Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 15:59:42 (326)


[15:59]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Nú ætlar hæstv. dómsmrh. að etja saman í hinni svokölluðu frjálsu samkeppni virtustu menntastofnun þjóðarinnar og stórum félagasamtökum áhugafólks um björgunarstörf. Og til þess dugar ekkert minna en að koma á fót 350 spilakössum eða spilavítum um allt land. Frá árinu 1972 hafa björgunarsveitir fjármagnað sína starfsemi í almannaþágu með rekstri spilakassa og þannig staðið straum af margháttuðu björgunarstarfi. Nú skal öðrum hleypt inn á þann markað og um leið er reynt að æsa upp spilafíkn í enn meira mæli með þjóðinni, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
    Nú skal það tekið fram að sú sem hér stendur er ekki par hrifin af rekstri spilakassa og vildi helst sjá þá alla aflagða. Ég er viss um að þeir æsa upp spilafíkn í börnum og unglingum og það hefur alvarlegar afleiðingar seinna meir. Ég hef reyndar horft upp á það sjálf. Ég tel þó að hægt sé að réttlæta rekstur þeirra sem fyrir eru að nokkru með því að afrakstur þeirra þjóni góðu málefni í þágu almennings. Í þeim kössum sem eru á markaðnum er ekki spilað um stórar fjárhæðir. Það er alveg augljóst að fari Happdrætti Háskólans með slík spilavíti, sem við erum hér að ræða um, inn á markað, þá dettur sala í öðrum spilakössum niður. Landinn hefur nú alltaf verið nýjungagjarn eins og við vitum. Þess vegna hafa forustumenn Rauða kross Íslands, Slysavarnafélagsins, Landsbjargar og SÁÁ ákveðið að segja upp gildandi samningi við Almannavarnir ríkisins um björgunarstörf og neyðaraðstoð á hættutímum. Samtökin telja að með því að veita Happdrætti Háskólans leyfi til að reka spilavíti á Íslandi þá ógildi ráðherra forsendur umræddra samninga og segi þeim í rauninni upp.
    Síðan er spurning sem hefur verið velt upp í þessum umræðum um lagagildi þessarar leyfisveitingar hjá hæstv. dómsmrh. Samkvæmt álitsgerð Tryggva Gunnarssonar sem unnin var fyrir þessi fern félagasamtök þá er hæpinn lagagrundvöllur fyrir þeim leyfum sem hingað til hafa verið gefin Rauða krossinum og öðrum félagasamtökum. Hann telur að það þyrfti að styrkja þann rétt með lögum en það er líka spurning hvort háskólinn hefur rétt til þess samkvæmt lögum um Happdrætti Háskólans að setja slíkt happdrætti af stað. Það er hægt að vitna hér í niðurstöður Tryggva sem hann sendi þessum fernum félagasamtökum en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ekki verður talið að lög nr. 13/1973, um einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands til reksturs happdrættis og bann laganna við stofnun annars peningahappdrættis, taki til starfrækslu þeirrar söfnunar eða spilakassa sem dóms- og kirkjumrn. hefur heimilað félagasamtökum að reka enda þótt kassarnir teldust almennt falla undir hugtakið happdrætti í merkingu laga. Ákvæði laga nr. 13/1973 eru ekki talin leiða til þess að Happdrætti Háskólans geti á grundvelli þeirra laga gert kröfu um að það fái að reka söfnunar- eða spilakassa af því tagi sem félagasamtökin hafa leyfi til að reka eða fái einkaleyfi til þeirrar starfsemi.``
    Þetta er ein af þeim niðurstöðum sem hæstaréttarlögmaðurinn kemst að við að skoða þessa lagabálka og þessar leyfisveitingar.
    Það má líka minna á að þegar einstaklingar hafa starfrækt slíka spilakassa þá er það talið fjárhættuspil sem stangist á við almenn hegningarlög. Af lestri þessara leyfisveitinga er ljóst að leyfin hafa verið byggð á því að með starfsemi söfnunar- eða spilakassa væru samtökin að afla fjár til starfsemi sinnar, en þau sinna, eins og hér hefur komið fram, öll starfsemi á sviði mannúðar-, bjögunar- eða velferðarmála. Ég tel því að hæstv. ráðherra ætti að endurskoða þessa afstöðu sína. Það er alveg rétt að háskólinn þarf á framlögum að halda en það væri réttara að hið íslenska ríki tæki það á sínar herðar að sjá um að rekstur háskólans geti gengið rétt eins og annarra háskóla í landinu.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem beint hefur verið til hans og vona svo sannarlega að hann sé ekki búinn að gefa þá reglugerð út sem hér hefur verið talað um og hægt sé enn á ný að koma á samningaumleitunum milli þessara aðila sem leiði til þess að þeir finni farsæla lausn.