Landkynning í Leifsstöð

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:27:25 (547)

[15:27]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í því ástandi í atvinnumálum sem við Íslendingar búum nú við er brýnt að efla allt framtak á sviði atvinnuuppbyggingar. Ferðaiðnaður hefur verið vaxtarbroddur í atvinnulífi okkar undanfarin ár. Ferðamálaráð hefur sett sér það markmið að fjölga störfum fram til aldamóta þannig að ferðaiðnaðurinn geti fjölgað störfum um 2.200 á þeim árum. Þetta telur Ferðamálaráð vera hægt án verulega aukins fjármagns nema í markaðssetningu. Nú eru auglýsingar stór hluti af markaðssetningu og tilvalið að ná til þeirra ferðamanna sem fara um Leifsstöð.
    Á ferðamálaráðstefnu í Stykkishólmi í fyrra var samþykkt svohljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðstefna Ferðamálaráðs Íslands, haldin í Stykkishólmi 30. okt. 1992, beinir því til utanríkisráðuneytisins að gert verði átak í að nýta möguleika Leifsstöðvar til landkynningar með því að þar verði komið upp myndum af landinu og/eða myndbandasýningum þannig að sá fjöldi ferðamanna sem fer um stöðina eigi þess kost að sjá meira af Íslandi en nú er.``
    Nú á þessu hausti var enn ítrekuð þessi samþykkt og hún send til samgrh. Nú veit ég að utanrrh. telur að hann hafi algjörlega yfir málefnum flugstöðvar að segja og hvað þar fer fram. Það er því spurning mín hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað gert í málinu eða hvað sé því til fyrirstöðu að verða við þessum óskum Ferðamálaráðs. Hef ég leyft mér að bera fram til hans svohljóðandi fyrirspurn á þskj. 82:
    ,,Er eitthvað í vegi fyrir því að hægt sé að kynna land og þjóð með veggmyndum eða myndbandasýningum í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli?``