Umhverfisgjald

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 11:50:40 (500)


[11:50]

    Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Þegar umræðan fór yfir í heilsukortin taldi ég nú ekki seinna vænna að ganga úr skugga um það hvort mér hefði skjátlast með það hvaða mál væri á dagskrá. Svo reyndist nú ekki vera heldur munu vera hér á milli lína, ætlað stjórnarsinnum, einhvers staðar upplýsingar um að undir þessum lið sé ætlunin að ræða líka heilsukortin.
    Nú er það svo að það er mjög afstætt hvað er skattur og hvað er gjald. Hér í Reykjavík hefur það lengi viðgengist að gjaldheimtan hefur verið látin innheimta skatta en ætti bara náttúrlega að innheimta gjöld. Sýnir það best hvað þetta getur verið misvísandi. Ég þekki þó nokkuð af fólki sem ég er sannfærður um að breytir ekki háttum sínum, það hefur labbað að staðaldri, það mun aldrei borga neina skatta til umhverfismála vegna síns útblásturs. Það liggur alveg ljóst fyrir. Alveg sama hvaða kerfi menn hafa í þessum efnum. Eins er það svo að sumir eru svo blessunarlega heilsuhraustir að þeir fara ekkert á spítala. Þeir borga vissulega skatta og gjöld en þeir þyrftu ekki að kaupa sér nein heilsukort sérstaklega. Þeir slyppu, það liggur alveg ljóst fyrir. Fyrir aðra væri þetta aftur á móti alveg örugg nauð að gera þetta nema auðvitað er frjálst val að kveðja strax, það vita menn. En burt séð frá þessu þá er það undarlegt að einn af þingmönnum Sjálfstfl. hefur komist að þeirri sérstæðu niðurstöðu að hann sé stuðningsmaður heilsukorta ef þau eru gjald en andstæður ef þau eru skattar. Það skiptir sem sagt engu máli hver upphæðin er, engu máli til hvers þetta er ætlað, bara að þetta sé ekki kallaðir skattar. Þetta minnir mig nú á það að það gerist stundum við ofnotkun á einstökum lyfjum að menn verða ónæmir fyrir þeim og stundum bara þola þau alls ekki. Hér hefur það gerst að þessi hv. þm. er kominn með slíkt ofnæmi fyrir sköttum að það fer bara um hann hrollur, hann sefur ekki, hann liggur andvaka og hugsar málið ef það er minnst á skatta. Þetta er náttúrlega ákaflega alvarlegt mál ef þessi sótt skyldi breiðast út. En burt séð frá því þá vona ég að með rólegri íhugun núna næstu nætur ef hann sefur lítið þá komist hann að niðurstöðu um það hvað séu skattar og hvað séu gjöld og beiti sér svo fyrir því að nafni Gjaldheimtunnar verði breytt til samræmis við hlutverkið.