Einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 16:58:01 (585)


[16:58]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sú fullyrðing að einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnari hafi runnið út í sandinn er röng að mínu áliti jafnvel þótt útlit sé fyrir að sala ríkiseigna skili aðeins 100 millj. kr. á þessu ári. Á síðasta ári voru eftirtaldar ríkiseignir seldar:
    1. Hlutur ríkisins í Ferðaskrifstofu Íslands,
    2. Prentsmiðjan Gutenberg,
    3. framleiðsludeild ÁTVR,
    4. hlutur ríkisins í Þróunarfélagi Íslands.
    Sala á hlutabréfum í Jarðborunum var hafin og söluandvirði Skipaútgerðar ríkisins og Menningarsjóðs var ráðstafað til greiðslu á skuldum. Þar að auki voru ýmsar fasteignir seldar og söluandvirði þeirra fært til tekna í ríkisreikningi. Og einnig má nefna sem ekki kemur fram sem bein sala, þann sparnað sem felst í því að ekki þarf að sjá fyrir framlögum til félaga og fyrirtækja sem rekin voru með tapi.
    Auk sölu á fyrirtækjum og eignarhlutum hafa einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar og einstök ráðuneyti unnið að undirbúningi þess að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög. Á síðasta þingi voru lögð fram frv. um breytingu margra stofnana í hlutafélög og má í því sambandi nefna Síldarverksmiðju ríkisins, Áburðarverksmiðju ríkisins, Sementsverksmiðju ríkisins og Lyfjaverslun ríkisins. Einnig er rétt í þessu sambandi að minna á frv. um afnám einkaréttar ÁTVR á innflutningi og heildsölu tóbaks. Frv. um síldarverksmiðjurnar og Sementverksmiðju ríkisins voru samþykkt en ekki náðist að afgreiða önnur frv. en þau verða vonandi afgreidd nú á haustþinginu.
    Sala ríkiseigna skilaði ekki þeim 1.500 millj. á þessu ári eins og áformað var fyrst og fremst vegna þess að ákveðið var að bíða með einkavæðingu ríkisbankanna tveggja. Eins og áður hefur komið fram var ástæðan tímabundnir erfiðleikar í efnahagslífinu sem m.a. birtast í mikilli lægð á hlutabréfamarkaðnum og slæmri afkomu bankanna. Við gerð

fjárlaga kom skýrt fram að umrædd tekjufjárhæð var grundvölluð á því að sala hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands hæfist á þessu ári. Frestun málsins breytir því hins vegar ekki að stefnt er að einkavæðingu viðskiptabankanna í eigu ríkisins. Áformað er að breyta þeim í hlutafélög og hefja sölu á hlutabréfum í Búnaðarbankanum þegar aðstæður leyfa.
    Önnur ástæða fyrir minni tekjum á þessu ári en áformað var, er að ekki náðist að fá frv. um Lyfjaverslun ríkisins samþykkt á síðasta þingi, en sala á fyrirtækinu var áformuð á seinni hluta þessa árs. Jafnframt er talið ráðlegt að gefa sér meiri tíma en upphaflega var áætlað til að hefja sölu hlutabréfa í SR-mjöli.
    Einkavæðingin og aðrar leiðir af sama toga sem núv. ríkisstjórn hefur kynnt og innleitt eru rétt að festa rætur hér á landi. Þegar brautin hefur verið rudd verður um varanlegar umbætur og nýskipan í ríkisrekstri að ræða. Það mun ekki skipta sköpum þegar upp er staðið þó hægar hafi gengið í upphafi en áformað var, einkavæðingin er hafin, ákveðin og markviss skref hafa þegar verið tekin og undirbúningur fyrir þau næstu er í fullum gangi. Ég fagna því að hv. fyrirspyrjandi skyldi lýsa því yfir í ræðu sinni að einkavæðing ætti rétt á sér að vissu marki. Reyndar kemur það mér ekki á óvart því hún skrifaði grein í DV fyrir skömmu þar sem þessi sjónarmið komu fram, þótt hún vilji ganga skemmra en ríkisstjórnin vill.
    Ég heyri að margir hafa beðið um orðið og ég býst við að velunnarar Búnaðarbankans séu hér komnir og vilji fá að tala og skal það nú leyft, að sjálfsögðu. En af því tilefni vil ég þó bæta í það púkk að ekki stendur til á þessu ári og ekki er gert ráð fyrir því í fjárlögum næsta árs að inn komi tekjur af sölu Búnaðarbankans. Þannig að það sé alveg ljóst að í þeim 500 millj. sem standa í fjárlögum er ekki gert ráð fyrir að selt sé hlutafé Búnaðarbankans verði hann gerður að hlutafélagi, sem ég tel vera mjög skynsamlegt.