Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 15:07:35 (313)


[15:07]
    Ingi Björn Albertsson :
    Virðulegur forseti. Ég átti von á því að hér væri að hefjast kapphlaup þingmanna upp í ræðupúltið til þess að afsala sér biðlaunum að lokinni þingmennsku. Það hefur þegar gerst í einu tilfelli og áskorun komin til annars og ég bíð auðvitað eftir því að hann komi hér upp og svari þeirri áskorun. En af því að hv. 1. flm. óskaði eftir því að allshn. flýtti málinu sem mest mætti vera, þá mun ég sem nefndarmaður í þeirri nefnd gera mitt ýtrasta til þess, en ég tel hins vegar að það verði auðvitað að nota það lag sem hér hefur skapast til að kíkja á þingfararkaup almennt, hvernig sú staða er. Ég get auðvitað tekið fullkomlega undir málflutning bæði hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar vegna þess að þau fóru þar með alveg hárrétt mál þar sem þau voru að fjalla um launakjör þingmanna og hversu bág þau eru í raun og veru. Þetta er auðvitað ekkert nýtt mál hér á meðal okkar þingmanna, hefur verið rætt sennilega mála mest á kaffistofunni, en verið miklu meira feimnismál þegar komið hefur verið hér upp í ræðupúltið eða bara út fyrir dyr Alþingis.
    Auðvitað eru laun þingmanna allt of lág. Þau eru ágætislaun sem laun fyrir hefðbundinn vinnutíma, en það vita allir menn að starfstími þingmannsins er miklu, miklu meiri en það. Hér störfum við oft langt fram á nætur og jafnvel fram í morgunsárið og erum svo komin á nefndarfund strax kl. 8 síðar þann dag. Það er því alveg ljóst að með tilliti til þess og með tilliti til vinnutíma eru laun þingmannsins afar lág að ekki sé minnst á laun ráðherranna, en það hangir auðvitað allt saman. Ég tel því nauðsynlegt að nota það lag sem hér er skapað til þess að skoða þennan þátt mála líka.
    Það má líka skoða þann þátt hversu langur biðlaunatíminn á að vera. Hafi menn verið þingmenn í níu ár, þá er biðlaunatíminn aðeins þrír mánuðir og menn þekkja það nú af mörgum, mörgum dæmum að þingmenn labba ekki beint inn í störf eftir níu ára þingsetu. Við þekkjum það að menn hafa þurft að bíða svo mánuðum skiptir --- nema þeir séu það heppnir að vera inn undir hjá þessari svokölluðu flokksforustu. Þá er hugsa um sína, en aðrir mega éta það sem úti frýs. Það má því vel kíkja á það hvort þriggja mánaða biðlaunatími sé nægilegur, hvort hann eigi ekki yfir höfuð að vera sex mánuðir, en auðvitað falli biðlaunin svo niður þegar viðkomandi fær starf, ef hann fær það innan þessara mánaða. Ég tel nauðsynlegt að launakjör þingmanna verði skoðuð um leið og þetta er gert.
    Það sló mig svolítið þegar ég heyrði hv. þm. Tómas Inga Olrich, flokksbróður minn, segja það hér að þingmenn þyrftu ekki á öðrum störfum að halda. Ég mundi gjarnan vilja fá útlistun á því hvernig bara ég persónulega með átta manna fjölskyldu á að lifa á brúttólaunum upp á 170 þús. kr. á mánuði. Ég hef ekki séð fram úr því. Venjuleg íslensk fjölskylda ræður ekki við að lifa á þeim launum. Hún ræður ekki við það þannig að það er náttúrlega algjör firra að þingmannsstarfið eitt og sér dugi fyrir venjulegan fjölskyldumann og eina fyrirvinnu, algjörlega út í hött. Við erum ekki að miða okkur við einstaklinga úti í þjóðfélaginu sem starfa hjá einkafyrirtækjum. Við erum að miða okkur við embættismenn. Þeir eru með svimandi hærri laun heldur en nokkurn tíma þingmaðurinn. Við erum líka að miða okkur hvert við annað því að það er launamisrétti hér eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom inn á. Þetta á auðvitað allt að taka og skoða núna. Það er verið að bjóða upp á það tækifæri með þessu máli og með öðrum málum sem aðrir þingmenn flytja um sama efni og auðvitað eigum við þá að fara í allsherjarendurskoðun á málinu, en við skulum engu að síður reyna að flýta henni eins og við getum.
    Hæstv. forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til þess að lýsa stuðningi við málið, en jafnframt að lýsa því yfir að ég vil að það verði litið á málið í heild sinni.
    Aðeins í lokin af því að það var minnst hér á fjölmiðla, að ég hygg af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, þá væri athyglisvert að benda þeim fjölmiðlamönnum á sem hugsanlega taka þetta mál upp og reyna að búa til eitthvað úr því í sjónvarpsfréttum í kvöld að geta þess um leið og þeir fara með frétt sína hvað þeir hafi nú sjálfir í laun þegar þeir ætla að gagnrýna laun okkar, vegna þess að ég er nokkuð klár á því

að þeir hafa miklu hærri laun en við.