Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 13:34:52 (513)

[13:34]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði sem undirritaður var 2. maí 1992 er nauðsynlegt að breyta ýmsum lögum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála. Á síðasta þingi var lagt fram frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Frv. náði ekki fram að ganga og er því endurflutt.
    Frv. er í nokkuð breyttri mynd frá því að það var lagt fram síðast. Eftirtaldar breytingar hafa verið gerðar á frv.:
    1. Breytingar á lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954, og um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, munu lagðar fram í sérfrv. og því felldar burtu hér.
    2. Breytingar á lögum um Brunabótafélag Íslands, nr. 91/1955, hafa og verið felldar burtu þar sem lagafrv. um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands verður lagt fram á næstu vikum.
    3. Breytingar á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, hafa verið felldar burtu og munu fluttar síðar í sérstöku frv.
    4. Breytingar á lyfjalögum, nr. 108/1984, og lögum um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, hafa verið felldar í burtu þar sem frv. til lyfjalaga verður endurflutt á næstu vikum. Það frv. hefur að geyma nauðsynlega aðlögun vegna reglna EES-svæðisins.
    Frv. skiptist nú í fjóra kafla og hefur að geyma brtt. við fjórtán lög. Hér er um að ræða breytingar á átta lögum um heilbrigðisstéttir, fimm lögum á vátryggingarsviði og lögum um atvinnuleysistryggingar. Lögum um heilbrigðisstéttir þarf að breyta vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins, sbr. VII. viðauka hans um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Lögum um atvinnuleysistryggingar þarf að breyta vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins, sbr. VI. viðauka hans um félagslegt öryggi. Lögum á vátryggingarsviði þarf að breyta vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins, sbr. IX. viðauka hans um fjármálaþjónustu.
    Í frv. vantar breytingar á lögum um bátaábyrgðarfélög, lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og lögum um vátryggingarstarfsemi. Nauðsynlegar breytingar á þessum lögum vegna EES-samningsins verða bornar fram í sérstökum frumvörpum nú fljótlega. Ég hyggst á næstunni leggja fram sjö lagafrumvörp vegna ESS-samningsins til viðbótar við það frv. sem hér liggur frammi. Þessi frumvörp eru:
    1. Frv. til laga um breytingu á lögum um bátaábyrgðarfélög og lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
    2. Frv. til laga um vátryggingarstarfsemi.
    3. Frv. til laga um almannatryggingar, sem raunar er hér á dagskrá síðar í dag.
    4. Frv. til laga um félagslega aðstoð, sem einnig er á dagskrá síðar í dag.
    5. Frv. til laga um brunatryggingar, sem ég gerði hér grein fyrir áðan.
    6. Frv. til laga um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.
    7. Frv. til laga um val á vátryggingasamningalögum.
    Þrjú þessara frumvarpa eru endurflutt frá síðasta þingi, þ.e. frv. til laga um vátryggingarstarfsemi,

frv. til laga um almannatryggingar og frv. til laga um félagslega aðstoð.
    Efnislega mun frv. til laga um brunatryggingar vera að verulegu leyti samhljóða þeim breytingum sem var að finna í þessu lagafrv. er það var til meðferðar á síðasta þingi.
    Ég mun nú víkja nánar að einstökum atriðum þess frv. sem hér er til umræðu.
    Í I. kafla frv. er að finna breytingar á lögum um heilbrigðisstéttir, þ.e. læknalögum, lögum um hjúkrunarfræðinga, tannlækna, lyfjafræðinga, ljósmæður, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og sjóntækjafræðinga. Reglur Evrópubandalagsins sem staðfestu rétt og frjálsa för fólks kalla á þessar breytingar á íslenskri löggjöf. Hjá Evrópubandalaginu eru í gildi sérstakar tilskipanir um fimm heilbrigðisstéttir, lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður og lyfjafræðinga. Tilskipanirnar kveða á um skyldu aðildarríkja til að viðurkenna prófskírteini, vottorð og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem önnur aðildarríki veita ríkisborgurum aðildarríkja í samræmi við þessar tilskipanir. Þetta þýðir að starfsleyfi lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lyfjafræðinga í einu EB-ríki skulu gilda í öðru aðildarríki.
    Samkvæmt EES-samningnum skal þessum reglum EB beitt á EES-svæðnu. Af því leiðir að hér á landi þarf að breyta 1. gr. í lögum þessara fimm heilbrigðisstétta því þar segir að sá einn megi starfa hér á landi í viðkomandi starfsstétt sem til þess hefur leyfi heilbr.- og trmrh.
    Í frv. er því gerð breyting á 1. gr. allra þessara laga og skýrt tekið fram að innan viðkomandi heilbrigðisstéttar hér á landi geti starfað annars vegar þeir sem hafa til þess leyfi heilbr.- og trmrh. og hins vegar þeir sem hafa fengið staðfestingu heilbr.- og trmrh. á leyfi sínu í EES-ríki. Gert er ráð fyrir að með reglugerð verði nánari reglur settar um hvernig heilbr.- og trmrn. standi að þessari staðfestingu.
    Í læknalögum og lögum um tannlækningar er að finna ákvæði um sérfræðingsleyfi sem sömu reglur gilda um. Af þeim sökum þarf að breyta 5. gr. læknalaga og 5. gr. tannlæknalaga. Rétt er hins vegar að benda á að í læknisfræði eru viðurkenndar sérgreinar mun færri hjá EB en hér á landi. Réttur til staðfestingar á sérgrein nær eingöngu til sérgreina sem eru sambærilegar milli landanna.
    Þá er talið nauðsynlegt að skýrt komi fram í lögunum um þessar fimm heilbrigðisstéttir að ef ríkisborgari í EES-landi, sem hér starfar á grundvelli staðfestingar í öðru EES-landi, er sviptur leyfi sínu þar þá falli niður heimild hans til þess að starfa hér á landi. Sömuleiðis er talið nauðsynlegt að taka skýrt fram að ef EES-borgari sem hér starfar á grundvelli staðfestingar brýtur af sér í þeim mæli að það mundi varða hann leyfissviptingu, hefði hann leyfi heilbr.- og trmrh., þá geti ráðherra svipt hann staðfestingunni sem starf hans hér á landi grundvallast á.
    Í þrennum lögum um heilbrigðisstéttir, lögum um iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og lögum um sjóntækjafræðinga er það gert að skilyrði fyrir starfsleyfi hér á landi að viðkomandi sé íslenskur ríkisborgari. Þeir sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar geta fengið leyfi en með öðrum skilyrðum. Reglur EB krefjast þess að engum sé mismunað á grundvelli ríkisfangs. Því er nauðsynlegt að breyta þessum þrennum lögum og tryggja að umsóknir ríkisborgara í EES-landi um starfsleyfi í þessum heilbrigðisstéttum séu meðhöndlaðar með sama hætti og umsóknir Íslendinga.
    Löggilding allmargra heilbrigðisstétta byggist á reglugerðum. Rétt er að geta þess að flestum þessarar reglugerða mun þurfa að breyta þar sem EES-samningurinn mælir fyrir um að engum megi mismuna á grundvelli ríkisfangs.
    Í II. kafla frv. er fjallað um breytingar á lagaákvæðum á vátryggingarsviði. Þar er fimm lögum breytt vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga. Breytingarnar lúta að því að ryðja úr vegi einkarétti einstakra vátryggingarfélaga til að selja tilteknar tryggingar, skattalegum ívilnunum sem sum þessara félaga njóta umfram önnur félög og ákvæðum um staðfestingu ráðherra af vátryggingarlögum eða iðgjöldum svo að nokkuð sé nefnt.
    Nokkur þeirra laga sem hafa að geyma vátryggingarákvæði sem þarf að breyta vegna EES-samningsins heyra undir önnur ráðuneyti. Tveimur þeirra er breytt með þessu frv. í samráði við viðkomandi ráðuneyti. Um er að ræða umferðarlög sem heyra undir dómsmrh. og lög um búfjártryggingar sem heyra undir landbrh. Ekki er ástæða til að fjalla hér ítarlega um breytingar á lögum á vátryggingarsviði, heldur vísa ég til greinargerðarinnar með frv.
    Í III. kafla er fjallað um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar en á þeim lögum er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar vegna EES-samningsins. Lögin gera nú ráð fyrir að greiðsla atvinnuleysistryggingabóta sé bundin við dvöl hér á landi. Þessu þarf að breyta því að reglur EB sem verða reglur EES-svæðisins gera ráð fyrir að fari atvinnulaus einstaklingur í atvinnuleit innan svæðisins, beri landinu þar sem hann á rétt á atvinnuleysisbótum að greiða honum áfram bætur þann tíma sem honum er atvinnuleitin heimil eða þrjá mánuði. Sömuleiðis verður að heimila Atvinnuleysistryggingasjóði að hafa milligöngu um greiðslu atvinnuleysistryggingabóta þeim sem með þessum hætti komu hingað til lands í atvinnuleit því að reglur EB gera ráð fyrir að stofnun í dvalarlandinu annist greiðslu bótanna á kostnað þar til bærrar stofnunar í landinu sem viðkomandi kom frá.
    Virðulegi forseti. Ég hef rakið helstu breytingar sem gerðar eru í þessu frv. á löggjöf á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES-samningsins. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og til meðferðar heilbr.- og trn.