Umfjöllun um skýrslu frá Ríkisendurskoðun í menntamálanefnd

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 13:41:01 (361)


[13:41]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. 26. gr. þingskapa hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar. Um slík mál getur nefnd gefið þinginu skýrslu, sbr. 31. gr.``
    Það er heimilt að taka upp mál sem nefnd kýs að kanna og það var verið að gera í þessu tilviki. Ég mótmæli því að þetta mál sé að fullu upplýst, það eru margir þættir óupplýstir sem snerta þetta mál og það getur ekki verið annað en eðlilegt að við spyrjum í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar: Hvernig hefur henni verið fylgt eftir? Hvað hefur menntmrn. gert? Hvað hafa ríkisstofnanir gert til þess að fylgja eftir þeirri gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar? Vegna þess að skýrslan snýst ekki um einn einstakling heldur snýst hún um ýmislegt sem varðar stjórnsýslu í landinu og okkur ber skylda til þess sem löggjafa og sem eftirlitsaðila að framkvæmdarvaldinu að fylgja því eftir. Því mótmæli ég því að þessu máli sé á nokkurn hátt lokið. Ef meiri hluti nefndar neitar að taka mál upp þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að taka það hingað inn í þingsali.