Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:25:45 (495)


[11:25]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman að heyra í hv. þm. Alþb. þegar þeir minnast á markaðshyggju og markaðslögmál. Þá kemur í ljós að þeir eru í fyrsta lagi haldnir miklum kvíða og í öðru lagi að þeir skilja ekki hvað í málinu felst. Þannig fór hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hér í dálítið skemmtilegan rökfræðilegan hring sem sýnir að hann skilur ekkert út á hvað markaðshyggjan gengur og hvernig menn reyna að beita markaðslögmálum t.d. í umhverfisvernd. Hann sagði að það væri, hafi ég skilið hann rétt, alls ekki gott fyrir fyrirtæki bæði að þurfa að greiða umhverfisgjald og síðan líka að leggja út í fjárfestingar til að draga úr menguninni. En þetta vegur auðvitað hvort annað upp. Um leið og fyrirtæki mundi leggja útí fjárfestingar til að draga úr mengun þá mundi það líka í framhaldi af því þurfa að greiða minna umhverfisgjald. Í þessu er fólginn hinn hagræni hvati í svona gjöldum.
    Ég vildi síðan segja það, virðulegur forseti, út af orðum hv. þm. Steingríms Hermannsonar þar sem hann réttilega talaði um þá hættu sem stafar af eyðingu ósonlagsins. Að því er það varðar hafa Íslendingar verið í fararbroddi og sennilega staðið fremstir þjóða í baráttunni gegn losun ósoneyðandi efna. Við höfum t.d. nú þegar bannað notkun nema endurnýtingu þeirra efnategunda sem eru skaðlegust ósonlaginu.
    Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að velta því fyrir sér hvort tímabært sé að setja upp umhverfisgjald og ég er sannfærður um að til framtíðar verður það gert í ríkari mæli heldur en nú er. Einstök lönd hafa tekið þetta upp. En við verðum líka að hugsa þetta út frá fyrirtækjunum og samkeppnishæfni þeirra. Ef við ætlum að fara að gera þetta t.d. bara hér á Íslandi þá dregur það úr samkeppnishæfni ýmissa fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Punkturinn í þessu og niðurstaðan er sú að við verðum að gera þetta samstiga öðrum þjóðum.
    Hv. 4. þm. Austurl. fór hér nokkrum orðum m.a. um bræðslur og mengun af þeirra völdum og það er hárrétt að draga það fram að það er sérstaða íslensks efnahagslífs sem gerir það að verkum að við erum að losa miklu meira af ýmsum mengandi lofttegundum en aðrar þjóðir. En þessi ríkisstjórn og reyndar fyrri ríkisstjórnir hafa beint kröftum sínum í þá átt að reyna að t.d. fá bræðslur til að nota rafmagn í staðinn fyrir olíu. Það hafa komið fram tillögur í þá veru frá fyrrv. iðnrh. Svona almennt um þetta vil ég segja að það er þörf á að ræða þessi mál og reyna að skilgreina betur hvað menn eru að fara. ( ÓÞÞ: Hefur ekki verið fleiri en einn á undan þessum?) Einn sem mestu máli skiptir, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. ( Gripið fram í: Það er rétt.) ( Forseti: Ekki frammíköll.) Hingað til, virðulegur forseti, þá hafa hefðbundin viðhorf ríkisins verið þau að setja lög og reglur um þau viðmið sem allir verða að fylgja. Kosturinn við þessa boða- og bannaaðferð er sá að markmiðin eru alveg skýr og þeim á að vera hægt að ná án undantekninga. Þannig að þessi aðferð getur t.d. verið mjög heppileg þegar um hættuleg spilliefni er að ræða eða um almenn heilbrigðissjónarmið eins og t.d. vegna drykkjarvatns en ókostirnir eru hins vegar ýmsir. Annars vegar er ókosturinn sá að það er mikill kostnaður vegna upplýsingaöflunar og eftirlits og hins vegar ósveigjanleiki kerfisins. Ef sömu viðmiðanir eru t.d. settar fyrir öll fyrirtæki er ekki tekið tillit til mismunandi kostnaðar þeirra við að draga úr mengun. Það eru þessir annmarkar boða- og bannakerfisins sem hafa orðið til þess að vestræn ríki hafa í vaxandi mæli litið til nýrra leiða til að aðlaga sitt efnahagslíf að markmiðum umhverfisverndar í dag.
    Kostnaður við umhverfisvernd fer alls staðar vaxandi. Innan OECD-landanna þá er t.d. talið að hann sé um 1,5--2% af þjóðarframleiðslu og sum ríki eins og t.d. Holland gera ráð fyrir að innan skamms muni þetta fara upp í 3--4%. Það er þess vegna mjög mikilvægt að menn finni hagkvæmustu leiðirnar til að draga úr menguninni. Það er þess vegna sem þessi umræða um umhverfisgjöld kemur inn. Núna eru menn víða erlendis farnir að tala um að bylta skattkerfinu. Byggja raunverulega skattkerfið út frá umhverfissjónarmiðum, út frá notkun mengandi efna. Ég er sannfærður um það þegar líður fram undir lok næstu aldar þá verða skattkerfi á Vesturlöndum í miklu ríkari mæli miðuð við þetta.