Lánsfjárlög 1993

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 17:12:12 (417)


[17:12]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Í lok þessarar umræðu vil ég segja vegna orða síðasta hv. ræðumanns að nú liggur fyrir það plagg sem ég var að vitna til, þ.e. þessi vaxtaskýrsla sem einmitt var verið að gefa út þann dag sem 1. umr. fjárlaga fór fram og ég var að vitna til. Ég tel satt að segja að ríkissjóður sem slíkur hafi gert ákaflega margt til þess að lækka vexti og það sýnir sig t.d. á því að vextir á ríkisverðbréfum hafa farið lækkandi að undanförnu og hafa jafnvel nafnvextir lækkað þrátt fyrir það að verðbólgan hafi aukist. Ég viðurkenni það hins vegar eins og við höfum gert hér, flestir þeir sem hafa tekið þátt í umræðunum í dag og frá því að þing kom saman, og reyndar miklu fyrr, að okkur hefur enn ekki tekist að hafa þau áhrif í bankakerfinu sem við helst vildum sjá.
    Í þessari skýrslu liggja fyrir ýmsar hugmyndir og tillögur og fyrir örfáum dögum byrjaði Seðlabankinn á því að lækka millibankavexti til þess einmitt að reyna að ná niður vöxtum. Ég tel að viðskrh. muni á næstunni fylgja eftir þeim tillögum sem er að finna í þessari grænu bók, Vaxtamyndun á lánsfjármarkaði.
    Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. að það er full ástæða til að gefa gaum þeirri framleiðslustarfsemi sem fer fram hér á landi og er gjaldeyrissparandi eins og margoft hefur komið fram, og þá á ég ekki síst við landbúnaðinn sem auðvitað verður ekki lagður niður í bráð á Íslandi. Ég held að ekki nokkrum einasta manni detti það í hug. En ég vil minna á að með því að taka niður viðskiptahallann, með því að skrá gengið rétt, með því að raungengið núna er lægra en það hefur verið frá því að mælingar hófust, þá erum við að styrkja þessar heimagreinar og við erum að styrkja þær ekki síst vegna þess að við eigum von á því innan tíðar að gengið verði frá GATT-samkomulaginu, Uruguay-lotunni. Þegar við skrifum undir þann samning, þá alþjóðlegu skuldbindingu, getum við ekki lengur lokað íslenskum landamærum fyrir erlendum landbúnaðarafurðum, heldur þurfum við að beita öðrum tækjum. Og þeim tækjum munum við að sjálfsögðu beita með þeim hætti sem landbrh. hefur lýst að undanförnu í sínum ræðum og ég veit að hv. þm. þekkir það.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram. Og vegna ferðaþjónustunnar, þá hygg ég að gengisfellingin og hin breytta staða í kjölfar hennar hafi styrkt verulega ferðaþjónustuna hér á landi og ekki síst stærri fyrirtækin, bæði þau sem eru í beinni ferðaþjónustu og eins í flutningum á vörum. Ég á von á því sem betur fer að það verði hagstæðara árferði fyrir þessi fyrirtæki fyrir vikið. Við erum að ræða það um þessar mundir í fjmrn. og væntanlega á milli samgrn. og fjmrn. hvernig bregðast skuli við vegna sérstakra vandamála sem koma upp við virðisaukaskattinn sem fellur á þann hluta ferðaþjónustunnar sem hingað til hefur verið virðisaukaskattsfrjáls. Vonandi fáum við þar niðurstöðu sem verður á þá leið að ferðaþjónustan geti vel við unað.