Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 12:14:22 (279)


[12:14]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er ekki á móti því að matvæli --- ég get nú ekki kallað það sömu orðum og hv. þm. að þau verði greidd niður --- það er ekki það sem verið er að leggja hér til, það er verið að tala um að leggja til að það verði lækkaður virðisaukaskattur á mætvæli og ég er fylgjandi því og mun örugglega styðja hann í því. Ég get aftur á móti svarað því til að ég er ekkert ánægður með þessa tillögu sem hér er gerð um að úthluta Hagræðingarsjóðnum eins og þarna er gert. Ég vil láta gera þá hluti öðruvísi þó það hafi kannski verið skárra en það sem fyrir lá áður en tillagan kom.
    Það getur vel verið að hv. þm. finnist ég koma þannig fyrir að ég sé bara fúll yfir þessu öllu saman og finni ekkert jákvætt. Ég held að það sé nú ekki þannig. Hins vegar var ég að reyna að koma þeim hlutum til skila inn í umræðuna sem mér finnst vera mikilvægir. Það er það að þessi ríkisstjórn þarf að hugsa sinn gang. Hún á ekki að koma fram við fólkið í landinu með þeim hætti sem lýsir sér í því hvernig hún tekur einn af stærstu tekjuöflunarpóstum í landinu úr sambandi og breytir honum í annað. Tekur tekjur af fyrirtækjum og breytir í tekjur af einstaklingum. Þegar sú yfirlýsing lá fyrir á sínum tíma þá gat fólkið í landinu ekki skilið það öðruvísi en að það ætti að koma þessum álögum öðruvísi fyrir í framtíðinni heldur en gert var í fyrra. Það er það sem ég er að gagnrýna hér. Og ég held að ríkisstjórnin verði að fá þá gagnrýni. Hún hefði þurft að fá hana í fyrra því það átti auðvitað að standa frammi fyrir þessu máli þegar það var ákveðið að fella niður aðstöðugjaldið en ekki núna þegar búið er að fella niður aðstöðugjaldið og menn hafa enga leið til að semja um hlutina. Ég held að þannig eigi að standa að þessum málum að menn gangi hvert mál til enda en því sé ekki komið í einhvers konar bráðabirgðaástand sem verður til að umræðan fer ekki fram á réttum tíma.