Félagsleg aðstoð

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 15:03:10 (534)


[15:03]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að það eru ekki miklar breytingar á frv. sjálfu fyrir utan það að verið er að sundurskilja þarna félagslega þjónustu og almannatryggingar til að koma í veg fyrir útflutningsbætur, ef svo má segja. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt en það er ein breyting í þessu frv., það er í 7. gr. Hún er að vísu ekki mjög veigamikil en samt sem áður er það í sambandi við ekkjulífeyri. Áður var það þannig að ekkjulífeyrir var greiddur alveg þar til konan gifti sig, nú er það nóg að ekkja fari í sambúð þá missir hún þennan lífeyri. Út af fyrir sig geri ég ekki neinar sérstakar athugasemdir út af því. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra fyrst á annað borð var verið að skoða þessa 7. gr.: Hefur aldrei komið til greina að maður sem missir konu sína fái bætur? Mér finnst þarna vera mikið ósamræmi á milli að eftir 50 ára aldur fær kona ekkjubætur hafi hún misst mann sinn en maður sem missir konu sína fær aftur á móti ekki ekkilsbætur.
    Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi ekkert verið skoðað fyrst á annað borð var verið að skoða þessa 7. gr.