Meðferð opinberra mála

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 15:21:28 (478)


[15:21]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál og endurtaka það sem ég sagði í framsöguræðu minni að tilgangurinn með málinu er auðvitað fyrst og fremst sá að koma þessum hlutum af stað hér í þessari virðulegu stofnun. Talandi af nokkurri reynslu þá tekur yfirleitt þó nokkurn tíma að vinna málum af þessu tagi stuðning. Þó verð ég að segja að mér finnst hafa komið fram mjög áberandi skilningur á forsendum málsins hér í ræðum manna þó svo einstakir þingmenn hafi kannski ekki verið alveg sáttir við þá aðferð sem hér er um að ræða, enda finnst mér það ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það að við séum sammála um að núverandi skipan þurfi skoðunar við og það heyrist mér að við séum.
    Það koma auðvitað ýmsar leiðir til greina varðandi takmörkun á skipunartíma ríkissaksóknara. Ein leiðin er sú sem hér er lögð til þ.e. tvisvar sinnum fjögur ár. Hv. þm. Björn Bjarnason segir að með því móti geti saksóknarinn orðið nokkuð háður veitingavaldinu og það er út af fyrir sig röksemd. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur þessi sjónarmið uppi líka sem ég tel fulla ástæðu til að hlusta á. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson bendir þá á hvort það mætti hugsa sér að þetta væri skipun til tiltekins alllangs tíma, kannski tíu ára eða hvað það nú er, og að það yrðu sett aldursmörk. Síðan hefur verið nefndur sá möguleiki að Alþingi staðfesti skipan ríkissaksóknara með einhverjum hætti. Svo er líka til sá möguleiki líka að þjóðin kjósi ríkissaksóknara eins og hér var nefnt af hv. 2. þm. Vestf. Hv. 18. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, spurði: Er það víst að þessi átta ára viðmiðun sé endilega rétt viðmiðun? Mitt svar er nei. Það er ekkert víst að það sé endilega rétt viðmiðun. Ég held að aðalatriðið sé að við skoðum þetta af víðsýni og sanngirni og gerum okkur grein fyrir að það verður að taka á málinu því núverandi skipan dugir ekki. Það var í raun og veru viðurkennt af löggjafanum þegar lögin voru sett að hér væru menn kannski að stíga þrjá fjórðu skrefs en ekki allt skrefið.
    Mér finnst mjög mikilvægt að það hefur komið fram skilningur á forsendum málsins hér í umræðunni hjá tveimur hv. nefndarmönnum í allshn., bæði hv. 2. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Reykv. Ég tel að sú allshn. sem nú situr hafi að mörgu leyti sýnt að hún er umbótasinnuð að því er varðar þessi dóms- og réttarfarsmál og framkvæmd réttarríkisins yfirleitt, þá sé allshn. yfirleitt heldur umbótasinnuð og opin fyrir nýjum hugmyndum og tillögum. Ég tel að það hafi auðvitað komið langbest í ljós þegar nefndin stóð að því að hafa forustu um að leggja fyrir þingið tillögu um afgreiðslu á stjórnsýslulögunum sem ég tel reyndar að sé eitthvert allra stærsta framfaraspor sem stigið hefur verið hér í þessari virðulegu stofnun um langt árabil að því er varðar það að reyna að skapa sátt um það að við búum hér saman í heiðarlegu réttarríki þar sem fólk geti treyst því að það sé meðhöndlað með heiðarlegum hætti, heiðarlegum og drengilegum hætti. Og í raun og veru sé ekki verið að fara fram á neitt annað en það að við eigum hér heiðarlegt og drengilegt stjórnkerfi.
    Það er hins vegar rétt að taka það fram vegna orða sem hér hafa fallið að ég tel að það sé engin endanleg trygging til í þessu máli. Ævinlega geti farið svo að eitthvað mistakist, annað hvort skipan manns eða um embættisverk hans, vegna þess að það er aldrei til nein endanleg trygging í málum af þessum toga. Og ég held að við eigum að umgangast mál af þessu tagi þannig að við munum leitast við af fremsta megni, sem er orðalag sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson kannast við, að reyna að ná þeim markmiðum heiðarlegs og drengilegs stjórnkerfis sem við erum hér að tala um. En við vitum að það er ekki endilega víst að við komumst á leiðarenda þó við setjum okkur það að leitast við af fremsta megni.
    Ég hef farið fram á það við hæstv. forseta, þar sem hæstv. dómsmrh. er í burtu, að frv. um Hæstarétt fái að koma hér seinna til umræðu þannig að hægt sé að eiga orðastað við hæstv. dómsmrh. um það mál og þá þetta kannski að einhverju leyti í leiðinni. Því eins og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson benti á þá eru þessi mál nauðaskyld í rauninni, þetta eru almennar tillögur um
breytingar og lagfæringar á stjórnkerfinu.
    Ég þakka sem sagt hv. þm. fyrir ágætar undirtektir við málið og vænti þess að það sé til marks um að því verði vel tekið í hv. allshn. þar sem það komist til meðferðar.