Orsakir atvinnuleysis

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:37:55 (575)


[16:37]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svarið og vil taka undir lokaorð hans að það var ákaflega takmarkað og sýnir að það þarf að fylgja þessu máli betur eftir. Vonast ég til þess að hæstv. forsrh. geri það í samræmi við ályktun sem samþykkt var á síðasta búnaðarþingi og beint til hans að hann skoði þetta mál ítarlega. En ég held að það sýni þó að eins og staðan er hjá okkur í atvinnumálum, þá er hvert atvinnutækifæri sem leggst niður okkur mikilvægt og það er mikilvægt að standa vörð um íslenska atvinnuvegi og skerða ekki þá markaði sem framleiðsluvörur þeirra hafa. Og ég legg áherslu á það hér vegna þess að því miður eru þeir aðilar til hér á landi sem telja sig hafa hag af því. Skýrast dæmi um það er málið sem verið var að kveða upp dóm um í dag um innflutning á svínaskinku en sá dómur staðfestir að leyfi það sem hæstv. utanrrh. gaf í síðasta mánuði fyrir innflutningi á kalkúnum, var algert lögbrot. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvernig hann ætli að bregðast við þeirri niðurstöðu. Telur hæstv. forsrh. að ráðherra geti setið eins og ekkert hafi í skorist þó að öllum sé ljóst að um lögbrot var að ræða eftir að þessi dómur er kveðinn upp? Hvernig ætlar hæstv. forsrh. öðrum að bera virðingu fyrir lögum ef ráðherrar eiga ekki að gera það?