Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 12:56:30 (289)


[12:56]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. forsrh. eindregið til þess að lesa þessar umræður yfir og ég efast ekkert um að þar mun hann finna það sem ég er hér að segja. Ég mótmælti því t.d. sjálfur að það væri staðið svona að málum. Ég taldi mjög óheppilegt að mynda svona bráðabirgðaástand, að breyta þessum stórkostlega skatti, sem raunverulega er á fimmta milljarð kr., í einhvers konar bráðabirgðaskatt og ganga ekki í málið til enda. Það var mjög hættulegt og nú eru menn að súpa seyðið af því að það er verið að gera þetta að nýjum álögum á fólkið í landinu. Það hefði átt að standa hreinskilnislega frammi fyrir fólki þegar það var ákveðið að leggja niður aðstöðugjaldið og segja því þá í hvers konar formi ætti að innheimta tekjur á móti því.