Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:18:51 (262)


[15:18]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat hér um viðbrögð mín við sérstakri ráðstöfun á einum milljarði til eflingar atvinnulífi og til þess að eyða atvinnuleysi og minntist þess að ég gerði athugasemdir opinberlega við þessa úthlutun. Það er alveg hárrétt og ég stend við það. Það var ástæða til þess að gera athugasemd bæði við efni og aðferð þegar þessum milljarði var úthlutað. Hins vegar finnst mér að hv. þm. hefði átt að geta þess að ríkisstjórnin hefur í raun og veru sýnt skilning á sérstöðu atvinnulífsins á Akureyri. Vil ég þar nefna sérstaklega hlutafjáraukningu í Slippstöðinni sem var vissulega gerð til þess að koma því fyrirtæki aftur fyrir vind. Nú síðast ber að athuga að það hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja viðgang skinnaiðnaðar í landinu sem ég hygg að sé raunar ein af undirstöðunum fyrir því að nú er verið að setja aftur á stofn skinnaiðnaðarfyrirtæki á Akureyri.
    Ég treysti því einnig að ríkisstjórnin muni líta til erfiðs atvinnuástands þegar opinberar framkvæmdir koma til nánari umfjöllunar. Ég held hins vegar að það hefði verið ástæða til þess fyrir hv. þm. að hugleiða það að erfiðleikarnir á Akureyri eru ekki nýtilkomnir, þeir eiga nokkuð langan aðdraganda. Þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum þá voru mjög stór fyrirtæki á Akureyri, ég nefni þar Slippstöðina og þá má líka gjarnan nefna skinnaiðnaðinn, nánast komin í gjaldþrot vegna þess að hjá þeim fyrirtækjum höfðu hlaðist upp skuldir. Þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum á vormánuðum 1991 þá hafði Slippstöðin, ef ég man rétt, safnað um 700 millj. kr. í skuld og var með óselt verkefni við hafnarbakkann sem safnaði 20 millj. kr. á ári. Þetta var ástandið hjá þessu fyrirtæki þegar hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór frá.