Lánsfjárlög 1994

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 16:28:37 (397)


[16:28]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að viðurkenna það að ég hafi verið fundvís á það sem hafi farið mest aflaga í stefnu Sjálfstfl. Ég tel að þetta sé mikilvæg játning að hérna hafi verið rangt farið að. Ég vil fullvissa hæstv. fjmrh. um það að Framsfl. samþykkti ekki annað eins fyrir síðustu kosningar og þetta. Hann sagði hins vegar að það væri ekki hægt að lækka skattana og það gæti verið, sagði formaður flokksins einhvern tímann, að það þyrfti jafnvel einhvers staðar að hækka gjöld. Hæstv. fjmrh. hefur verið í því. Hann hefur væntanlega ekki verið að framfylgja stefnu Framsfl. í sinni ríkisstjórnartíð. Ég vænti þess að hann hafi það gott samband við landsfund Sjálfstfl. að hann sé ekki að framfylgja stefnu Framsfl. Hitt er svo annað mál að við viljum ekki hækka skatta, ég get fullvissað fjmrh. um það. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi fremur að lækka ríkisútgjöldin. Og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. breyti um stefnu og sé ekki að bera fyrir sig þennan krók sem hann veit að er ekki réttur.