Staða brotaþola í kynferðisbrotamálum

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:39:20 (552)


[15:39]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það frv. sem hv. fyrirspyrjandi víkur að í fsp. sinni tengist heildarendurskoðun reglna um áfrýjun héraðsdóma til Hæstaréttar og meðferð áfrýjunarmála almennt fyrir Hæstarétti. Í því frv. verður þess vegna ekki fjallað um þetta viðfangsefni sem hér er gert að umtalsefni.
    Það er vissulega svo að á síðasta þingi var þessu máli hreyft og ég fyrir mitt leyti tek undir það að mjög mikilvægt er að huga að nauðsynlegri endurskoðun á lögum vegna þessara mála og vegna nýrra viðhorfa sem uppi eru í þeim efnum. Ráðuneytið hefur nú í undirbúningi, í framhaldi af ályktunum Alþingis sl. vor, að skipa sérstaka nefnd til þess að kanna þessi mál og gera nauðsynlegar tillögur um breytingar á lögum að þessu leyti. Það hefur einnig komið til skoðunar hvort sama nefnd muni fjalla um viðfangsefni sem einnig hafa verið til meðferðar í ráðuneytinu og það er könnun á því hvort setja eigi nýjar reglur um nálgunarbann vegna ofsókna sem konur sæta í of ríkum mæli. Það er til athugunar hvort það má vera til hagræðis og til þess að flýta fyrir meðferð beggja málanna að sama nefndin fjalli um þessi viðfangsefni.
    Hvað lögfræðiaðstoðina varðar þá er einnig í undirbúningi endurskoðun á lögum um þau efni. Ég taldi hins vegar að það væri of svifaseint að bíða eftir slíkri heildarendurskoðun og ákvað þess vegna nú í haust að veita sérstakan styrk til lögfræðiaðstoðar þeirra sem verða fyrir nauðgun þannig að þegar hefur a.m.k. að hluta til verið komið til móts við þau sjónarmið. En það verður unnið mjög ákveðið og skipulega að endurskoðun þessara mála og nýjum tillögum og ég vænti þess að við getum séð þær eða kynnt þær hér á þinginu áður en þessu þingi lýkur.