Umfang ómældrar yfirvinnu

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 17:20:46 (597)

[17:20]
     Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka svar hæstv. fjmrh. Slíkar greiðslur eru í raun og veru þannig í mörgum tilvikum að telja má að verið sé að bæta lág grunnlaun upp þannig að ekki verði samanburðarhæft milli starfsstétta. Mér finnst þegar yfirvinna er orðin 30% hlutfall af launum sé verið að brengla launakerfi og þar sem þetta á aðeins við um ríkið tel ég að það sé ástæða til þess að skoða þessi mál miklu nánar.
    Launabilið á Íslandi er orðið miklu meira en tífalt. Tífalt launabil útborgaðra launa ætti að vera nægjanlegt svigrúm fyrir allar starfsstéttir og það verður að ætlast til þess að þegar þrengist að geti aðilar vinnumarkaðarins komist að samkomulagi innan þess ramma.
    Ég held að þegar svona er komið og þegar einn getur borið tuttugufaldan hlut fyrir sína vinnu á móti lægstu viðmiðunarlaunum, þá verði að stokka upp og gefa upp á nýtt í samræmi við raunveruleika og staðreyndir.
    Ég vil segja það hér að ef engin hreyfing kemur frekar á þessi mál á næstu dögum, þá treysti ég því að þeir hv. þm. úr öllum flokkum sem höfðu vilja til þess að styðja ályktun um þessi mál taki höndum saman og hrindi af stað aðgerðum sem duga.