Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:59:22 (390)


[15:59]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara mjög mikið í efnisatriði þessa lánsfjárlagafrv. sem hér er

verið að ræða þó að fullkomin ástæða væri auðvitað til. En það sem ég vildi helst koma á framfæri hér er að mér finnst að frv. um lánsfjárlög eigi fyrst og fremst að tengjast umræðu um fjárlög og þar af leiðandi að ræðast og afgreiðast í meira mæli en gert er í fjárln. Hallinn á fjárlögum kemur fram í þessu frv. og það er því eðlilegt að fjárln., jafnhliða því að fjalla um fjárlögin, taki lánsfjárlögin fyrir.
    Ég tel það alveg nauðsynlegt til þess að hafa heildarsýn yfir ramma fjárlaganna að lánsfjárlögin séu rædd jafnhliða fjárlagafrv. í fjárln. Ég hef komið þessum sjónarmiðum á framfæri inn í fjárln. og því hefur verið svarað til að það mundi gera það að verkum að fjárln. hefði þá enn meira að gera og margir telja að hún hafi nægilegt á sinni könnu þann tíma sem hún fjallar um fjárlögin fyrri hluta vetrar. Ég hef jafnframt lýst þeirri skoðun að samhliða því að fjárln. hafi með lánsfjárlögin að gera í meira mæli og vísi því ekki svo til beint yfir til efh.- og viðskn., þá skuli hún jafnframt vísa ýmsum öðrum málaflokkum innan fjárlagafrv. til fagnefnda sem hafi þá meira vægi við að fjalla um þau mál en í dag er gert.
    Eins og þetta snýr við okkur núna, þá hafa lánsfjárlögin aðeins viðkomu í fjárln. en það er ekki fjallað mjög mikið um þau þar heldur er þeim vísað þaðan til efh.- og viðskn. Það má einnig sjá það á því að í dag hafa aðallega fjallað um þetta frv. nefndarmenn í efh.- og viðskn.
    Ég tel að vinnubrögð þau sem fjárln. hefur haft til þessa við að fjalla um fjárlagafrv. séu ekki nógu markviss. Við förum að vísu vandlega yfir gjaldahliðina. Á okkar fund koma fulltrúar ráðuneyta, sveitarfélaga, stofnana, félagasamtaka og einnig einstaklingar til að skýra sitt sjónarmið. Eftir þær viðræður og með fundum áfram þar sem fjallað er um frv. þá er reynt að meta þörfina á útgjöldum en teknahliðin er venjulega geymd til 3. umr. og þá er oft ekki nægur tími til að fara vel í forsendur tekjuöflunar. Og það má minna á það að þegar verið var að ljúka umræðu um fjárlög fyrir yfirstandandi ár þá gerðu fjárlögin ráð fyrir því að lækka hlutfall af endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu við íbúðarhúsnæði. Það kom síðan í ljós að hefði það náð fram að ganga hefði það haft hinar ýmsu afleiðingar á forsendur fjárlaganna og verðbólgustigið í þjóðfélaginu þannig að sú ákvörðun var degin til baka fljótlega eftir áramótin. Það sem ég er að segja með þessu er að ég tel að lánsfjárlögin tengist svo mjög tekjuöflun ríkisins og ég tel að það hafi ekki tekist nægilega vel að fylgja eftir þeim breytingum sem gerðar voru á þingsköpum Alþingis, að framkvæma ýmsar breytingar á nefndastarfinu, og það m.a. tel ég að fjárln. eigi að fjalla í meira mæli um lánsfjárlögin en ekki að vísa þeim svo að segja beint til efh.- og viðskn.