Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:06:09 (297)


[14:06]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg óþarfi og ekkert tilefni til útúrsnúninga af því tagi sem hæstv. forsrh. var með hér, þ.e. að ég hafi talað fyrir því að það hefði átt að fella niður aðstöðugjald af sumum fyrirtækjum en öðrum ekki. Ég var hins vegar ósköp einfaldlega að benda á það að þegar hvort tveggja er gert samtímis, að aðstöðugjald er fellt niður af öllum fyrirtækjum, jafnt skuldugum sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru í erfiðleikum sem hinum sem eru að græða og afkomutengdi skatturinn er lækkaður, þá er það auðvitað sérstaklega í þágu þeirra fyrirtækja sem áður greiddu einhvern tekjuskatt og það er það sem ég hef fyrst og fremst efasemdir um. Auðvitað þarf að ríkja jafnræði í skattlagningunni og ekki kæmi til greina að vera með t.d. eitthvert sértækt aðstöðugjald þó að við skulum nú minnast þess að það hafi verið hér bullandi sértækir skattar af því tagi. Eða hvað var mismunandi tryggingagjald? Hvað var skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði en ekki annað húsnæði o.s.frv. til atvinnurekstrar? Við skulum því ekki tala eins og heilagir menn hér. Á hinn bóginn er það auðvitað svo að með tekjutengdu eða afkomutengdu sköttunum fyrst og fremst jafna menn út skattbyrðina með tilliti til afkomu og það er það ótrúlega sem er að gerast hér. Ég tel auðvitað að þessi tekjuskattsprósenta á fyrirtækin --- að taka ekki nema 33% af endanlegum hagnaði þeirra að undangengnum fullum afskriftum og að undangenginni nýtingu á öllum frádráttarmöguleikum, á sama tíma og hver króna sem launamenn vinna er inn er skattlögð upp á 45% þegar komið er upp úr persónufrádrætti, og reyndar miklu meira ef jaðarskattprósentan að teknu tilliti til tekjutengingar bóta o.s.frv. er höfð í huga --- sé komin úr öllu samræmi. Með þessu er líka verið að drepa niður t.d. þá sjálfstæðu einstaklinga í atvinnurekstri sem hafa kosið að gera upp sín fyrirtæki sem einkaaðilar, samanber Þorvald Guðmundsson skattakóng. Skattprósentan er núna orðin þannig að hann hlýtur að þurfa að stofna hlutafélag ef hann vill ekki vera að gefa ríkinu eða borga ríkinu tugi milljóna. (Forseti hringir.)
    Svo vil ég segja, hæstv. forseti, ef ég má um bráðabirgðalagasetninguna og hlutverk dómstóla í því sambandi, ( Forseti: Tíminn er búinn.) --- ég veit það og er að ljúka máli mínu, forseti --- gæti hugsast að málaferli sem standa yfir fyrir dómstólum landsins um bráðabirgðalagasetningu hæstv. ríkisstjórnar valdi einhverju um hógværð hæstv. forsrh. í þessum orðaskiptum?