Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 10:33:04 (270)

[10:33]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi spyrja um það í upphafi hvort til stendur að ræða þetta mál að fjarstöddum forsrh., fjmrh. og sjútvrh. sem þetta mál varðar. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hæstv. forsrh. komi til fundarins, en forseti vill spyrja hv. þm. hvort óskað sé eftir nærveru hæstv. fjmrh. einnig.) Ja, ég teldi það nú, forseti, æskilegt að bæði fjmrh. og sjútvrh. væru viðstaddir þessa umræðu en ég geri ekki kröfu til þess. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál er fyrst og fremst á ábyrgð forsrh. þó það snerti málaflokka annarra ráðherra, þá vildi ég a.m.k. að hæstv. forsrh. væri viðstaddur umræðuna áður en hún heldur áfram. Ég hafði ekki hugsað mér að vera mjög lengi með mitt mál, en ég tel æskilegt að hæstv. forsrh. væri viðstaddur. ( Forseti: Forseti ítrekar að það er verið að kanna hvort hæstv. forsrh. getur komið til fundarins. Vill hv. þm. fresta ræðu sinni?) Já, ég tel það æskilegra heldur en að standa hér. ( Forseti: Þessum fundi verður þá frestað í fimm mínútur á meðan athugað er hvort hæstv. forsrh. getur sótt fundinn.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga, en bráðabirgðalög voru sett þar um í lok maí. Ég tel að það séu full efni til þess að ræða um það hvort hér hafi verið eðlilega staðið að málum, þ.e. að setja bráðabirgðalög um öll þessi mál svo fljótt eftir að þingi var slitið, ekki síst í ljósi þess að það voru uppi mjög ákveðnar kröfur um það að sum þeirra mála sem hér voru afgeidd með bráðabirgðalögum væru afgreidd á því þingi. Ég nefni sérstaklega ákvæði laganna um úthlutun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, en frumvörp um það efni höfðu legið fyrir síðasta Alþingi og því oft verið neitað að afgreiða það mál. Í lok þingsins var það enn á ný ítrekað og þess krafist í sjútvn. þingsins að mál sem eru nánast samhljóða þeim ákvæðum sem hér eru væru afgreidd út úr nefndinni. Þar var fyrst og fremst um það að ræða að afgreiða heimildir til ríkisstjórnarinnar til þess að hún gæti staðið við fyrri yfirlýsingar um þessi mál. Ríkisstjórnin neitaði því og beitti til þess meiri hluta Alþingis að þau mál væru afgeidd og er augljóst að ríkisstjórnin hafði í huga að afgreiða það með bráðabirgðalögum síðar á sumrinu.
    Ég tel að í ljósi þess að hér hafa verið sett ný ákvæði um bráðabirgðalagavaldið, þá sé það á allan hátt óeðlilegt að ríkisstjórn komi þannig fram við Alþingi að því sé neitað að afgreiða mál sem augljóslega mun þurfa að afgreiða áður en næsta Alþingi kemur saman. Ég tel að þetta sé ekki í samræmi við þann vilja sem lá að baki breytingum á bráðabirgðalagavaldinu og vil því sérstaklega mótmæla því að þessi vinnubrögð séu viðhöfð.
    Það má einnig ræða hér ýmis önnur atriði þessara laga, t.d. það að hér er varið 1.000 millj. af fjármunum ríkissjóðs til ákveðinna verkefna sem er skipt af framkvæmdarvaldinu án þess að Alþingi hafi þar nokkur áhrif sem teljanleg eru fyrr en eftir á. Það eru að mínu mati mjög óæskileg og óeðlileg vinnubrögð að slíkar opnar heimildir séu afgreiddar og ekki sé leitað samstarfs við Alþingi í slíkum málum. Fjárln. situr við það mestallan veturinn að skipta ýmsum fjárveitingum og eyðir í það ómældum tíma, síðan ákveður ríkisstjórnin það að afgreiða mál eins og þetta með litlu sem engu samráði við Alþingi, en það er að sjálfsögðu orðið of seint þegar þessum fjármunum hefur verið eytt að ræða það hér á Alþingi.
    Það hefur gætt vaxandi tilhneigingar í þessa átt hjá núv. ríkisstjórn. Ég minni á í þessu sambandi að framkvæmdarvaldið tók upp þann sið að skipta vegafé með nýjum hætti og var það gert þannig að ákveðnir ráðherrar settust niður með yfirvöldum vegamála og skiptu því fjármagni án samráðs við þingmenn sem hafa þó ávallt haft mikil áhrif í þeim málum. Ég átel þessi vinnubrögð og vænti þess að þar geti orðið breyting á og það verði virt að Alþingi á að sjálfsögðu að fjalla um mál eins og þessi og ekki á að beita bráðabirgðalagavaldi að óþörfu í málum sem þessum. Ég geri mér hins vegar ljóst að ríkisstjórnin heldur því fram að með þessu hafi verið tryggður vinnufriður í landinu og þess vegna hafi verið nauðsynlegt að grípa til bráðabirgðalaga. En að hluta til var það vitað að afla þyrfti heimilda til þess að kjarasamningar yrðu framlengdir og gengju í gildi og menn hljóta að reyna að afla nauðsynlegra heimilda í því skyni eftir því sem hægt er til þess að komast hjá því að beita bráðabirgðalögum. Ég vil jafnframt minna á að það er ávallt hægt að kalla Alþingi saman til stuttra funda þegar brýn mál ber að og sjálfsagt að leita samninga um það fyrir fram hvort ekki sé hægt að afgreiða mál með þeim hætti á tiltölulega stuttum tíma. Ég tel að síðan breytingin var gerð á bráðabirgðalagavaldinu hafi nánast engin breyting orðið á framkvæmdinni nema sú sem augljós er að frumvörp þessa efnis verður að leggja fram í upphafi þings og hljóta

þar afgreiðslu innan tilskilins tíma. Það er ljóst í máli eins og þessu að þingið getur nánast engin áhrif haft á málið eftir á, en ég tel að með þessari breytingu hafi átt að tryggja meiri áhrif þingsins í sambandi við meðferð slíkra mála.
    Ég vil þá koma að efnisatriðum þessa frv. og fyrst víkja að IV. kafla bráðabirgðalaganna um úthlutun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Ég vil taka það fram að ég styð þessar ákvarðanir og vísa í því sambandi til frumvarpa sem við í stjórnarandstöðunni fluttum um þetta mál en hlutu ekki afgreiðslu á síðasta Alþingi vegna andstöðu ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir yfirlýsingar hennar í málinu. Við hljótum að spyrja: Hvað mun gerast í framhaldi af þessari afgreiðslu? Þarna er ákveðið að úthluta þessum aflaheimildum að því er varðar síðasta fiskveiðiár, en nú eru engar lagaheimildir fyrir hendi að því er varðar yfirstandandi fiskveiðiár sem nýlega er hafið og er þó engu minni ástæða til og í reynd mun meiri að beita jöfnunaraðgerðum í sambandi við þá úthlutun, en ekki verður séð að ríkisstjórnin hafi uppi neina tilburði í þá átt. Vil ég þá vitna til yfirlýsingar sem kom frá ríkisstjórninni fyrr í sumar eða í lok júní vegna aðgerða til að mæta aflasamdrætti. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frumvarp til laga um stofnun Þróunarsjóðs sjávarútvegsins verður lagt fram strax í upphafi þings og afgreitt sem sjálfstætt þingmál og forgangsmál.``
    Þetta eru út af fyrir sig kunnuglegar yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstjórn. Það má segja að í þessu máli hafi komið yfirlýsing eftir yfirlýsingu en efndir verið þeim mun minni. Sama á við um Hagræðingarsjóðsmálið. Það vantaði ekki yfirlýsingarnar en það var loks afgreitt með bráðabirgðalögum, en síðasta yfirlýsingin fjallar um það að frv. um þessi mál verði ekki aðeins lögð fram í upphafi þings heldur strax í upphafi þings. Ég held að það hljóti að þurfa að skilja það með þeim hætti að strax í upphafi þings þýði að það komi fram jafnhliða fjárlagafrv. En það bólar ekkert á málinu og við í stjórnarandstöðunni höfum hvorki heyrt það né séð, en því hefur brugðið fyrir að málið hafið verið til umfjöllunar í ríkisstjórnarflokkunum.
    Það er náttúrlega alveg augljóst mál og getur hver séð sem vill eitthvað sjá að það er enn þá mjög mikill ágreiningur í ríkisstjórninni um þetta mál og það verður ekki séð að það standi til að leysa þann ágreining. Má vel vera að ýmsir þeir, sem lýstu því yfir í síðustu kosningabaráttu að þeir mundu aldrei styðja kvótakerfi, séu nú að ná yfirhöndinni í þessu máli eins og t.d. hæstv. iðn.- og viðskrh. sem lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að hann mundi aldrei --- og það var skriflegt af hans hálfu --- styðja ríkisstjórn sem styddist við kvótakerfi í fiskveiðistjórnun. Ég get vel skilið að það sé erfitt fyrir hæstv. iðn.- og viðskrh. að sitja í ríkisstjórn sem styðst við kvótakerfi í stjórn fiskveiða, þó að yfirlýsingar hans hafi að vísu ekki gengið í þá átt, en væntanlega styður hann þá ríkisstjórn sem hann situr í.
    Þetta er að sjálfsögðu algerlega óþolandi fyrir sjávarútveginn í landinu. Það stendur þróun hans mjög fyrir þrifum að búa við eitthvert öryggi um framtíðarskipulag og endalaus umræða um einhver frumvörp sem á að fara að leggja hér fram á Alþingi dugar ekki í því sambandi.
    Komið hafa fram yfirlýsingar um að það standi til að greiða meiri úreldingarbætur út á fiskiskip og þessi yfirlýsing hefur í reynd stöðvað allar frekari úreldingu fiskiskipaflotans. Það dettur engum í hug að úrelda fiskiskip þegar ekki er staðið við yfirlýsingar árum saman. Og það liggja líka fyrir yfirlýsingar um að það standi til að styrkja þá aðila sem hyggjast leggja niður fiskvinnsluhús. Menn reyna að sjálfsögðu að halda öllum fiskvinnsluhúsum í rekstri meðan ekki er staðið við yfirlýsingarnar þannig að ríkisstjórnin verður að fara að svara því hvað hún ætlar að gera í þessu máli og stuðningsmenn hennar, sem hafa haft margir hverjir mjög hátt um andstöðu við núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi sem þarf ákveðinna breytinga við. Og ef mál fara ekki að skýrast, þá á þessi ríkisstjórn að sjálfsögðu að segja af sér í stað þess að halda mönnum í endalausri óvissu. Rekstrarskilyrði sjávarútvegsins eru alveg nægilega erfið þótt menn búi ekki líka við slíka yfirlýsingagleði sem aldrei er staðið við. Menn hljóta að spyrja sjálfa sig hvað hæstv. sjútvrh. ætlar að sitja lengi í gíslingu þessara manna og búa við ákvörðunarleysi þeirra. Ég hef skilið það svo að hæstv. sjútvrh. væri búinn að gera upp hug sinn um hvað hann vill leggja til. En ekki verður séð að hann hafi mikinn stuðning í ríkisstjórninni jafnvel þótt hún hafi sett það á prent að þetta yrði nú lagt fram strax í upphafi þings. Ekki meira um það mál að sinni, en ég vænti þess að hæstv. forsrh. geti e.t.v. gefið enn nýja yfirlýsingu í málinu, þótt þær fari nú að verða heldur ótrúverðugar.
    Ég ætla ekki að fjalla hér um heimildir til fjmrh. að verja allt að 1.000 millj. kr. til atvinnuskapandi aðgerða. Ég veit að þarna hefur verið uppi ágreiningur milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar hvort það hafi verið staðið við þær yfirlýsingar sem gefnar voru og jafnframt hefur verið mikil óánægja með það víða hvernig þessu fjármagni hefur verið ráðstafað. Það er að sjálfsögðu eins og gengur og gerist í tilvikum sem þessu að ekki geta allir verið ánægðir, en það er mikilvægt að fullrar sanngirni sé gætt í máli sem þessu og fjármagni ekki úthlutað af handahófi. En ég hef haft það á tilfinningunni að allmikið handahóf hafi verið ráðandi í þeim málum og ekki hafi alltaf verið farið að eðlilegum leikreglum í því sambandi jafnvel þótt hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. hafi oft og tíðum notað hin stærstu orð um það hvernig oft hefur verið staðið að málum hér áður fyrr. Ég ætla ekki að gera mönnum upp neitt í því sambandi að menn vilji ekki standa eðlilega að málum, en það fer ekki hjá því að þegar mikil fljótaskrift er á hlutunum eins og var í þessu tilviki, þá fer alltaf eitthvað úrskeiðis. Ég vænti þess hins vegar að við fáum nánari upplýsingar um þetta mál við umfjöllun þess í nefnd.
    Þá fjallar þetta frv. um endurgreiðslu á tryggingagjaldi sem ég tel að hafi verið nauðsynleg aðgerð til þess að bæta hag atvinnuveganna, en vil hins vegar minna á það að fljótlega eftir að lögin voru gefin út var því lýst yfir af forustumönnum atvinnurekstursins að ekki hefði verið staðið við þau orð sem gengu á milli í þessu máli og kom það fyrst og fremst fram hjá fulltrúum fiskvinnslunnar sem töldu að framkvæmd fjmrh. hefði verið með öðrum hætti en um var talað. Ekki get ég fullyrt hvað rétt er í því, en augljóst er að þarna hefur a.m.k. verið um einhvern misskilning að ræða og það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hæstv. ríkisstjórn, ef það er strax dregið í efa að staðið sé við yfirlýsingar, en þetta er að sjálfsögðu mál, sem þingnefnd hlýtur að taka til umfjöllunar.
    Ég vil af þessu tilefni fjalla lítillega um skattamál sem hljóta að vera mjög ríkur þáttur í þeim jöfnunaraðgerðum sem þurfa að eiga sér stað í okkar samfélagi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er ekki mögulegt við þær aðstæður sem nú eru að lækka skatta og minn flokkur hefur ekki verið með neinar tillögur í því sambandi að gera sér upp vonir um það að hægt sé að stórlækka skatta við þær aðstæður sem nú eru. Og við vorum ekki með neinar slíkar hugmyndir þegar gengið var til síðustu kosninga. Hins vegar vill svo til að núverandi stjórnarflokkar gerðu sér miklar vonir um, og voru með yfirlýsingar um það, að skattar yrðu lækkaðir. Sjálfstfl. gekk mjög fram í þeim efnum og taldi að hann væri eini flokkurinn á Íslandi sem gæti tryggt það að skattar mundu ekki hækka, og í reynd mundu þeir stórlækka, og gekk til kosninga undir þeim merkjum og aðrir voru svo afgreiddir eins og hverjir aðrir skattpíningarflokkar.
    Ég held að það sé alveg ljóst að Sjálfstfl. getur ekki leikið þennan leik aftur, verkin hafi talað í þeim efnum. Auðvitað þýðir ekki að lofa kjósendum slíkum hlutum vitandi um það ástand sem er í ríkisfjármálunum, og er búið að vera alllengi ljóst, að þar væri við mikinn vanda að etja. Ég tel það vera nauðsynjamál að gæta fyllsta aðhalds á útgjaldahlið fjárlaganna og ríkisstjórnin þurfi að skera niður útgjöld eftir því sem nokkur kostur er. Það er hins vegar mikilvægt að menn gangi þar fram af festu en ekki með hringlandahætti, eitt sé ákveðið í dag og annað á morgun, hvort sem það er á sviði heilbrigðismála eða annarra mikilvægra þjóðfélagsmála. Það er líka mikilvægt að ríkisstjórnin geti staðið við yfirlýsingar sínar til þess að skapa trúverðugleika á peningamarkaði, ekki síst ef takast á að lækka vexti. Og þá hlýtur maður að spyrja sjálfan sig hvað ríkisstjórnin hafi átt við þegar hún gaf út yfirlýsingu fyrr í sumar, í lok júní, um ríkisfjármál, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin hefur ítrekað fyrri markmið um að fjárlagahalli næsta árs verði verulega minni en áætlaður halli á þessu ári. Á næstu vikum verði unnið að endanlegum undirbúningi fjárlagafrv. í samræmi við þau markmið.``
    Nú hefur það verið upplýst að fjárlagahalli yfirstandandi árs verður trúlega a.m.k. 12 milljarðar kr. eða helmingi hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögunum og skýringanna er að leita bæði á útgjaldahlið og tekjuhlið. Nú hefur verið lagt fram fjárlagafrv. þar sem gert er ráð fyrir 10 milljarða kr. halla og verulegar líkur á að hallinn verði nokkru meiri þannig að engan veginn er hægt að álykta sem svo að það verði minni halli á komandi fjárlögum en því ári sem rennur senn á enda. Því hlýtur maður að spyrja: Hvernig eiga aðilar á peningamarkaði, almenningur, erlendar lánastofnanir og atvinnurekstur að skilja orðalag ríkisstjórnarinnar almennt þegar sagt er að það sé markmið að fjárlagahallinn verði verulega minni en áætlaður halli á þessu ári og það verði unnið í samræmi við þessi markmið? Er það að dómi ríkisstjórnarinnar verulega minni fjárlagahalli ef hann lækkar úr 12 milljörðum í 10 milljarða þegar jafnframt er óvissa um niðurstöðu fjárlaganna eins og ávallt er? Ég hefði getað skilið það ef í yfirlýsingunni hefði staðið að hann yrði minni. En þegar bætt er við ,,verulega minni``, þá tel ég að það sé villandi orðalag með sama hætti og þegar sagt er í upphafi þings sé nokkurt svigrúm, einhverjir dagar frá því að þing hefst. En ef sagt er ,,strax`` í upphafi þings, þá hefði ég litið svo á að það væri sama daginn og þing kæmi saman. Eiga menn almennt að fara að strika út svona ,,lýsingarorð`` úr öllum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar? Væri ekki betra að ríkisstjórnin gerði það sjálf og fengi í það góðan íslenskumann til að taka þetta orðagjálfur út? Ég held að það væri rétt í ljósi reynslunnar.
    Ég er ekki með þessum orðum að gera lítið úr þeim vanda sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir í ríkisfjármálum. Auðvitað er það vandi samfélagsins alls, Alþingis, og ríkisstjórnin á ekki að vera þar ein á báti. Ég tel að það eigi að vera almennur skilningur á því hér á Alþingi að þarna þurfi að taka til hendinni vegna þess að vöxturinn í ríkisbúskapnum er of mikill. Það hefur margvísleg löggjöf verið afgreidd, því miður, með þátttöku allra stjórnmálaflokka án þess að menn gerðu sér oft og tíðum nægilega góða grein fyrir því hvaða útgjöld hún mundi hafa í för með sér. Þetta eru staðreyndir sem ekki verður vikist undan og auðvitað gerir það málið erfiðara í allri framkvæmd því að það hafa oft og tíðum verið skapaðar væntingar í ríkisfjármálunum af hálfu Alþingis, núv. ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna, sem erfitt hefur verið eða ómögulegt að standa við og það er að sjálfsögðu ekki góð framkvæmd af hálfu löggjafarsamkomunnar.
    Ég vil jafnframt nefna það að ýmislegt af því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið í skattamálum, sem ekki mun skila mjög miklum tekjum, mun að mínu mati draga úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu og gera það að verkum að hallarekstur samfélagsins verði meiri en annars hefði orðið. Það er alls ekki nóg að tryggja minni halla í ríkisbúskapnum ef það verður til þess að hallinn í þjóðfélaginu verði jafnvel meiri. Ég vil nefna sem dæmi því sambandi þann virðisaukaskatt sem nú stendur til að leggja á ferðaþjónustu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það mun mjög draga úr vexti þessarar atvinnugreinar og verða til þess að Íslendingar verða af verulegum gjaldeyristekjum og mun jafnframt verða til þess að auka atvinnuleysi í landinu. Það má vel vera að þetta muni lagfæra hallann hjá ríkissjóði um einhverjar milljónir. Þó hef ég verulegar efasemdir um það því að veltuminnkunin og auknar atvinnuleysisbætur munu vega þar verulega upp á móti því að hækkun á þessari þjónustu gagnvart erlendum mörkuðum mun hafa mjög slæm áhrif og draga úr komu ferðamanna hingað til lands.
    Það sama á við um virðisaukaskatt á flugferðir sem stendur til að leggja á um næstu áramót sem mun væntanlega verða til þess að draga mjög úr því að Íslendingar ferðist flugleiðis innan lands og jafnframt draga úr því að ferðamenn fari út um landið sem getur líka haft þær afleiðingar á flugreksturinn í landinu að þjónusta hans minnki og jafnvel leggist niður, enda hefur þessi þjónusta verið rekin með umtalsverðum halla og miklar fjárfestingar hafa átt sér stað að undanförnu í góðri trú.
    Hæstv. samgrh. hefur lýst því yfir, hann gerði það strax í upphafi þessa árs, mig minnir 5. jan., eftir vel heppnaða ferð til Egyptalands, að hann hefði komist að raun um það að þar hefðu ferðamálayfirvöld afskipti af slíkum málum. Og jafnvel þótt menn væru hrifnir þar af einkavæðingu þá mundu menn þó ekki vilja ganga svo langt að öllum afskiptum væri hætt. Og hann lýsti því yfir við þessa vel heppnuðu ferð að það gengi ekki að leggja þessa skatta á. Ég veit það að hæstv. samgrh. hefur nú brugðið sér til alþýðulýðveldisins Kína til þess að kynna sér sambærilega hluti og ég vænti þess að hann muni koma þaðan til baka fróður og enn þá viljugri í því að koma í veg fyrir það að þessir skattar verði lagðir á til tjóns fyrir ferðaþjónustuna og til tjóns fyrir þjóðarbúið í heild.
    Ég vil jafnframt benda á það að stöðugar breytingar í skattkerfinu gera það að verkum að það reynist erfitt að uppræta skattsvik. Skattkerfið hefur ekki við að breyta og embættismennirnir eru í stöðugum verkum að framkvæma nýja löggjöf sem kemur frá Alþingi og það er því miður ekkert nýtt. Alþingi hefur verið mjög duglegt við það að afgreiða löggjöf á sviði skattamála og það á sér stað stöðugur hringlandaháttur á þessu sviði, m.a. vegna þrýstings frá samfélaginu og verkalýðshreyfingu. Eitt dæmið, nýjasta dæmið þar um, eru núna fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á skattalagningu matvæla.
    Ég man vel eftir því í fyrri ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum að þáv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, kom með tillögu um að það væri rétt að lækka skatta á matvælum og hækka aðra skatta. Það var í september 1988, ef ég man rétt. Ég minnist þess mjög vel að þáv. utanrrh., sem jafnframt er núv. utanrrh. og formaður Alþfl., kallaði þessa tillögu hnífsstungu í bakið. Það var nú ekkert annað, þetta var bara hnífsstunga í bakið. Mér finnst að núv. utanrrh. hafi gengið mjög vel að ná hnífnum úr og er eiginlega merkilegt hvað honum hefur tekist vel í þeim efnum. Ég vil trúa því að hann hafi notið mikillar umhyggju meðráðherra sinna í ríkisstjórninni við þessar aðgerðir. Ég man vel eftir því að ég og hæstv. þáv. utanrrh. vorum mjög sammála um það að þetta væri ekki mjög skynsamleg aðgerð í skattamálum. Ég er þeirrar skoðunar enn. Það er hins vegar alveg ljóst að minn flokkur hefur ályktað í þá átt að það beri að lækka verð á matvælum og hefur verið mikill áhugi þar að lækka þennan skatt. Ég er jafnsannfærður um það nú og ég var þá að þetta er ekki rétt aðferð vegna þess að lækkunin mun fyrst og fremst eiga sér stað á innfluttum matvælum og þar að auki mun þetta verða þess valdandi að skatteftirlit mun verða verra og skattkerfinu mun ganga illa að framkvæma þessa breytingu og mun ekki geta snúið sér að málum sem það þarf að snúa sér að. Ég veit að allir þeir sem best þekkja til í skattkerfinu hafa komið þessum aðvörunum á framfæri og hafa gert það í gegnum árin. Það hafa verið gerðar margar úttektir á þessum málum, ekki aðeins hér á landi heldur jafnframt erlendis og jafnvel þótt að slíkur háttur sé hafður á annars staðar þá er ekki þar með sagt að hann eigi mjög vel við hér á landi.
    Ég vænti þess að þetta séu mál sem hægt verði að ræða í fullri einlægni á því þingi sem nú er nýhafið, menn taki tillit til þeirrar hættu sem þarna er á ferðinni og hæstv. utanrrh. rifji upp orðin og yfirlýsingarnar frá 1988, en menn sem koma með slíkar yfirlýsingar, þótt í annarri ríkisstjórn hafi verið, eru að sjálfsögðu ekki teknir alvarlega. En ég sakna þess vissulega að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera hér til að gera okkur grein fyrir þessum merkilegu atburðum sem hann hafa hent en sjálfsagt mun gefast tækifæri til þess síðar.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá gert grein fyrir þeim hugleiðingum sem ég vil koma á framfæri í upphafi þessa máls. Ég vænti þess að þau atriði sem ég hef rætt verði tekin til umfjöllunar í nefnd og hæstv. ríkisstjórn geri betur grein fyrir stefnu sinni í ríkisfjármálum, peningamálum og efnahagsmálum í því skyni að hægt verði að taka hana af meiri alvöru í yfirlýsingum í þessum málum. Ég bendi líka á í þessu sambandi að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. tala sitt á hvað í þessu máli. Hæstv. utanrrh. telur að við séum komin á mjög hættulegt stig, og sjálfsagt sér hann marga hnífa fyrir framan sig núna, en hæstv. forsrh. virðist ekki vera sömu skoðunar ef marka má yfirlýsingar þeirra og ræður. Þetta eykur ekki á trúverðugleika núv. ríkisstjórnar og veitir henni ekki af að bæta álit sitt í því sambandi í þeim erfiðu viðfangsefnum sem hún stendur frammi fyrir. Ég vil ítreka það að hún stendur frammi fyrir vandasömum verkefnum og hún þarf á því að halda að hafa að baki sér traustan þingmeirihluta, sem mér sýnist að hún hafi ekki. Hún þarf að sjálfsögðu líka á því að halda að hafa gott samstarf við stjórnarandstöðu um þessi erfiðu úrlausnarmál því að þótt við séum miklir áhugamenn um það að ríkisstjórnin fari frá þá viljum við að á meðan hún er þá sé hún bærilega studd til góðra verka.
    Ég skal þá ekki hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, tími minn er liðinn og ég mun að sjálfsögðu virða það og vænti þess að þessi mál fái góða umfjöllun í nefnd og ég mun taka mið af þeirri vinnu sem þar fer fram.