60% eftir eitt kjörtímabil, 70% eftir tvö, 80% eftir þrjú og borgar af þeim skatta.